Max 1
Max 1

Fréttir

Oddný tilkynnir í vikunni hvort hún gefi kost á sér áfram
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 15. október 2024 kl. 14:10

Oddný tilkynnir í vikunni hvort hún gefi kost á sér áfram

„Þeir sem vita fyrir hvað ég stend í pólitík, vita að ég vil mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri,“ segir Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingar í Suðurkjördæmi. Oddný hefur setið í sextán ár á þingi og mun tilkynna í vikunni hvort hún sækist eftir endurkjöri.

Tíðindin komu Oddnýju langt í frá á óvart.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Þegar maður horfir upp á ráðherra rífast í fjölmiðlum eins og við höfum orðið vitni að að undanförnu, veit maður að það er komið að endalokum. Það er eitt að þingmenn deili en að ráðherrar séu að munnhöggvast í fjölmiðlum segir allt sem segja þarf. Vissulega kemur á óvart að oddvitar samstarfsflokkanna komu af fjöllum en væntanlega var formaður Sjálfstæðisflokksins að hugsa um hag síns flokks, ég held að það hafi verið rétt mat ef ég set mig í hans spor en ég er hins vegar ekki stjórnmálaskýrandi heldur alþingiskona og hugsa bara um minn flokk.“

Mikill meðbyr með Samfylkingunni

„Það er búinn að vera mikill meðbyr með okkur í Samfylkingunni í u.þ.b. tvö ár núna og ber að þakka það helst tvennu, við höfum farið víða og hitt kjósendur og rætt við þau um hvað þeim finnist brýnast, höfum farið í öfluga málefnavinnu í kjölfarið, og svo hefur líka verið mikil óánægja með ríkisstjórnina. Við tökum komandi kosningum fagnandi, það eru margir sem vilja ganga til liðs við flokkinn þessa dagana, það vilja allir vera í sigurliðinu. Ef ég fæ einhverju um ráðið þá verður mynduð ríkisstjórn frá miðju til vinstri, eftir tæp sextán ár á þingi veit fólk hvar ég stend í minni pólitík, ég er vinstri manneskja. Formaður flokksins útilokar hins vegar ekki samstarf við neinn flokk.

Ég er búin að gera upp hug minn til áframhaldandi þingsetu og mun tilkynna ákvörðun mín á kjördæmisráði síðar í vikunni,“ sagði Oddný.