Mannlíf

Troðfullt í Hljómahöll og Grindavíkurkirkju og ljós tendruð á geitinni í Grindavík
Troðið var út úr dyrum í Grindavíkurkirkju.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 14. nóvember 2024 kl. 07:00

Troðfullt í Hljómahöll og Grindavíkurkirkju og ljós tendruð á geitinni í Grindavík

„Þetta er búinn að vera æðislegur dagur,“ segir Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, en á sunnudaginn var eitt ár liðið frá hremmingunum við Grindavík. Vitað var að Grindvíkingar myndu minnast þessa dags og var margt í boði. Grindavíkurdætur héldu tónleika í Hljómahöll, samverustund var í Grindavíkurkirkju og að lokum voru ljósin tendruð á nýju listaverki, geitinni, en þetta listaverk stendur austan megin við Kvikuna og mun lýsa upp skammdegið.

Ásrún leyndi ekki tilfinningum sínum þegar blaðamaður hitti hana við nýju geitina.

„Þetta er búinn að vera mjög tilfinningaríkur dagur, það er alveg óhætt að segja það. Það var æðislegt að sjá Grindavíkurdætur ásamt gleðisprengjunni Páli Óskari en ég hef oft séð þennan frábæra kór syngja en held að þarna hafi þær toppað sig. Ég var meir allan tímann og skemmti mér virkilega vel.

SSS
SSS

Það þurfti kannski ekki að koma á óvart hversu góð mætingin var í kirkjuna okkar en þessi samverustund sýnir mér hversu sterkt samfélagið okkar er og hversu mikið Grindvíkingar sakna bæjarins og samfélagsins. Það voru mörg faðmlögin og oft sáust tár á kinn.

Dagurinn endaði svo neðan við Kvikuna þegar ljósin á geitinni voru tendruð. Það er búið að standa til lengi að láta hanna þetta merki en geitin er hluti af bæjarmerkinu okkar. Hún tekur sig vel út hér við Kvikuna og við ræddum hugsanlega flóðahættu, það fylgja stígvél með geitinni svo hún á alveg að geta staðið smá flóð af sér en hvar hún endar er ekki komið á hreint á þessum tíma. Ljósin á geitinni munu alltaf lýsa, þ.e. þetta er ekki neitt tengt jólunum eða svartasta skammdeginu. Geitin á bara að lýsa upp tilveru okkar og ég held að hún sé táknræn fyrir okkur Grindvíkinga, eigum við ekki að segja að nú sé búið að kveikja vonarneista hjá Grindvíkingum. Nú höldum við bara áfram að byggja bæinn upp og ég er sannfærð að áður en langt um líður verður komið eðlilegt líf í Grindavíkinni okkar,“ sagði Ásrún.

Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Flugvöllurinn og Sandgerði

Halla María Svansdóttir, eigandi veitingastaðarins Hjá Höllu, hefur verið með starfsemi sína í Sandgerði að undanförnu.

„Það var virkilega gaman að koma til Grindavíkur í dag en við fjölskyldan erum búin að koma okkur fyrir í Keflavík og auðvitað hefur árið verið erfitt en við kvörtum ekki, það eru margir sem hafa átt mun erfiðara en við. Við erum ekki með ung börn eða þurfum að hugsa um aldraða foreldra. Veitingastaðurinn minn í Grindavík hefur verið lokaður síðan þessar hamfarir byrjuðu en sem betur fer fann ég góða aðstöðu í Sandgerði og rek eldhúsið þaðan. Við höfum getað sinnt okkar fastakúnnum og fyrir það erum við þakklát. Ef fólk vill setjast niður og borða á staðnum þarf það að fara upp á flugvöll en við erum farin að huga að því að opna aftur í Grindavík, það verður æðislegt að komast aftur heim en hvenær það verður treysti ég mér ekki á þessum tímapunkti að segja til um. Við munum samt áfram vera í Sandgerði með eldhúsið okkar.

Það var gott að koma heim, við höfum saknað samfélagsins og því var æðislegt að koma svona mörg saman í kirkjunni, tónleikarnir hjá Grindavíkurdætrum voru líka frábærir,“ sagði Halla.

Halla María Svansdóttir, eigandi Hjá Höllu.
Ljóð um Grindavík

Gunnar Már Gunnarsson situr í bæjarstjórn Grindavíkur en hann kom mörgum á óvart þann 10. nóvember þegar hann birti margra erinda ljóð á Youtube um hremmingar Grindvíkinga. Hann fékk ljósmyndir frá hinum frábæra grindvíska ljósmyndara, Jóni Steinari Sæmundssyni og sögumaður Íslands, Aðalgeir Jóhannsson, les ljóðið að sinni alkunnu snilld.

„Mér líður virkilega vel í dag, þetta var afskaplega fallegur dagur og gaman að enda hann hér við Kvikuna og tendra ljósin á þessari fallegu geit.

