Glæsilegir Galatónleikar í tilefni 30 ára afmælis Reykjanesbæjar
Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar heldur Óperufélagið Norðuróp í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar glæsilega Óperugalatónleika í Stapa með 17 einsöngvurum, kór, barnakór og sinfóníuhljómsveit. Fluttar verða þekktar óperuaríur með kórum, Nessun Dorma, Casta Diva, Habanera (Carmen), Nautabanaarían, dúettar, kórar og senur úr óperum, La Boheme, La Traviata, Don Carlo, Lakme, Nabucco, Cavaleria Rusticana og Hans og Grétu.
Fram koma glæsilegir gestasöngvarar, þar á meðal Arnheiður Eiríksdóttir mezzosópran, sem nýverið var valin „Rísandi stjarna óperuheimsins“ á Alþjóðlegu óperuverðlaununum í München, Dísella Lárusdóttir sópran, sem sungið hefur undanfarið í Metropolitan Óperuni í New York, Hanna Olgeirsdóttir sópran, sem var sigurvegari í einsöngvarakeppninni Vox Domini 2024, Davíð Ólafsson bassi, sem hefur sungið fyrir landsmenn og víða erlendis, Aron Cortes bariton, sem hefur sungið víða hér heima og erlendis, Cesar Alonzo Barrera tenor sem mun syngja hina frægu aríu Nessun Dorma og Guðmundur Eiríksson bariton, sem sungið hefur óperuhlutverk bæði hér heima og á Ítalíu. Svo höfum við einsöngvara sem tengjast svæðinu. Þar á meðal, Alexöndru Chernyshova, sópran, Braga Jónsson, bassa, Rósalind Gísladóttur, mezzosópran og svo meðlimi úr óperustúdíói Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar: Birna Rúnarsdóttir sópran, Bryndís Schram Reed, mezzosópran, Jelena Raschke, sópran, Júlíus Karl Einarsson, tenor, Linda Pálína Sigurðsdóttir, sópran, Steinunn Björg Ólafsdóttir, sópran og frá Litháen, Marius Kraujalis tenor.
Hátíðarkór Norðuróps, sem flutti hin glæsilegu Mozart Requiem árið 2022 og Verdi Requiem árið 2023 mun hér bæði syngja þekkta kórþætti og með einsöngvurunum. Þá syngja krakkar úr barnakórunum Regnbogaraddir frá Keflavíkurkirkju og Barnakórar Sandgerðisskóla og Gerðaskóla með í atriði úr Hans og Grétu. Tuttugu og sjö manna sinfóníuhljómsveit skipuð nemendum og kennurum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur með. Stjórnandi er Jóhann Smári Sævarsson og konsertmeistari er Una Sveinbjarnardóttir. Æfingapíanisti tónleikanna er Antonia Hevesi.
„Við getum lofað algjörri „flugeldasýningu“, með glæsilegu listafólki og fallegustu perlum óperubókmenntanna,“ segir Jóhann Smári Sævarsson. Miðasala er á tix.is