Mannlíf

Starfið gengur út á að sinna konum í barneignum
Sunnudagur 17. nóvember 2024 kl. 06:28

Starfið gengur út á að sinna konum í barneignum

„Við sinnum þeim jafnvel eftir fæðingar líka. Ef upp koma einhver vandamál með nýburana eða móður fyrstu vikurnar eftir fæðingu þá leita þær til okkar,“ segir Guðlaug María Sigurðardóttir, deildarstjóri á ljósmæðravakt HSS.

Þið eruð með aðdragandann og undirbúningsferlið á ykkar könnu líka, ekki satt?

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Við erum með alla mæðraverndina frá því að þær byrja að koma og svo auðvitað fæðingarnar og sængurlegu – það eru reyndar mjög fáar sem liggja sængurlegu í dag, það fara flestar í heimaþjónustu.“

Guðlaug segir það mjög sjaldgæft að konur velji að liggja sængurleguna á ljósmæðravaktinni, flestar vilja komast heim í sitt umhverfi og sinna barninu heima hjá sér.

„Ég held að fólki finnist almennt voðalega notalegt að vera hérna og fólk dvelur hérna kannski fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu, áður en það drífur sig heim. Það getur verið gott að slaka aðeins á og láta einhvern gefa sér að borða – og aðeins að fá að kynnast litla krílinu áður en alvara lífsins byrjar.

Svo kemur fólk heim með barnið, venjulegur dagur hefst og lífsins gangur ...

„... og öll hin börnin taka á móti, fer eftir aðstæðum. Þá fá þær heimaþjónustu ljósmóður og við reynum að haga því þannig hérna að þær ljósmæður sem hafa verið með konurnar í mæðravernd, eða fæðingarljósmóðirin, taki þær líka í heimaþjónustu. Þannig að yfirleitt er þetta einhver sem hefur hitt þær áður. Við reynum að hafa samfellu í þjónustu eins og við getum, með mæðraverndina, fæðinguna og sængurleguna.“

Hefur það aukið á verkefni ljósmæðra að sinna þessu í heimahúsum?

„Það er ekki hluti af starfsemi hérna á HSS að sinna heimaþjónustu heldur eru það ljósmæður sem eru með samning við Tryggingastofnun, sem reyndar vinna hér og á fleiri stöðum. Þær sinna þessu fyrir utan starf sitt á HSS og öðrum heilbrigðisstofnunum.“

Það er hlýlegt og notalegt um að lítast á fæðingarstofunum.

Fæðingartíðni fer lækkandi

Á ljósmæðravaktinni starfa tíu ljósmæður, í misháu starfshlutfalli, en sá fjöldi hefur lítið breyst þrátt fyrir mikla íbúafjölgun á Suðurnesjum.

„Við erum með í kringum hundrað fæðingar á ári,“ segir Guðlaug. „Þeim fækkaði mikið eftir að skurðstofan lokaði í kringum 2010/2011. Þá fórum við niður í þessa tölu, hundrað til hundrað og tuttugu, og við höfum verið að hanga þar allflest árin en fæðingartíðni fer lækkandi á landsvísu – og við erum engin undantekning. Þó að það séu fleiri íbúar hérna þá erum margir sem velja að fæða annars staðar, eins og á Landspítalanum eða uppi á Skaga. Hérna fæða bara það sem við köllum „grænar konur“, þ.e. þær sem eru fullkomlega hraustar og heilbrigðar, með heilbrigða meðgöngu, vænta heilbrigðrar fæðingar með væntan heilbrigðan nýbura. Ef að við greinum eitthvað á meðgöngu þá ráðleggjum við konum alltaf að fæða þar sem er hærra þjónustustig.“

Guðlaug útskýrir að ljósmæðravaktin á HSS er svokölluð D1 fæðingarstaður, sem er ljósmæðrastýrð eining en án fæðingarlæknis, og ef upp vaknar minnsta grunsemd um að eitthvað sé ekki eins og best verður á kosið þá er konum alltaf vísað á fæðingarstað með hærra þjónustustig.

Hvað er eðlileg fæðing?

„Eðlileg fæðing er þegar kona fer sjálf af stað og útvíkkun hefst án inngripa, konan klárar fæðinguna án inngripa og barnið kemur hraust í heiminn – svona í mjög stuttu máli,“ segir Guðlaug María. „Ekkert sérstaklega flókið þegar maður segir það.“

Hvernig bregðist þið við ef eitthvað óvænt kemur upp á í fæðingu á ljósmæðravaktinni?

„Það vill þannig til að yfirleitt er einhver aðdragandi og við erum mjög vel þjálfaðar í því að koma auga á það ef eitthvað er að sveigja út af „norminu“. Ef okkur finnst ástæða til, og við leyfum konunni og barninu að njóta vafans í þeim tilfellum, þá flytjum við konur á Landspítalann sem er okkar þjónustusjúkrahús – og það gengur mjög hratt og vel fyrir sig.“

Guðlaug María við sónarinn á ljósmæðravaktinni en sónar er notaður til að fylgjast með þroska fóstursins í móðurkviði.

Eftirsóknarverð menntastofnun

„Við sinnum í raun og veru allri þjónustu við barnshafandi konur, þar á meðal göngudeildarþjónustunni,“ segir Guðlaug um verksvið ljósmæðra. „Þannig að ef eitthvað þarfnast sérstakrar skoðunnar á meðgöngunni þá koma konurnar alltaf til okkar og það er býsna mikið rennerí í því. Eins erum við með allskonar símaráðgjöf og -þjónustu, við erum með fræðslu og svo erum við með nema, ljósmæðranema á mismunandi stigum,“ segir hún en Heilbrigðisstofnun Suðurnesja menntastofnun sinnir kennsluhlutverki.

„Það er mikil ásókn og ljósmæðranemum finnst fengur í að koma hingað vegna þess að þetta er önnur af tveimur ljósmæðrastýrðum einingum á heilbrigðisstofnunum á landinu. Við erum með allt ferlið hérna, við erum með meðgönguna, við erum með fæðinguna, við erum með sængurleguna og allt sem rúmast inni í þessum pakka. Það er svo gott að koma hingað því þú færð svo margt á stuttum tíma.

Ef við tökum stóra stofnun eins og Landspítalann fyrir þá ertu annað hvort í fæðingunni, sængurlegunni eða áhættumæðravernd. Það er ekki þetta flæði eins og hér – þetta er bara ein stór fjölskylda og allir taka þátt í öllu.“