SSS
SSS

Fréttir

Fylgdarlaus börn í góðu yfirlæti í Suðurnesjabæ
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 9. nóvember 2024 kl. 07:00

Fylgdarlaus börn í góðu yfirlæti í Suðurnesjabæ

Flest börnin vilja setjast að á Íslandi

„Þetta hefur verið mjög gefandi, starfið er fjölbreytt og það er gaman að sjá hversu áhugasöm börnin eru að komast inn í íslenskt samfélag,“ segja Jóhann Birnir Guðmundsson og Sandra Bjarnadóttir, verkefnastjórar fylgdarlausra barna en um er að ræða verkefni sem barnavernd Suðurnesjabæjar sér um en íslenska ríkið kostar. Verkefnið hófst 1. janúar á þessu ári og gildir samningurinn til 31. desember en viðræður standa yfir varðandi áframhald.

Jóhann er frá Garðshluta Suðurnesjabæjar og er hugsanlega þekktastur fyrir tuðruspark en hann lék um tíma sem atvinnumaður í knattspyrnu, m.a. í Englandi. Sandra á ættir að rekja til Suðurnesja, hún er dóttir annars knattspyrnumanns, markvarðarins Bjarna Sigurðssonar sem er frá Keflavík en lék lengi með ÍA og svo Val eftir að hann sneri til baka úr atvinnumennsku. Móðir Söndru, Arna Guðríður Skagfjörð, er líka frá Keflavík.

Jóhann var búinn að vera tengdur málinu síðan í ársbyrjun 2023 en þá leitaði barnavernd Suðurnesjabæjar til hans og fleiri aðila því álagið var það mikið vegna þessara fylgdarlausu barna. Þar sem þau voru í umdæmi Suðurnesjabæjar lenti það á bæjarfélaginu að sjá um þessi börn og var um tíma mjög mikið álag en það hefur lagast mikið með tilkomu ríkisins og þeirrar staðreyndar að tveir starfsmenn eru núna í fullu starfi við að sinna börnunum og þar fyrir utan kemur Securitas að málinu auk annarra aðila. Tvö húsnæði eru fyrir fylgdarlausu börnin í Sandgerði, Landakot og Graystone.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Það er ekki hægt að neita því að það var oft á tíðum ansi mikil ringulreið í kringum þessi fylgdarlausu börn og mikið álag á barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar. Um tíma þurftum við að hýsa börnin á Garðvangi í Garðinum og við vorum eins og hamstrar í hjóli þar sem mikill fjöldi barna kom og því var nauðsynlegt að ríkið kæmi að þessum málum. Samningurinn tók gildi 1. janúar á þessu ári og gildir út árið og ég á ekki von á öðru en hann verði framlengdur. Þó svo að komum flóttafólks til Íslands sé búið að fækka, þar sem mörgum er snúið við á staðnum þegar skilyrði eru ekki uppfyllt, virðist það ekki hafa áhrif á fjölda fylgdarlausra barna, þetta hefur verið svipaður fjöldi síðan í fyrra. Samningurinn við ríkið hljóðar upp á þjónustu við að hámarki 30 börn hverju sinni en á tímabilinu 1. janúar til 15. ágúst hafa 41 barn notið þjónustunnar. Að undanförnu hefur verið mest um komu barna frá Úkraínu en þar fyrir utan hefur verið mest um börn frá Palestínu og Afganistan. Börnin eru flest í kringum fimmtán ára aldur en þó hafa komið yngri börn en þá er þeim komið fyrir í fóstri. Við erum þá í góðu sambandi við fósturforeldrana og fylgjumst með hvernig barninu gengur. Það er í raun það besta fyrir barnið, það lærir tungumálið fyrr, kemst í virkni í nærsamfélaginu og sem betur fer hafa Íslendingar verið duglegir við að taka fylgdarlaus börn í fóstur.

Þjónustu okkar lýkur við átján ára aldur eða tvítugt ef ungmennin eru í vistun, ef foreldrar barnanna koma til Íslands eða þegar ungmennin halda af landi brott. Um leið og haft var samband við mig í fyrra og ég beðinn um að aðstoða var ég til, mér finnst þetta mjög áhugavert og hef notið mín til hins ítrasta í þessu starfi. Ég var í vinnu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum [MSS] á þeim tíma en ákvað að stökkva á tækifærið þegar starfið var auglýst. Þetta er mjög lifandi starfsvettvangur og alltaf eitthvað nýtt að takast á við, þetta hentar mér mjög vel,“ segir Jóhann Birnir.

Frumkvæði og virkni

Sandra hafði verið að vinna í félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar, m.a. við að aðstoða flóttafólk og þegar hún sá Suðurnesjabæ auglýsa eftir starfsfólki vegna fylgdarlausra barna, þurfti hún ekki að hugsa sig um lengi.

