Viðreisn
Viðreisn

Mannlíf

Sundlaugin í Grindavík búin að opna á ný
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 15. nóvember 2024 kl. 07:00

Sundlaugin í Grindavík búin að opna á ný

Opið tvo daga í viku til að byrja með

„Það var mjög góð tilfinning að opna loksins sundlaugina, gaman hversu margir Grindvíkingar komu í sund í dag,“ segir Jóhann Árni Ólafsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í Grindavík en segja má að stór dagur hafi verið í endurreisn Grindavíkur mánudaginn 11. nóvember en þá opnaði sundlaugin og líkamsræktaraðstaða Grindvíkinga. Til að byrja með verður opið tvo daga í viku, á mánudögum frá 16 til 20 og á laugardögum frá 10 til 14.

Sundlaugin slapp að mestu undan hamförunum í fyrra og þurfti ekki mikið að gera til að koma henni í toppstand.

„Starfsmennirnir í áhaldahúsi Grindavíkur hafa verið að dytta að sundlauginni að undanförnu en lítið þurfti að gera til að koma henni í starfhæft ástand. Við höfum verið með vatn í henni allan tímann, annars hefði hún getað skemmst og það er bara mjög góð tilfinning að geta opnað hér í dag. Til að byrja með ætlum við hafa opið tvo daga í viku, á mánudögum frá 16-20 og á laugardögum milli 10-14. Mætingin á opnunardeginum fór fram úr mínum björtustu vonum og það kæmi mér ekki á óvart ef ennþá fleiri mæti á laugardaginn, mig grunar að fjölskyldufólk muni þyrpast til Grindavíkur þá, taka sundsprett og fá sér að borða á einhverjum af þeim stöðum sem eru búnir að opna.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þetta er eitt af þessum litlu skrefum sem við erum að taka og vonandi munum við ekki þurfa loka sundlauginni aftur en tíminn verður að leiða það í ljós,“ sagði Jóhann Árni.

Grindavík þjóðhagslega mikilvæg

Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason var ásamt öðru Sjálfstæðisfólki í efstu sætum fyrir komandi kosningar, í heimsókn í Grindavík þennan dag og að sjálfsögðu skellti hann sér í sund og hitti þar fyrir annan Grindvíking, Styrmi Jóhannsson.

„Tilfinningin er yndisleg og frábær, það eru jákvæðu skrefin sem skipta máli,“ segir Vilhjálmur.

„Það má segja að kosningabaráttan sé komin á fullt en við höfum verið hér í Grindavík í dag til að ræða málefni Grindavíkur og hvernig tekið verður á málum hér í framhaldinu. Við heyrum skilaboðin, Grindvíkingar vilja fá að taka stjórn á sínum málum sjálfir, fá sæti við borðið og fá að aðlagast náttúrunni. Ég sé það hér í dag og eins á sunnudaginn á tónleikunum í Hljómahöll og svo í kirkjunni, þetta samfélag er gríðarlega sterkt og mér finnst eins og fólk sé að fá vonina aftur og sér að framtíðin liggur hér. Fólk vill bara fá traust til þess að lifa með náttúrunni og byggja samfélagið upp. Málefni Grindavíkur verða á meðal þeirra mála sem við Sjálfstæðismenn munum tefla fram í komandi kosningabaráttu, okkar gildi og stefna er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og leyfa fólki að ráða för sinni. Þar fyrir utan er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að byggja atvinnulífið í Grindavík upp, bærinn er það stór hluti af íslensku efnahagslífi, bæði sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og alls kyns framleiðsla,“ sagði Vilhjálmur.

Styrmir Jóhannsson er starfsmaður Fiskmarkaðs Suðurnesja í Grindavík og hefur verið mikið í bænum án þess að búa.

„Framtíð Grindavíkur er góð, þetta fer hægt og örugglega af stað og verður flott þegar fram líða stundir. Ég og mín fjölskylda erum búin að koma okkur fyrir á Álftanesi og það fer bara ljómandi vel um okkur þar, þetta er ekki ósvipað og Grindavík, sjórinn er nálægt okkur svo það er ekkert undan því að kvarta. Hvenær við snúum til baka til Grindavíkur verður bara að koma í ljós en ég er bjartsýnn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Styrmir.

