Af neyðarstigi Almannavarna á hættustig vegna eldgoss við Sundhnúka
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa ákveðið að færa almannavarnastig af neyðarstigi á hættustig vegna eldgossins við Sundhnúka. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að virkni er í þremur gígum og hefur hún haldist nokkuð stöðug frá því í gær, hraunrennslið er aðallega í vestur og kemur sá hraunstraumur frá gígnum í miðjunni. Hraun frá syðri og nyrðri hluta gossprungunnar renna að mestu leyti til austurs en ógnar engum innviðum þar. Töluvert flæði er frá virku gígunum, sérstaklega til vesturs.
Þessi ákvörðun dregur ekki úr viðbúnaði viðbragðsaðila og Almannavarnasviðs í tengslum við aðgerðir vegna eldgossins.
Áfram verður fylgst vel með framgangi eldgossins og mögulegum afleiðingum. Á vef Veðurstofunnar er hægt að fylgjast með gasdreifingarspá næstu daga, á vef Umhverfisstofnunar, www.loftgeadi.is er hægt að fylgjast með loftgæðum á svæðinu. Á vef HS Veitna kemur fram að allar mælingar benda til þess að hraunflæði hafi enn sem komið er ekki haft áhrif á Njarðvíkuræðina og hefur afhendingargetan því verið óskert. Á sama vef er hægt að nálgast leiðbeiningar vegna mögulegs langtíma þjónusturofs veitukerfa, ef til þess kæmi vegna náttúruhamfara (https://hsveitur.is/spurt-og-svarad/natturuhamfarir/)