Valhöll
Valhöll

Fréttir

Guðbrandur vill mynda ríkisstjórn þvert yfir miðjuna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 15. október 2024 kl. 14:16

Guðbrandur vill mynda ríkisstjórn þvert yfir miðjuna

„Ég þóttist vita um hvað málið snerist þegar boðað var til þessa blaðamannafundar á sunnudaginn, ég hélt að ríkisstjórnin myndi reyna hanga á þessu út kjörtímabilið en forsætisráðherrann mat stöðuna greinilega öðruvísi,“ segir Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

Guðbrandur frétti af tíðindunum eins og aðrir landsmenn í sjónvarpinu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Þetta kemur svo sem ekki á óvart, þetta var fyrirséð myndi ég segja. Það kemur reyndar á óvart að heyra viðbrögð oddvita Framsóknar og Vinstri grænna, þau áttu ekki von á þessu eftir fund sinn með forsætisráðherra á laugardaginn en hann hefur greinilega tekið þessa ákvörðun einhliða án samráðs við þau.

Nú fer bara allt á fullt, við brettum upp ermar og allar hendur fara á dekk. Það þarf að stilla upp listum og setja málefni niður á blað og ég hef tekið ákvörðun um að gefa kost á mér áfram. Ég hef kunnað vel við þetta starf, þetta er ólíkt því að starfa í sveitarstjórnarmálum eða hvað þá í verkalýðsbaráttu, þar er maður meira með puttann á púlsinum og nær þeim sem maður er að veita þjónustu. Hér inni á þinginu er maður fjær fólkinu en í grunninn er þetta það sama, að þjónusta fólk. Ég hef kunnað vel við mig og mun því gefa kost á mér áfram.“

Fæ vonandi umboð til að leiða listann áfram

„Við höfum verið að koma vel út í skoðanakönnunum að undanförnu, myndum bæta við okkur ef tekið er mið síðustu skoðanakönnunum. Við erum með fimm þingmenn í dag, tvo í Reykjavík, tvo í Suðvesturkjördæmi og svo kom ég nýr inn í Suðurkjördæmi. Ég var auðvitað ánægður með komast nýr inn og vonandi fæ ég umboð til að leiða listann áfram. Það er mikill meðbyr með okkur, við erum að fá nýtt fólk á hverjum einasta degi, t.d. Jón Gnarr, það hlýtur að vera styrkur í að fá til liðs við okkur einstakling sem fékk 15% kosningu til forseta í vor.

Ég hef trú á að Viðreisn verði í næstu ríkisstjórn, ég held að það sé fullreynt að mynda ríkisstjórn af jöðrunum, þ.e. með flokkum lengst til vinstri og til hægri. Ég vil sjá ríkisstjórn myndaða þvert yfir miðjuna, ég vil hvorki skilgreina Viðreisn sem hægri eða vinstri flokk, við erum einfaldlega frjálslyndur umbótaflokkur og myndum sóma okkur vel í ríkisstjórn sem nær þvert yfir miðjuna,“ sagði Guðbrandur.