Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrafn Sveinbjarnarson vélarvana í hafís – þurftu að klippa á trollið!
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 23. janúar 2023 kl. 17:06

Hrafn Sveinbjarnarson vélarvana í hafís – þurftu að klippa á trollið!

Röð tilviljana. „Ég held ég muni spila í næsta Víkingalottói,“ segir Kristján Ólafsson, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni.

Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson frá Grindavík, varð vélarvana ca 80 sjómílur norðvestur af Straumnesi um miðnætti á laugardagskvöld en Ísafjörður er næsta höfn. Svo heppilega vildi til að varðskipið Freyja var á leiðinni á Patreksfjörð vegna minningarathafnar um snjóflóðin sem féllu þar fyrir 40 árum og var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson með í för. Komu til Patreksfjarðar var frestað og Freyja fór í björgunarleiðangur. Kristján Ólafsson, skipstjóri á Hrafninum segir margar tilviljanir hafa raðast saman þegar þetta gerðist.

„Við vorum að toga (á veiðum) um miðnætti þegar kælivatnshosa á aðalvélinni fór og vatnsbunan fór yfir loftinntakið á ljósavélinni og þar með drap hún á sér líka. Ekki nóg með það heldur fór lítil vél sem við erum með líka, ekki heldur í gang en hún hafði gert það á nýársdag. Ótrúlega margar tilviljanir sem raðast þarna saman og mér varð nú að orði að maður ætti kannski að kaupa miða í næsta Víkingalottói! Sem betur fer var blíða svo það var nú engin hætta á ferðum en ég hafði samband við Gæsluna um fjögur og Freyja var komin til okkar klukkan ellefu um morguninn. Við tengdum skipin strax saman því veðurspáin var ekki góð. Þeir lánuðu okkur tvær rafstöðvar og við reyndum að koma vélunum í gang en svo fengum við ofan á allar þessar tilviljanir, ís í eftirrétt, hafísinn var kominn hættulega nálægt og því var ekkert annað í stöðunni en klippa á vírana og halda heim á leið í togi. Eftir tveggja tíma tog náðum við að koma vélunum í gang og sigldum því fyrir eigin vélarafli til Hafnarfjarðar og vorum komnir þangað um eittleytið í dag. Við tókum nýja hlera og héldum svo beint til veiða og munum svo fara aftur til að slæða hitt trollið upp þegar færi gefst, bæði þarf hafísinn að fara í burtu og þú vilt hafa gott veður þegar þú ert í svona aðgerðum,“ sagði Kristján að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Myndirnar tók Guðmundur Valdimarsson, skipverji á Freyju.