Minningarskjöldur um Þormóðsslysið afhjúpaður á Garðskaga
Fyrir áttatíu árum, 18. febrúar 1943, varð eitthvert mannskæðasta slys Íslandssögunnar þegar 31 maður fórst við Garðskaga í fárviðri. Samúð þjóðarinnar beindist að sjávarþorpinu Bíldudal sem varð fyrir mestum mannskaðanum. Níu konur og eitt barn voru um borð og fern hjón. Þau sem fórust áttu 56 börn.
Vélskipið Þormóður BA fórst við Garðskaga eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Skipið var á leið frá Norðurlandshöfnum og Vestfjörðum með farþega og farm. Með skipinu fórust 31 maður, 24 farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn. Margir farþeganna voru frá Bíldudal.
Minningarskjöldur um Þormóðsslysið var afhjúpaður á Garðskaga í hádeginu síðasta laugardag. Egill Þórðarson loftskeytamaður fór yfir aðstæður á vettvangi í aðdraganda sjóslyssins aðfaranótt 18. febrúar 1943 og raunar frá því að skipið lagði upp frá Ólafsvík og fór fyrir Snæfellsnesið daginn áður. Einnig sagði Jakob Ágúst Hjálmarsson prestur nokkur orð. Jakob tók saman bókina „Allt þetta fólk“ árið 2013, sem fjallar um þennan harmleik sem þetta stóra sjóslys var. Þá stýrði Hörður Gíslason dagskránni og leiddi inn í athöfnina.
Það er Garðmaðurinn Bárður Bragason sem á heiðurinn af því að minningarskjöldurinn var settur upp við grjótgarðinn undir ljósi Garðskagavita. Bárður ber nafn Bárðar Bjarnasonar stýrimanns á Þormóði BA, sem hafði vitjað nafns í draumum hjá foreldrum Bárðar. Bárður sagði að það hafi sótt á hann lengi að setja upp minningarmark um þennan atburð á Garðskaga en eftir sagnastundina í vetur, þar sem Þormóðsslyssins var minnst, var ekki aftur snúið.
Með fullt af þreyttu, slæptu og sjóveiku fólki um borð
Í erindi Egils Þórðarsonar loftskeytamanns segir: Það var í febrúar árið 1943, það var vetur og það var stríð sem náði líka til Íslands. Veðurfregnir voru hernaðarleyndarmál, sem ekki mátti útvarpa vegna stríðsrekstursins og hættu sem stafaði af kafbátum sem lágu m.a. hér við Garðskagann. Strjálar ferðir strandferðaskipanna voru ekki auglýstar af sömu ástæðum. Þau bara komu og þau fóru án þess að vitað væri mikið um ferðir þeirra.
Ég heyrði fólk stundum tala um Þormóðsslysið heima í Ólafsvík og það var eins og færðist dimmur skuggi yfir það, þegar það talaði um þennan voðaatburð. Ég vil þakka Sr. Jakobi Ágústi Hjálmarssyni fyrir það mikla átak, að skrifa bókina “Allt þetta fólk”, þaðan er það litla sem ég veit um þennan atburð.
16. febrúar 1943 kom strandferðabáturinn Þormóður á Bíldudal, Esjan hafði ekki komið síðan í nóvember. Þormóður var að koma frá Hvammstanga með frosið kjöt fyrir herinn í Reykjavík. Fólk þurfti að komast suður, - margt fólk.
Þetta er harmsaga þar sem mönnum var eins og ýtt inn í hverja óyndis aðstöðuna af fætur annari. Nokkuð sem við getum séð eftir á. Þeir komu við á Patreksfirði og síðan var haldið suður Breiðafjörð í suðvestan þungum sjó, lagst undir Ólafsvíkurenni um nóttina og beðið átekta. Skyldi hann lægja með morgninum? Hann lægði ekkert með morgninum og það gengur mér hjarta nær að lesa lýsingu Jónasar Guðmundssonar í Brekkuhúsi, þar sem hann á landleið horfði á Þormóð halda út fyrir og fyrir Nes í þessu líka veðri og við vitum að hann var með með fullt af þreyttu, slæptu og sjóveiku fólki um borð.
