Kynningarfundur K-S-R
Kynningarfundur K-S-R

Mannlíf

Hálf kjánalegt að stoppa eftir tvær
Miðvikudagur 4. desember 2024 kl. 10:57

Hálf kjánalegt að stoppa eftir tvær

Reykjanes II er glæsileg ný ljósmyndabók sem er samstarfsverkefni Reykjanes UNESCO Global Geopark og ljósmyndarans Þráins Kolbeinssonar. Í bókinni eru myndir frá eldhræringum síðustu ára í bland við nýjar myndir af stórbrotinni náttúru Reykjanesskagans. Sérstök áhersla er lögð á tinda Reykjaness, þar sem lítt þekktu hálendi svæðisins er gefinn sérstakur gaumur. Eftir að hafa flust til Grindavíkur ásamt eiginkonu sinni hefur ljósmyndarinn Þráinn Kolbeinsson haft Reykjanesið í sérstökum forgangi hjá sér og myndað það hátt og lágt síðustu ár. Árið 2021 gaf Reykjanes Geopark út bók um skagann, Reykjanes I, sem vakti mikla lukku en í henni voru flestar myndirnar eftir Þráin.

Reykjanes Geopark í samvinnu við Markaðsstofu Reykjanes er útgefandi bókarinnar en áður hafa þau unnið að bók um Reykjanesið sem kom út skömmu áður en jarðhræringar hófust á Reykjanesi. Sú bók er nú einnig fáanleg á ný og komin í harðkápu.

Eyþór Sæmundsson verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Reykjaness er ritstjóri bókarinnar en allar ljósmyndir eru eftir Þráin Kolbeinsson. „Þetta er allt unnið hér í heimahögunum, hönnuður er Keflvíkingurinn Guðmundur Bernhard, Þráinn er svona næstum hálfur Grindvíkingur og sjálfur er ég Njarðvíkingur,“ segir Eyþór en bókin er einnig prentuð hérlendis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Eyþór Sæmundsson og Þráin Kolbeinsson.

„Samstarf okkar Þráins er orðið rótgróið en við höfum unnið að þessum tveimur bókum ásamt fleiri verkefnum. Þráinn er auðvitað ljósmyndari í heimsklassa og það er frábært að vinna með honum, við deilum mjög svipaðri sýn þegar kemur að svona verkefnum. Ég held að þessi bók eigi heima hjá öllum Suðurnesjamönnum. Bæði til þess að sýna gestum og upplifa hversu fallegt og kyngimagnað svæðið okkar er. Ég held að það sé fjölmargt í þessum bókum okkar sem margur heimamaðurinn veit ekki af og kæmi þeim á óvart,“ segir Eyþór.

Fyrir ljósmyndara, hvernig er tilfinningin að fá verk sín svona á prenti og sem svona ákveðið heildarverk, þar sem myndir eru settar upp með texta og mynda hálfgerða sögu?
„Í dag fara flestar ljósmyndir eðlilega beint á netið, sem er gott og blessað, en mér finnst sjálfum alltaf lang skemmtilegast að sjá þær á prenti, og þá sérstaklega í bókum. Þá líður mér eins og það sé búið að loka hringrásinni, eins og myndin sé komin þangað sem hún á að vera — hún sé komin heim. Og það sem gerir bækur sérstaklega skemmtilegar er að þar er hægt að segja heildstæðari sögur og það er hægt að grípa í þær aftur og aftur og alltaf tekur maður eftir einhverju nýju.“



Áttu þér uppáhaldsmynd í bókinni?
„Margar voru teknar í göngum með vinum og ættingjum svo þær fá auðvitað alltaf sérstakan sess hjá manni. Af þeim er ein af syni mínum, Þresti, þar sem hann er líklega um eins árs gamall á bakinu á Berglindi móður sinni með Sogin í bakgrunni. Hún situr eflaust á toppnum.“

Þú byrjaðir þinn feril að miklu leyti á Reykjanesi áður en jarðhræringar fóru af stað, getur þú lýst því hvaða áhrif allar þessar breytingar hafa á svæðið fyrir útivistarfólk og ljósmyndara eins og þig?
„Reykjanesið er náttúrulega yngsti partur landsins og ber augljóslega merki mikilla eldsumbrota. Það hefur því verið ótrúlega áhugavert að sjá náttúruna verða til og breytast svona beint fyrir framan mann. Maður sér hvern hól og hverja sprungu í allt öðru ljósi eftir það. Fyrir ljósmyndara hefur þetta auðvitað verið algjör draumur, þá sérstaklega fyrstu gosin sem höfðu takmörkuð áhrif á líf fólks á svæðinu. Það er alls ekki sjálfsagt að fá að mynda svona viðburði og sjá þróunina, dag eftir dag.“



Af hverju Reykjanes?
„Í upphafi var það í rauninni af illri nauðsyn. Ég flutti ásamt eiginkonu minni, Berglindi Önnu, til Grindavíkur um það leyti sem við eignuðumst okkar fyrsta barn. Því fylgdi eðlilega lítill svefn og almennt álag sem varð til þess að ég neyddist til að minnka ferðaradíusinn töluvert og eftir sat Reykjanesið, sem fram að því hafði aðeins verið myndað af einhverju ráði af nokkrum kempum. Ég lagðist yfir alls konar kort, bækur og síður og áttaði mig fljótt á því að þetta svæði væri algjör náttúruperla. Næstu ár fóru svo meira og minna í að flakka um skagann og mynda það sem mér fannst áhugavert. Það sem gerir svæðið sérstaklega skemmtilegt er hvað það er ósnortið þrátt fyrir að vera svona stutt frá höfuðborgarsvæðinu. Og það besta er að ég á ennþá fullt eftir.“



Nú eru komnar tvær bækur í Reykjanesseríunni, er möguleiki á fleirum?
„Er ekki hálfkjánalegt að stoppa eftir tvær? Við getum sagt að það eru nokkrar skemmtilegar og spennandi hugmyndir sem hefur verið kastað á milli.“

Það er sérstakt kynningarverð á bókunum þessa stundina á heimasíðu Reykjanes Geopark þar sem hægt er að kaupa báðar bækur í pakka.

https://reykjanesgeopark.is/web-shop/