Flokkur fólksins stærstur í Suðurkjördæmi
Flokkur fólksins hefur mesta fylgið í Suðurkjördæmi samkvæmt nýrri könnun Gallup sem RÚV greindi frá fyrr í dag. Í gögnum, sem RÚV deilir með Víkurfréttum og öðrum héraðsmiðlum, um mælingar niður á kjördæmin og þar kemur í ljós að 18,8% kjósenda í Suðurkjördæmi hyggjast kjósa Flokk fólksins.
Könnunin er gerð dagana 1. til 14. nóvember 2024 og samkvæmt henni fengi Flokkur fólksins tvo kjördæmakjörna þingmenn.
Næstur er Sjálfstæðisflokkurinn með 18,1% og einnig tvo kjördæma kjörna þingmenn. Innan við prósenti munar á Sjálfstæðisflokki og Flokki fólksins í Suðurkjördæmi, þar mældust Sjálfstæðismenn með mest fylgi í síðustu könnun, fyrir hálfum mánuði.
Samfylkingin mælist með 16% fylgi í Suðurkjördæmi og fengi jafnframt tvo þingmenn.
Viðreisn mælist með 13,9%, Miðflokkurinn er með 13,3% og Framsókn er með 8,8%. Þessir þrír flokkar eru samkvæmt þessu með einn mann inni hver.
Sósíalistar mælast með 4,1%, Lýðræðisflokkurinn 2,5% og VG er með 2,4%. Píratar eru með slétt 2%.
Samtals liggja 308 svör að baki könnuninni í Suðurkjördæmi.