Eflaust kom ég mörgum á óvart með þessu ljóði mínu en í maí ætlaði ég að skrifa pistil og birta á Facebook en ég hugsaði með mér að svona pistill er strax gleymdur og datt því í hug að semja frekar ljóð. Þegar ég byrjaði þá bara vall þetta frá mér og þetta endaði í 25 erindum en hvert erindi er fjórar línur. Mér datt strax í hug að fá myndir frá Jóni Steinari og svo eru fáir ef nokkrir, eins góðir og Alli á Eyri að lesa ljóð. Ég er mjög ánægður með útkomuna og þetta mun auðvitað lifa góðu lífi á Youtube.

Annars er ég bjartsýnn á framtíðina en vil að við tökum þetta í stuttum skrefum og það sé engin pressa á einum né neinum. Fólk verður að fá að gera hlutina á sínum hraða og ég er ekki í nokkrum vafa um að samfélagið mun byggjast upp hægt og örugglega. Ég vona að skóli og leikskóli taki til starfa í Grindavík næsta haust en það er auðvitað háð náttúruöflunum en ef náttúran mun ekki gera okkur meiri skráveifu á næstunni, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að skóli og leikskóli hefjist hér næsta haust,“ sagði Gunnar Már.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Grindavík
Hollvinasamningurinn lykilatriði

Eiríkur Dagbjartsson og Sólveig Ólafsdóttir bjuggu í Grindavík meira og minna fram í júní eftir að bærinn var fyrst rýmdur og hafa alfarið búið í bænum síðan þá, þau eru bjartsýn á framtíðina. Eiríkur sparaði ekki lýsingarorðin.

„Þetta er besti dagurinn í Grindavík í rúmt ár, það var frábært að sjá allan þennan fjölda í Grindavíkurkirkju og virkilega gaman að sjá ljósin tendruð á geitinni, hún mun svo sannarlega lýsa upp skammdegið. 

Varðandi framtíð Grindavíkur þá er það mín skoðun að hollvinasamningurinn sem Þórkatla mun kynna á næstunni, er algert lykilatriði í að bjarga þessu samfélagi sem okkur þykir svo vænt um. Þó svo að fólk sé búið að selja og afhenda húsin, þá er nauðsynlegt að færa því lyklavöldin og þau geti verið eins og þau treysta sér til. Á móti borgar viðkomandi fyrir rafmagn og hita og sinnir eðlilegu viðhaldi. Þetta verður til þess að fólk kemur meira til Grindavíkur og fleiri og fleiri munu flytja aftur heim. Fullorðna fólkið fyrst og svo mun barnafólkið sjá að þetta er ekki hættulegt og þá mun það sömuleiðis snúa heim, það er ég sannfærður um en þessi hollvinasamningur er algert lykilatriði í þessum efnum. Ég vona innilega að forsvarsfólk Þórkötlu hugsi þetta dæmi til enda því ekki nóg með að þetta muni bjarga samfélaginu, þá mun þetta líka bjarga húsunum frá eyðileggingu en nú þegar erum við farin að heyra af mygluvandamálum í húsum sem engin umgengni er um,“ sagði Eiríkur.

Solla bætti um betur.

„Ég get toppað manninn minn því ég fór líka á tónleika Grindavíkurdætra og Páls Óskars í Hljómahöllinni, þeir voru hreint sagt stórkostlegir. Samverustundin í kirkjunni var æðisleg og það skemmdi ekki fyrir að lýsa upp þessa fallegu geit. Dagurinn var algerlega frábær og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn varðandi framtíð Grindavíkur. Þetta er alveg rétt sem Eiríkur segir, það verður að koma með eitthvað aðlaðandi útspil til handa Grindvíkingum. Ég veit til þess að vandamál hafi komið upp varðandi fjölmörg grindvísk börn sem eru ekki að finna sig í nýjum skóla. Þau sakna Grindavíkur sárt og ég er viss um að ef að þessum börnum yrði gefinn kostur á að fara dvelja eitthvað í Grindavík, myndi það bjarga sálarlífi þeirra. Það er allt sem mælir með þessu og vonandi bregst forsvarsfólk Þórkötlu vel við þessum hugmyndum,“ sagði Sólveig að lokum.

Eiríkur og Solla.

Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, Björn Skúlason og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, við samverustundina í Grindavíkurkirkju. Robinson er fyrsta konan sem var kjörin forseti Írlands. Hún gegndi embættinu á árunum 1990–1997. Hún var í fylgd með Höllu en þær eru vinkonur. VF/Ingiberg

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, flutti ávarp til Grindvíkinga. Það má lesa á vef Víkurfrétta, vf.is.

Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur, ávarpaði samkomuna.

Ljós vonarinnar, geitin úr bæjarmerki Grindavíkur er upplýst við Kvikuna.

Ljóð Gunnars Más Gunnarsson, lesið af Alla á Eyri, myndskreytt af Jóni Steinari Sæmundssyni.