Íbúar eru hræddir við breytingar
Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita framboða í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningnar 14. maí.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs fyrir þessar kosningar?
Tryggja agaðan rekstur í því skyni að geta haldið áfram að bæta innviði og tryggja framgang Reykjanesbæjar. Góður rekstur gerir okkur kleift að byggja upp innviði án skuldsetningar.
Nýtt aðalskipulag tryggir nýja og raunhæfa stefnu í atvinnumálum sem byggir á markaðssetningu svæðisins og samstarfi við KADECO. Horft verði frá stóriðjustefnu fyrri tíma.
Fjölskyldumál skulu ætíð vera í forgangi. Hvatagreiðslur hafa margfaldast og svo mun vera áfram til að tryggja aðgengi barna að íþrótta- og tómstundastarfi og um leið verða teknar upp hvatagreiðslur fyrir aldraða og öryrkja.
Hvaða eitt, tvö málefni finnst þér vera efst á baugi hjá íbúum Reykjanesbæjar?
Hver verður bæjarstjóri? Það er sú spurning sem ég fæ oftast. Við erum með skýr svör, við viljum halda núverandi bæjarstjóra, Kjartani M. Kjartanssyni. Hann hefur staðið sig frábærlega og hann er okkar maður sem fyrr.
Íbúar eru hræddir við breytingar. Erfiðleikar eftir fall WOW, og COVID hafa tekið kraft úr íbúum. Ég held að íbúar þrái stöðugleika og jafnvægi eftir erfiða tíma.