Boltinn hefur vaxið mjög hratt
Dagleg starfsemi hjúkrunardeildar snýst um að hjálpa skjólstæðingum sem eru að bíða eftir að komast í önnur úrræði við þeirra daglegu athafnir. Vigdís Elísdóttir er deildarstjóri hjúkrunardeildar og hún segir starfsfólk deildarinnar eiga allt hrós skilið en hjúkrunardeildin hefur vaxið hratt síðasta árið, meðal annars vegna rýmingar Grindavíkur en íbúar Víðihlíðar hafa bæst í hóp skjólstæðinga hjúkrunardeildar HSS.
„Deildin okkar sérhæfir sig í að taka á móti skjólstæðingum, bæði frá sjúkradeildinni og eins frá Landspítalanum, sem eru að bíða eftir að komast í hjúkrunarrými. Þetta eru einstaklingar sem geta orðið ekki farið heim aftur, þannig að þetta er svona biðrýmisdeild í rauninni,“ segir Vigdís.
Hvað eru margir skjólstæðingar á deildinni?
„Í dag eru þrjátíu einstaklingar í biðrými hjá okkur og tveir í hvíldarúrræði frá heimahjúkrun. Þeir hafa tvö til fjögur pláss sem þeir fá að hlaupa í til þess að bregðast við vanda sem er kominn í neyð heima.
Þetta er tiltölulega ný deild, ekki satt?
„Jú, við opnuðum hérna 5. október í fyrra. Við vorum búin að vera saman með D-deildinni [sjúkradeildinni] í rúman mánuð, svo fór D-deildin í glænýtt húsnæði upp á þriðju hæð og við sem tilheyrum hjúkrunardeildinni urðum eftir með sjö skjólstæðinga. Þannig byrjaði boltinn að rúlla.“
Starfsfólkið hefur haldið uppi heiðri deildarinnar
Og þann tíunda nóvember á síðasta ári urðu talsverðar breytingar á starfsemi deildarinnar.
„Jú, þá fengum við ansi stóran bolta í fangið við rýminguna í Grindavík. Skjólstæðingar úr Víðihlíð komu hingað inn, þeir komu hingað á deildina og líka upp á þriðju hæð. Við bara settum í öll rúm sem við gátum.
Það komu tuttugu einstaklingar og daginn eftir fór stór hluti þeirra inn á Grund og Vífilstaði, svo fór einn á annað hjúkrunarheimili. Þannig að það dreifðist aðeins en eftir sátum við hér með átján manns sem voru komin í rúm.“
Vigdís segir að fjöldi skjólstæðinga hafi verið kominn í fimmtán þegar rýming Grindavíkur átti sér stað og urðu átján eftir að búið var að færa hluta þeirra á önnur hjúkrunarheimili. „Svo smám saman komu Grindvíkingarnir sem fóru í burtu til baka. Þannig að það stækkaði hratt hjá okkur og boltinn varð svolítið stór – og mitt í öllu þessu, sem við vorum að bæta við þessum skjólstæðingum, þá voru miklar framkvæmdir í gangi á deildinni. Þannig að hér var ys og þys í október, nóvember og desember. Þannig að þegar jólafríið var, og allir iðnaðarmennirnir voru farnir, þá var svona logn á einni nóttu eiginlega.“
Í lok árs var kominn upp erfið staða á Landspítalanum vegna fráflæðisvanda og þá var óskað eftir að hjúkrunardeildin á HSS yrði stækkuð. „Þá var bætt við tíu rýmum, þannig að við vorum allt í einu komin með þrjátíu og þrjú rúm í byrjun janúar. Boltinn óx mjög hratt. Við höfðum varla undan við að átta okkur á í hvaða stöðu við vorum, fólk kom í rúm og við reyndum að gera okkar besta sem við gátum.“
Hvernig hefur gengið að manna þessar stöður sem fylgja þessari stækkun?
„Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt og það er búið að mæða heilmikið á starfsfólkinu, það hefur oft verið mjög undirmannað, en það er búið að standa sig frábærlega og hafa haldið uppi heiðri deildarinnar myndi ég segja. Það á allt hrós skilið, þetta starfsfólk sem hér er, því það hefur lagt mikið á sig, komið á aukavaktir og hlaupið aðeins hraðar þegar það þurfti.“
Nú ert þú nýbúin að halda upp á tuttugu ára starfsafmæli á HSS. Er það tilfellið að starfsfólk ílengist hér á heilbrigðisstofnunni?
„Hér er mjög gaman að vinna og ég var svo lánsöm að byrja á D-deildinni á sínum tíma, árið 2004. Þar fékk ég mjög góðan lærdóm og góðan tíma, svo færði ég mig yfir í heimahjúkrun árið 2013 og svo hingað. Þannig að ég hef ekki farið mjög víða í húsinu en aðeins – og alltaf jafn gaman. Yndislegt samstarfsfólk í öllu húsinu. Allir eru mjög samstíga og taka höndum saman þegar eitthvað er í gangi. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa valið að koma á HSS á sínum tíma.“
Það hefur þá verið mjög gott að hafa þannig starfsfólk þegar að þessi gríðarlega stækkun á sér stað.
„Já, ég myndi segja það – og þá sem höfðu reynslu, bæði hér og svo fylgdi með starfsfólk úr Víðihlíð. Það kom inn eftir því sem það gat. Fólk var í óviðjafnanlegum aðstæðum, ekki bara skjólstæðingarnir heldur líka íbúarnir – og það voru þeir sem voru að vinna í Víðihlíð. Með þeim hefur deildin vaxið og stækkað.“
Er komið jafnvægi á deildina eða sérðu fram á að hún muni stækka meira á næstunni?
„Það er komið jafnvægi en ég veit nú ekki hvernig við ætlum að stækka meira,“ segir Vigdís og hlær. „Þá verð ég nú að fara að setja upp kojur og við höfum stundum grínast með það. Stelpurnar svitna þegar maður talar um að nú eigi að fara að leggja einn inn; „og hvar ætlarðu að koma honum fyrir?“
„Nú bara setjum við upp kojurnar.“
„Og hvernig eiga þeir að fara upp í kojurnar?“
En við bara gerum það sem við getum. Það þýðir ekkert annað en að hugsa í lausnum en við stækkum ekki mikið meira úr þessu. Þetta er alveg ágætt en við þurfum að hlúa að starfseminni, gera þetta vel þannig að öllum líði vel og þegar fólk fari frá okkur sé það sátt og ánægt. Um það snýst þetta.“