Miðbærinn fyllist af gestum skemmtiferðaskips
Von er á skemmtiferðaskipi til Reykjanesbæjar á laugardag með um 700 farþega. Þriðjungur þess hóps, rúmlega 200 farþegar, er á leiðinni í skipulagðar hópferðir með fólksflutningabílum frá Keflavíkurhöfn. Þá er gert ráð fyrir að allt að 400 farþegar af skipinu spásseri um í miðbæ Reykjanesbæjar og reyni að finna sér afþreyingu, kíki í verslanir og á veitingastaði. Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, vonast til þess að fólk í þjónustu í sveitarfélaginu taki vel á móti þessum stóra hópi fólks sem verður í bænum í hálfan sólarhring. Það geta verið fín uppgrip í stórum hópi farþega skemmtiferðaskipa, sem oft verja talsverðum fjárhæðum í hverri höfn.
Skemmtiferðaskipið Azamara Quest er um 30.000 tonna skip sem er á hringsiglingu um Ísland. Það kemur til Reykjanesbæjar frá Grundarfirði. Það verður komið á ytri höfnina í Keflavík um kl. 08 á laugardagsmorgun og heldur svo ferðalaginu áfram kl. 20 um kvöldið. Skipið mun ekki leggjast að bryggju, heldur verða léttabátar í farþegaflutningum milli skips og bryggju allan tímann á meðan viðdvölinni stendur.
Skipið sem kemur á laugardag er fyrsta skipið sem kemur til Reykjaneshafnar eftir að ráðist var í sérstakt átak til að fá slík skip til hafnarinnar. Fyrir nokkrum árum hófst vinna að framtíðarsýn fyrir Reykjaneshöfn. Árið 2017 var farið yfir allar hafnir svæðisins sem tilheyra Reykjaneshöfn og styrkleikar þeirra metnir. Þar er horft til Njarðvíkurhafnar sem aðal þjónustu- og fiskiskipahafnar framtíðarinnar. Helguvík er skilgreind sem frakthöfn og Keflavíkurhöfn sem mannlífshöfn og þá m.a. í tengslum við skemmtiferðaskip.
Halldóri Karli, hafnarstjóra, var falið að vinna út frá þessari framtíðarsýn og hefur hann m.a. farið á nokkrar kaupstefnur og kynnt þá þjónustu sem hægt er að veita í Reykjanesbæ. Áhersla hefur verið lögð á að hingað komi minni skemmtiferðaskip. Bent hefur verið á kosti Reykjanesskagans og þá náttúru sem hann býður upp á. Hér sé í raun hægt að komast í tæri við allt nema fossa og jökla. Hann segir Reykjanesskagann einstakt ævintýraland fyrir fólk sem ferðast með skemmtiferðaskipum. Nýrunnið hraun er m.a. aðdráttarafl.
Vinnan var unnin í samstarfi Reykjaneshafnar við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og þáverandi verkefnastjóra atvinnumála hjá Reykjanesbæ. Halldór Karl segir að það sé langhlaup að draga að skemmtiferðaskip. Þau séu búin að vinna sínar áætlanir langt fram í tímann. Kórónuveirufaraldurinn hafi síðan truflað verkefnið en nú sé það að bera sinn fyrsta raunverulega ávöxt. Komur annarra skipa, eins og frá National Geographic fyrir fáeinum árum, hafi verið tilfallandi en ekki afrakstur þeirrar markaðsvinnu sem ráðist var í.
Halldór Karl segir að skipakoman á laugardaginn marki vonandi upphaf að einhverju stærra og meira. Það hafi oft verið kvartað yfir því að erfiðlega gangi að fá ferðamenn úr flugstöðinni til að koma niður í bæ og njóta þess sem Reykjanesbær hafi uppá að bjóða. „Vonandi gengur okkur betur með ferðafólkið sem kemur sjóleiðina til okkar,“ segir Halldór og brosir.
Það er þekkt úti á landi þegar skemmtiferðaskip eru í höfn að þar iðar mannlífið. Það ætti ekki að verða öðruvísi hér ef vel tekst til. Halldór Karl vonast því til þess að aðilar í verslun og þjónustu taki vel á móti þessum gestum. Það sé kostur við Keflavíkurhöfn að hún liggur að miðbænum á meðan höfn eins og Sundahöfn í Reykjavík sé á iðnaðarsvæði, sem hafi áhrif á ferðir þeirra sem kjósa að leggja upp í miðbæjarrölt í stað skipulagðrar ferðar með hópferðabílum.