„Ég hef alltaf mikinn áhuga á þessum hópi innan flóttamannahópsins og var búinn að vinna nokkuð lengi í þessum málum og þess vegna var rökrétt skref hjá mér að sækja um þessa stöðu. Ég hef kunnað einkar vel við mig í þessu starfi sem er mjög fjölbreytt. Við Jói erum með fasta viðveru frá átta til hálf fjögur og er alltaf í nógu að snúast. Ef barn lendir á þeim tíma þá erum við mætt upp á flugvöll til að taka á móti því. Svo fara næstu dagar í að koma barninu fyrir, fara með það í læknisrannsókn, tala við útlendingastofnun o.s.frv. en svo þarf að koma barninu sem fyrst í virkni. Fyrir utan okkur sér Securitas um mannaða gæslu í Landakoti og Graystone en þetta er ekki hefðbundin öryggisgæsla og eru starfsmenn t.d. ekki í einkennisklæðnaði. Þeirra starf er svipað og okkar hinna, að aðstoða börnin við allt milli himins og jarðar. Samstarfið við þessa aðila hefur gengið vonum framar og svo má ekki gleyma barnavernd Suðurnesjabæjar, hún kemur ennþá að þessum málum þó svo að álagið hafi minnkað talsvert eftir að við hófum störf. Þá eru tveir persónulegir ráðgjafar, tvær konur sem tóku að sér fylgdarlaus fósturbörn, þær taka í raun við af okkur og eru eins og mömmur barnanna, kíkja inn á heimilin í klukkutíma á dag og athuga hvort allt gangi ekki vel, aðstoða t.d. við heimanám og liðsinna börnunum.

Þegar börnin koma þá látum við þau fá nokkurs konar startpakka, þau fá strætókort, peningakort sem þau geta notað á vissum stöðum þar sem þau geta keypt nauðsynjavörur, þau fá sim-kort og svo borða þau í hádeginu á Réttinum. Þau þurfa að sýna ákveðið frumkvæði og hefur það ekki verið vandamál til þessa. Þau taka strætó á morgnana og sækja sína virkni, snúa svo til baka og hægt og örugglega aðlagast þau samfélaginu.

Við reynum að koma börnunum í virkni sem tengist þeirra áhugamálum og svo erum við með samning við MSS, það hefur reynst mjög vel því börnin komast strax þangað inn, óháð hvaða tíma ársins þau koma. Það er ekki hægt að hoppa inn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja [FS] á miðri önn en þau geta alltaf komist inn í MSS. Það eru tveir kennarar í MSS og er börnunum m.a. kennt tungumálið auk ýmissa nytsamlegra þátta sem nýtist þeim í dagsins amstri. Við reynum að koma börnum á grunnskólaaldri strax í grunnskóla en börn á framhaldsskólaaldri þurfa að bíða þar til ný önn hefst. Öll börn sextán ára og eldri hafa kost á að starfa hjá Fjölsmiðjunni, sem er frábært úrræði fyrir ungmenni sem hafa lent í óvirkni af einhverjum sökum. Þarna læra börnin að vinna, sjálfstraust þeirra eykst og hefur Fjölsmiðjan reynst fylgdarlausum börnum mjög vel en öll eiga þau það sameiginlegt að vilja strax láta til sín taka og komast í virkni. Þau eru öll mjög áhugasöm um að aðlagast íslensku samfélagi. Börnin tóku öll þátt í vinnuskóla Suðurnesjabæjar í sumar og gekk það mjög vel og þau hafa kost á að æfa íþróttir ef þau hafa áhuga á því, fótbolti er vinsælasta íþróttagreinin þeirra. Mörg barnanna voru ósynd þegar þau koma og við höfum aðstoðað þau við að komast á sundnámskeið og hefur það mælst mjög vel fyrir.

Börnin eiga það öll sameiginlegt að vera flýja slæmar aðstæður og vilja flest þeirra setjast að á Íslandi. Það er misjafnt hvernig fjölskylduaðstæður þeirra eru, sum þeirra hafa misst báða foreldra sína en það er allur gangur á því. Nánast undantekningarlaust eru tungumálaerfiðleikar til að byrja með og þá getum við kallað til túlk, sérstaklega ef ráða þarf fram úr flóknari málum. Annars hefur Google translate dugað okkur merkilega vel.

Þetta ár hefur verið einkar skemmtilegt og ég vona innilega að framhald verði á, það kæmi mér mjög á óvart ef það verður ekki því ég sé hversu mikil þörf er fyrir þessa þjónustu,“ sagði Sandra að lokum.

Sandgerði í apríl 2024.