Fráveita uppfyllir ekki lágmarkskröfur og mengun í jarðvegi verði kortlögð
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telur mikilvægt að Reykjanesbær ráðist í greiningarvinnu og kortlagningu á mengun í jarðvegi á fyrirhuguðum byggingarreit við Hrannargötu á Vatnsnesi áður en frekari uppbygging hefst á íbúðum og öðrum byggingum ætluðum almenningi þar sem sterkar líkur eru á mengun í jarðvegi fyrirfinnist víðsvegar á svæðinu. Þetta kemur fram í athugasemdum við deiliskipulagstillögu fyrir Hrannargötu 2–4.
Þá segir að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur áður bent sveitarfélaginu á að fráveita á þessu svæði uppfylli ekki lágmarkskröfur í reglugerð um fráveitur og skólp. Stór hluti skolps frá svæðinu rennur ómeðhöndlað ýmist rétt út fyrir flæðarmál eða í klettabelti meðfram strandlengjunni í gegnum fjölda útrása.
Þann 2. nóvember 2022 óskaði embættið eftir lýsingu, stöðuskýrslu og úrbótaáætlun um fráveitu sveitarfélagsins. Óskað var eftir að gögnin bærust fyrir 30. mars 2023. Umbeðin gögn hafa enn ekki borist til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
Embættið segir einnig í ljósi þess að áformuð er 1.250 manna byggð á skipulagssvæðinu er mikilvægt að fráveita á svæðinu uppfylli ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp áður en frekari uppbygging hefst á skipulagssvæðinu.
Heilbrigðiseftirlitið leggur til að tekið sé tillit til þessara þátta við skipulagsvinnsluna. Þá hefur embættið tekið til skoðunar þá þætti sem helst eiga við starfssvið þess og gerir ekki frekari athugasemdir við breytingu á aðalskipulaginu.