Skipstjórnarmennirnir voru ekki öfundsverðir af hlutverki sínu, þeim var nauðugur einn kostur. Siglingatækin voru fábreytt, einn segulkompás og kannski snúrulogg, ekkert annað. Enginn radar, enginn dýptarmælir, engin miðunarstöð og auðvitað ekkert GPS. Sigldur leiðarreikningur og þurft að gera ráð fyrir afdrift á móti SV-áttinni, þurft að fara djúpt fyrir Snæfellsnes vegna lélegs skyggnis - og siglingin endaði á þennan hörmulega hátt.
Í dag þegar við erum að ergja okkur yfir öllum þessum reglugerðum um búnað skipa, menntunar-, mönnunar- og skráningarkröfum og fleiru sem gerir útgerð svo flókna, þá er okkur hollt að minnast þess að allt er þetta gert af góðum vilja og þekkingu til að hamla því að atburðir sem þessi endurtaki sig. Mikið hefur áunnist, en við þurfum sífellt að halda vöku okkar, því að við erum ekki herrar jarðarinnar, þar er einn sem öllu ræður og við skiljum ekki allt.
Ég vil að lokum þakka þeim feðgum, Bárði Bragasyni vinnufélaga mínum úr hraðfrystihúsinu Garðskaga og Hilmari Braga Bárðarsyni, syni hans, sem hóf blaðamennskuferil sinn innan við fermingu á skrifstofunni hjá mér niðri í Kothúsum, fyrir að minnast þessa atburðar af þeirri hógværð, alúð og myndarskap sem við erum nú vitni að, sagði Egill.
Allt þetta fólk
Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson skrifaði bókina Allt þetta fólk. Hún fjallar um Þormóðsslysið, aðdraganda þess og eftirköst. Jakob kom í vetur á sagnastund á Garðskaga þar sem hann fór yfir þennan harmleik sem Þormóðsslysið var. Bókin kom út fyrir tíu árum, þegar sjötíu ár voru liðin frá slysinu. Jakob ritaði einnig grein í Morgunblaðið á þeim tímamótum en eftirfarandi kafli úr greininni lýsir vel þeim aðstæðum sem við var að eiga:
Of margt fólk til þess að það geti farið vel um það
Það er áfram logn þegar siglt er út Arnarfjörðinn og komið á Patreksfjörð. Þar eru presturinn í Sauðlauksdal og skipstjóri af öðru skipi teknir um borð eftir talsverða bið og þá eru þau orðin 31 um borð. Þetta er of margt fólk til þess að það geti farið vel um það. Þetta skip er ekki neitt farþegaskip. Þetta er línuveiðari og síldarskip; leigt í strandflutninga af Skipaútgerðinni til að bæta upp siglingaleysi vegna stríðsins.
Það er farið að kula þegar komið er fyrir Blakk og í Grindavík er komið illviðri. Þá er um að gera að komast suður áður en hann nær inn á landið og á siglingaleiðina af alvöru. Þormóður er gangskip eftir því sem gerist og getur verið kominn til Reykjavíkur áður en langt verði liðið á næsta dag. Verst með þessar tafir allar. Skipið hefði eiginlega getað verið komið langleiðina suður núna. En það er vont að átta sig á veðrinu þegar engar eru veðurfréttirnar.
Það er orðið ærið hvasst þegar komið er undir Snæfellsnes og skynsamlegt að leita vars. En þá er eins víst að kjötið verði ónýtt. Alls er óvíst hversu lengi veðrið standi. Þormóður ver sig vel og vindurinn er svo sunnanstæður að það getur orðið skaplegt sjólag þegar komið verður inn á Faxaflóa. Öldurnar ganga yfir skipið í röstinni við Öndverðarnesið og um borð eru flestir orðnir sjóveikir og bera sig illa. Þetta verður mikill barningur áður en yfir lýkur.
