Frábærlega heppnaðir tónleikar Grindavíkurdætra í Hljómahöll 10. nóvember
Gleðisprengjan Páll Óskar skemmdi ekki fyrir
„Það er mikið hjarta í þessum kór og allri okkar starfsemi,“ segir kórstjóri Grindavíkurdætra, Berta Dröfn Ómarsdóttir en kórinn hélt frábæra tónleika í Hljómahöllinni á dagsetningu sem mun alltaf verða minnisstæð Grindvíkingum, 10. nóvember. Uppselt var á tónleikana og kom sjálfur poppkóngur Íslands, Páll Óskar Hjálmtýsson, fram í lok tónleikanna sem heppnuðust einstaklega vel.
Berta var rétt búin að þerra tárin baksviðs að loknum tónleikunum en söngfuglarnir hennar færðu henni veglegan blómvönd og töluðu fallega um kórstjórann sinn.
„Það er einstakur andi í þessum kór og auðvitað þótti mér vænt um þetta hjá stelpunum en þær hafa staðið sig ótrúlega vel. Þetta ár er búið að vera mörgum Grindvíkingum erfitt og um tíma var ekkert alltof góð mæting en sem betur fer bauð Fjallabróðirinn Halldór Gunnar Pálsson okkur að syngja með þeim á styrktartónleikum í Hörpu og það virkaði sem alger vítamínssprauta fyrir okkur. Við höfum í raun aldrei getað rekið kórinn undir eðlilegu kringumstæðum því hann var stofnaður rétt fyrir covid, svo kom þetta í fyrra. Andinn er bara einstaklega góður og það sem einkennir okkur er orka, kraftur og gleði.
Þessir tónleikar heppnuðust ofboðslega vel, kórinn hefur aldrei verið betri held ég og vonandi skein í gegn hversu gaman er hjá okkur, það skemmdi líka ekki fyrir að fá Pál Óskar í lokin. Stelpurnar voru til í að prófa ýmislegt nýtt varðandi framkomu og við bættum nýjum lögum inn í lokin, þær voru bara jákvæðar og ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi kór er kominn til að vera, ef að heimsfaraldur og rýming frá Grindavík gat ekki stútað kórnum, gerir það ekkert.
Þessir tónleikar voru stórt verkefni og eftir að við höfum náð andanum og jafnað okkur förum við að skipuleggja þá næstu, við stefnum á að fara til Vestmannaaeyja, við eigum eldgosasystur þar og vilji er fyrir hendi að syngja með þeim, ég hlakka mikið til,“ sagði Berta.
Fjallabræðra-vítamínssprauta
Teresa Bangsa og Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir voru saman í bekk í alla grunnskólagönguna í Grindavík og hafa alltaf verið góðar vinkonur. Hlutskipti þeirra undanfarið árið var samt ólíkt því Ólína hefur búið í Reykjavík undanfarin ár á meðan Teresa var ein þeirra sem þurfti að rýma Grindavík. Teresa segir að kórinn hafi bjargað miklu í sínu sálarlífi.
„Það að geta hitt Grindavíkurdætur hefur bjargað mjög miklu félagslega en um tíma var þetta samt erfitt, þetta hefur reynt á sálarlífið en alltaf var gott að geta hitt kórinn. Það var æðsilegt tækifæri að fá að syngja með Fjallabræðrunum í Hörpu og við það fengum við þvílíkan fídonskraft í okkur. Ég held að við getum þakkað Halldóri Gunnari Fjallabróður að við séum ennþá saman því áður en þeir tónleikar voru ákveðnir þá var sálarlíf okkar margra ekki upp á sitt besta. Um leið og við hófum æfingar fyrir þá tónleika þá fundum við gamla góða andann aftur og höfum ekki horft til baka síðan þá. Það var spennandi að fá poppstjörnuna Pál Óskar og þá fannst okkur að við þyrftum að vanda okkur extra mikið en við gerum það hvort sem er alltaf svo það var í raun ekkert nýtt, bara gaman að deila sviði með þessum fagmanni sem Palli er,“ segir Teresa.
Ólína segir að hlutverk þeirra sem bjuggu utan Grindavíkur hafi ekki aukist neitt, þær hafi bara allar staðið saman.
„Það er búið að vera erfitt að fylgjast með þessum hremmingum í Grindavík en að sjálfsögðu ekkert í líkingu við þá sem bjuggu í bænum. Ég hef reynt að vera til staðar í kórnum, búa til stemningu og létta undir. Berta kórstjóri og Ásdís undirleikari sáu um að draga vagninn og þetta var furðulegur tími, því ber ekki að neita. Stelpurnar fundu fljótt að þær þurftu á kóræfingunum að halda, sumar mættu vel til að byrja með en svo kom eitthvað upp á og þá gátu þær ekki mætt. Svo bara gerðist eitthvað og við fengum styrk frá hvorri annarri en andinn í þessum kór er eitthvað annað. Ég hef spilað fótbolta með mörgum liðum og ég hef aldrei fundið sama anda eins og í Grindavík, þegar við tökum okkur saman þá sigrar okkur ekkert. Oft verður til þessi ólýsanlega stemning í Grindavík og samtakamátturinn verður magnaður, ég hef þá trú að þessi stemning muni myndast þegar fólk fer að huga að því að flytja heim aftur.
Við Grindavíkurdætur getum held ég verið mjög stoltar, það var afrek að halda kórnum gangandi í þessum hremmingum og það var uppselt á þessa tónleika, það hjálpar okkur heldur betur upp á framhaldið. Síðast en ekki síst var góð tilfinning að gefa Grindvíkingum svona samverustund, það var einstakur andi á þessum tónleikum held ég. Ég hlakka mikið til framtíðarinnar með systrum mínum í Grindavíkurdætrum,“ sagði Ólína.
Hljómahöll með því betra sem gerist á Íslandi
Poppstjarna Íslands, Páll Óskar Hjálmtýsson, þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar þegar tækifærið að koma fram með Grindavíkurdætrum, barst honum. Hann hefur sungið út um allt á Íslandi og hælir Hljómahöllinni mikið. Blaðamaður fékk nokkrar mínútur með Palla áður en hann steig á svið.
„Hljómahöllin er með því betra sem gerist á Íslandi, allt er mjög fagmannlega unnið hjá þeim sem stýra hér málum. Ég er hér í frábæru baksviðsherbergi og get komið mér í rétta gírinn og haft mig til. Ég held ég sé búinn að syngja alls staðar á Íslandi og að mínu mati er Hljómahöllin með því betra sem gerist hér á landi.
Ég þurfti ekki að hugsa mig um tvisvar þegar þetta tækifæri kom, ég finn að andinn er mjög góður í salnum og ég get ekki beðið eftir að troða upp með dætrunum. Þessir tímar í Grindavík hafa auðvitað verið erfiðir en þá getur tónlistin gert svo mikið fyrir mann. Ég er viss um að mikill tilfinningarússibani er í gangi hjá Grindvíkingnum í salnum en þá er svo gott að lygna aftur augunum og njóta tónlistarinnar. Tónlistin getur heilað, hún læknar, hún leyfir manni að flýja pínu hið daglega dægurþras og gleyma sér í augnablikinu. Það verður æðislegt að troða upp með Grindavíkurdætrum,“ sagði Palli að lokum.