Um hvað verður kosið 30. nóvember?
Um hvað verður kosið í alþingiskosningunum? Því ráða kjósendur. Þeir greiða atkvæði í samræmi við hverjum þeir treysta best í þeim málaflokkum sem þeir telja mikilvægasta á hverri tíð.
Efnahagsmál eru jafnan mikilvæg í huga kjósenda enda skiptir framvinda þeirra öllu fyrir hag heimila og fyrirtækja. Hvaða mál önnur? Þetta getur ráðist af aðstæðum á hverjum stað. Málefni hælisleitenda hafa snert byggðarlög með ólíkum hætti. Óvíða vega þessi mál þyngra en á Suðurnesjum eins og skýrt hefur komið fram í fréttum og heyrist glöggt í viðræðum við íbúa á svæðinu. Þessi málaflokkur hefur auk þess víðtæka skírskotun enda sést af reynslunni að hann hefur haft þung áhrif í fjárhagslegu og samfélagslegu tilliti. Þetta þekkja Suðurnesjamenn.
Áherslur frambjóðenda í forsetakosningunum vestanhafs voru skýrar. Sigurvegari kosninganna lagð áherslu á efnahaginn og landamærin enda við alvarlegan vanda að stríða á suðurlandamærum Bandaríkjanna eftir úrræðaleysi í tíð fráfarandi forseta. Bandarískir kjósendur höfnuðu varaforsetanum og áherslum hennar enda sýnist vælupendúllinn byrjaður að sveiflast í gagnstæða átt frá því sem verið hefur í bandarískum háskólum og fjölmiðlum.
Hér á landi liggur fyrir nauðsyn á að ná fullum tökum á landamærunum eftir það slys sem orðið hefur í málaflokknum með tilheyrandi tugmilljarða útgjöldum á ári hverju og álagi á innviði og samfélög. Þakka ber hinum dugmikla lögreglustjóra á Suðurnesjum og ágætu starfsliði hans fyrir að mikinn og góðan árangur sem náðst hefur á síðustu árum þótt meira þurfi að koma til. Á vettvangi stjórnmálanna þarf að rétta af misheppnaða lagasetningu í málaflokknum og tryggja lögreglu heimildir, tæki og mannafla til að ná viðunandi árangri í störfum sínum.
Um það er ekki að efast að kjósendur munu margir snúa sér í átt að þeim sem þeir telja best treystandi í þessu efni. Miðflokkurinn ætlar að tryggja örugg landamæri í þágu íslenskra hagsmuna og hefur lengst allra flokka talað fyrir að hverfa þurfi frá óþurftarstefnu liðinna ára sem í raun er á ábyrgð allra annarra stjórnmálaflokka.
Ólafur Ísleifsson
Höfundur skipar 3. sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.