Ofviðri
Voðalega er veðrið orðið slæmt! Það rýkur allur flóinn og allt að fjúka sem laust er. Vindurinn vælir um ufsirnar á Stýrimannastígnum og hriktir í húsinu. Ætti Þormóður ekki að vera kominn? Hefði hann ekki átt að vera kominn í morgun og nú er komið fram yfir hádegi? Það er vont að bíða í óvissu eftir sínum nánustu og vita af þeim í óveðri á hafinu.
Radíóið er fengið að kalla hann upp en fær ekkert svar. Það er snarvitlaust veður og öll skip í höfn sem við strendur eru. Ellefu vindstig á Hellissandi. Það er fárviðri! Varðskipið Sæbjörg er á leið inn Faxaflóann og reynir að ná sambandi en á nóg með sig að komast í heila höfn. Loks næst samband um kvöldmatarleytið. Það er spurt hvenær Þormóður sé væntanlegur: „Slóum Faxabugt. Get ekki sagt um það núna,“ er svarið. Þá er skipið búið að berjast í vaxandi illviðri frá því um nóttina og berst nú í ofsaviðri við stórvaxnar öldurnar. Það er ekki um annað að ræða en að láta skipið horfa beint upp í og áfram verður það að halda því ekki tjóir að slá undan. Það er bara að vona að stefnan verði ekki of grunnt og skipið lendi í Garðskagaröstinni.
Um hálf ellefu hefur skipið tekið í sig mikinn sjó, því í skeyti frá því segir: „Erum djúpt úti af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er að hjálpin komi fljótt.“ Það er þá komið vestur úr röstinni og veðurhamurinn ólýsanlegur og öngþveitið og háskinn hefur fangað hverja sál. Brotsjór hefur riðið yfir skipið og tekið burtu björgunarbátinn og flekann og svipt burtu öllu sem enn var ofanþilja. Það allt rak við Melaberg rétt við Hvalsnes. Áfram heldur barátta skipverjanna við að halda skipinu á floti í nokkra klukkutíma en hún verður árangurslaus.
Sjórinn verður brátt svo mikill í skipinu að vélin stöðvast, og þá er stríðið tapað. Vélarvana skip á sér varla neina von í slíkum hamförum náttúrunnar. Enn ríður brotsjór yfir og brýtur af brúna og stjórnlaust berst Þormóður með stormi og straumi í norðausturátt og að lokum upp á Garðskagaflösina þar sem hann brotnar. Flakið berst í sjólokunum inn með landi og hverfur þar í djúpið. Klukkan er 3:13 aðfaranótt 18. febrúar. Allt þetta fólk lætur líf sitt. Ekkert þeirra var til frásagnar um þann mikla hildarleik sem háður var né þá angist sem heltók hjartarætur mæðra og feðra um borð um hvernig börnum þreirra sem heima biðu ótíðindanna mundi farnast án forsjár þeirra.
Góður stuðningur við verkefnið
Feðgarnir Bárður Bragason og Hilmar Bragi Bárðarson leituðu á nokkra staði eftir stuðningi við verkefnið. Leitað var til Garðmannsins Kjartans Ólafssonar, sem á þessum tíma var stjórnarformaður Arnarlax á Bíldudal við Arnarfjörð. Það varð úr að Arnarlax studdi af myndarskap við verkefnið. Einnig studdu tvö fyrirtæki úr Garðinum verkefnið. Það eru SI Raf ehf. og Bragi Guðmundsson ehf. Þá fær Hans Wíum Bragason þakkir fyrir ómælda aðstoð við uppsetningu á minningarskyldinum. Einnig fær listamaðurinn Jóhann Jónsson, Jói Listó, frá Vestmannaeyjum þakkir fyrir mynd af Þormóði BA sem hann teiknaði fyrir bókina Allt þetta fólk. Hann útfærði myndina einnig sérstaklega fyrir minningarskjöldinn og gaf vinnuna við verkið. Hann teiknaði jafnframt kortið sem er hér með þessari umfjöllun og sýnir siglingaleið Þormóðs BA fyrir Snæfellsnes og að Stafnesi, þaðan sem neyðarkall berst frá áhöfninni. Þar er Þormóði snúið við en hann er svo talinn hafa brotnað á Garðskagaflösinni og sokkið í kjölfarið.