Göngutúr í sundlauginni

Björn Haraldsson eða Bangsi í Bárunni eins og hann er betur þekktur, var að sjálfsögðu mættur í sundlaugina á opnunardeginum en fyrir rýmingu leið varla sá dagur að hann tæki ekki sitt rölt ofan í lauginni, hann syndir ekki heldur labbar í vatninu fram og til baka.

„Samkvæmt læknisráði geri ég þetta svona, ég tuddast á því í u.þ.b. klukkustund og hreyfi hendurnar í leiðinni. Mér finnst þetta afskaplega gott og finnst mjög jákvætt að geta snúið til baka í sundlaugina mína. Ég hef verið hér í Grindavík meira og minna síðan í fyrra og vil hvergi annars staðar vera, bæði er þetta hagkvæmara fyrir okkur hjónin og svo vil ég líka ganga fram með góðu fordæmi, sýna öðrum fram á að þetta er alveg hægt. Þetta er búinn að vera ótrúlegur heilaþvottur í gangi allan þennan tíma en nú held ég að þetta sé að koma og við förum að heyra breyttan tón. Ég efast ekkert um að allir hafa verið að gera sitt besta en nú verðum við bara að fara koma Grindavík í gang á nýjan leik, það eru alltof mikil verðmæti og þekking hér í húfi. Ég trúi ekki öðru en skóla- og leikskólahald hefjist hér næsta haust og ég veit um tvo kennara sem myndu vilja koma strax á morgun og fara kenna. Ég er sannfærður um að þegar líf fer að stefna hér í eðlilegt horf að þá muni Grindvíkingar flykkjast heim,“ sagði Bangsi að lokum.

Kraftakarlar

Útgerðarmaðurinn Stefán Kristjánsson úr Einhamri Seafood og annar pizzukónganna í Grindavík, Gylfi Ísleifsson á Papas, hafa alltaf verið duglegir að stunda líkamsrækt.

Gylfi lét ekki deigan síga þrátt fyrir að líkamsræktin í Grindavík væri lokuð.

„Ég hef verið að lyfta í Hafnarfirði og í bílskúrnum heima en hef reyndar verið hálflatur, verð víst að viðurkenna það. Það er bara frábært að búið sé að opna og ég trúi ekki öðru en opnunartíminn verði rýmri, ástæðulaust að hafa bara opið á mánu- og laugardögum en ég skil að fólk vilji flýta sér hægt. Nú myndi ég bara vilja sjá grindvísk bæjaryfivöld gera út á sundlaugina okkar, það er sama vatn sem rennur í hana og fer í Bláa lónið, með góðri markaðssetningu væri hægt að laða erlendu ferðamennina til Grindavíkur og í sund, rukka þrjú þúsund krónur ofan í en Grindvíkingar og Íslendingar geta keypt sér kort. Ég er sannfærður um að sundlaugin myndi fyllast og yfir höfuð hef ég gríðarlega trú á Grindavík, ég sé það á Papas að fólk hefur verið að bíða eftir þessu og ef við höldum rétt á spöðunum gerum við Grindavík að flottasta ferðamannstað á Íslandi, jafnvel í heimi,“ sagði Gylfi.

Stefán hefur verið nokkuð áberandi í baráttunni fyrir Grindavík og var í skýjunum með að geta gripið í lóðin í heimabænum og látið líða úr sér í heita pottinum þar á eftir.

„Þetta er bara alveg æðislegt, þetta er mikill gleðidagur hér í Grindavík, svona mun líf færast í bæinn hægt og örugglega. Þetta er frábær líkamsræktaraðstaða hér, á pari við það besta á landinu og ég tek undir með Gylfa, vonandi verður opið fleiri daga og það mun pottþétt verða, ég hef engar áhyggjur af öðru. Ég er hálfpartinn búinn að svífa á bleiku skýi síðan í gær (sunnudagur 10. nóvember), um tíma fannst mér bara eins og ekkert hafi gerst, frábært að sjá alla þessa Grindvíkinga á tónleikunum, í Grindavíkurkirkju og við Kvikuna, það er bara bjart framundan hjá okkur núna,“ sagði Stefán að lokum.