Landsig mælist í Svartsengi og hættumat uppfært
Síðan í gær hafa þrjú svæði verið virk á gossprungunni á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Virkni í þeim var nokkuð stöðug í nótt en mesta virknin er í gígnum sem er í miðjunni. Litlar breytingar hafa mælst á gosóróa sem samræmist því að stöðug virkni sé í eldgosinu. Hraunrennslið er aðallega í vestur og kemur sá hraunstraumur frá gígnum í miðjunni, en hraun frá syðri og nyrðri hluta gossprungunnar renna að mestu leyti til austurs en ógnar engum innviðum þar. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Veðurstofu Íslands.
Töluvert hefur hægt á framrás hraunsins norðan varnargarða við Svartsengi. Hrauntungan þar hefur mætt fyrirstöðu í landslaginu og dreifir því úr sér til norðurs frá varnargörðunum og þykknar. Miðað við upphafsfasa eldgossins hefur dregið mikið úr hraunrennsli frá gossprungunni en þó er enn töluvert flæði frá virku gígunum, sérstaklega til vesturs.
Mynd sem tekin var kl. 9:40 í morgun með vefmyndavél VÍ í Fagradal. Vélin horfir til suðvesturs og sýnir þrjú virk svæði á gossprungunni. Hægra megin á myndinni sést Stóra-Skógfell og vinstra megin í bakgrunni er Þorbjörn.
Kortið sýnir útbreiðslu hraunsins eins og það var kl. 01:38 skv. gervitunglamynd Iceye.
Landsig mælist í Svartsengi
Land heldur áfram að síga í Svartsengi sem er í samræmi við að talsvert flæði er enn í gosinu. Um 10 milljón rúmmetrar af kviku streymdu úr kvikuhólfinu á fyrstu klukkustundunum sem er um helmingur af því rúmmáli sem safnast hafði í kvikuhólfið síðan í síðasta eldgosi. Þróunin á siginu í Svartsengi er sambærileg miðað við það sem sást í upphafi síðustu tveggja eldgosa. Búast má við að land haldi áfram að síga meðan flæðið í eldgosinu helst hátt.
Færslur á GPS stöðinni SKSH (Skipastígshraun) í Svartsengi síðan um miðjan september í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Mælipunktar eru á fjögurra tíma fresti og nýjasta mæling síðan kl. 8 í morgun (22. nóvember) sýnir áframhaldandi sig á Svartsengissvæðinu (Mynd frá Háskóla Íslands).
Hættumat uppfært
Hættumat hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 25. nóvember. Helsta breytingin er sú að heildarhætta á svæði 4, Grindavík, er nú metin töluverð (appelsínugul). Samkvæmt mælingum og sjónskoðun sem jarðkönnunarteymi Ísor, Eflu og Verkís framkvæmdu í gær, voru engin skýr ummerki um nýjar hreyfingar á sprungum og engar nýjar sprungur sjáanlegar innan Grindavíkur. Því hefur hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingar verið lækkuð og er nú metin eins og fyrir upphaf yfirstandandi goss. Hætta á hraunflæði og gjóskufalli er einnig metin minni á svæði 4 enda stefnir ekkert hraun á bæinn. Vegna ríkjandi vindátta á næstu dögum er hætta á gasmengun metin mjög mikil. Engar breytingar á heildarhættu á öðrum svæðum.
Gasdreifingarspá í dag er norðaustlæg átt og á morgun berst gasmengun til suðvesturs í átt að Grindavík og Svartsengi. Ekki er búist við gróðureldum. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá á vef okkar. Einnig er hægt að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.