Aðsent

Algjör viðsnúningur í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 14. nóvember 2024 kl. 07:30

Algjör viðsnúningur í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ

Í fjölmenningarsamfélaginu sem Reykjanesbær er hefur heilt yfir gengið vel að styðja nýja íbúa til búsetu. Fjölmenningin hefur auðgað samfélagið og hún glæðir það lífi.

Skömmu eftir að ferðatakmörkunum vegna Covid létti varð gríðarleg fjölgun einstaklinga sem leituðu til Íslands eftir alþjóðlegri vernd. Vinnumálastofnun að undirlagi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, kaus að búa flestum í þessum hópi samastað í Reykjanesbæ og vorið 2023 var Vinnumálastofnun með um 1100 einstaklinga í þessari viðkvæmu stöðu í þjónustu í Reykjanesbæ.

Mótmæli bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ virtust engu breyta og gekk það svo langt að félags- og vinnumarkaðsráðherra mætti á fund bæjarstjórnar vorið 2023 og lýsti því yfir án þess að blikna að svona væri þetta og svona yrði þetta, raunhæft væri að fækka umsækjendum um alþjóðlega vernd Í Reykjanesbæ að einhverju marki undir lok árs 2025.

SSS
SSS

Reykjanesbær hafði fram að þeim tíma og eftir hann unnið að því sleitulaust að ná bæði samtali og samráði við viðeigandi aðila með það fyrir augum að bregðast þurfi við, sá þrýstingur bar smátt og smátt árangur.

Mikilvægt skref í þeirri vegferð var aðgerðaáætlun vegna dvalar umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ, hún leit dagsins ljós sumarið 2023.

Ítrekuð samtöl og bréfaskriftir við þingmenn og ráðherra áttu sér stað og öll tækifæri nýtt til að minna á þann raunveruleika sem fólki á flótta var boðið upp á í Reykjanesbæ.

Núna í lok október eru um 400 einstaklingar í þjónustu Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ en það er fækkun um 700 einstaklinga. Þessum árangri hefur verið náð með samhentu átaki allrar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, með lagabreytingum á Alþingi og með aðgerðaráætlun Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar. Raunhæfasta sviðsmyndagreining Vinnumálastofnunar gerði ráð fyrir að fjöldinn væri enn um 1100 á þessum tímapunkti.

Við erum því að sjá raunverulegan árangur og við erum að upplifa að á bæjarbúa og bæjaryfirvöld sé hlustað, halda þarf áfram í þessari vegferð.

Það er skoðun bæjarfulltrúa Framsóknar í Reykjanesbæ að hæfilegur fjöldi einstaklinga á flótta sem þjónustaðir eru í hverju bæjarfélag sé um 1-2% af íbúafjölda. Með því móti er hægt að þjónusta þennan viðkvæma hóp á þann hátt að um raunverulega inngildingu í samfélagið verði að ræða. Við erum á leiðinni þangað og munum halda áfram að tala fyrir hagsmunum íbúa Reykjanesbæjar með samvinnu, samstöðu og samstarf að leiðarljósi.

Bjarni Páll Tryggvason
Díana Hilmarsdóttir
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir
Bæjarfulltrúar Framsóknar í Reykjanesbæ