Gætu verið vísbendingar um að eldgosið standi lengi yfir
Virknin í eldgosinu hefur verið stöðug í nótt eins og síðustu daga og gosóróinn einnig svipaður. Hraunflæðið frá virka gígnum er enn að renna að mestu til suðausturs. Framrás hraunjaðarins er þó hæg, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands fylgist vel með eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni og segir í samantekt dagsins á fésbókarsíðu sinni engar markverðar breytingar hafa orðið síðustu daga.
Yfirstandandi eldgos er nú orðið langlífara en það sem hófst í lok ágúst. Gosðið er styttra en gosin í mars (53 dagar) og maí (25 dagar).
Í færslunni segir að áfram er jafnvægi í innstreymi kviku upp í jarðskorpuna og þess sem kemur upp í eldgosinu. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands swgir að þetta sé í raun ný staða í eldgosahrinunni og gætu þetta verið vísbendingar um að eldgosið standi lengi yfir.
Á meðan langlífasta gosinu stóð, sem hófst í mars, var landris í gangi í raun allt á meðan gosinu stóð. Kvikusöfnun var því í gangi samhliða gosinu, en það virðist ekki vera staðan í þetta skiptið.
Mögulega eru þetta teikn um minnkandi streymi kviku upp í jarðskorpuna, þ.e.a.s. að innstreymið hafi ekki burði í að halda uppi eldgosi og valda kvikusöfnun á sama tíma, ólíkt gosinu í mars.
Varðandi hraunflæði frá gígnum, þá hefur hraunið undanfarna daga verið að renna til austurs og suðurs í átt að Fagradalsfjalli. Þar rennur hraunið að mestu yfir hraun úr fyrri gosum, en framrás hraunjaðra er þó afar lítil og hæg. Nýja hraunið er á stuttum kafla komið utan í Fagradalsfjall.