Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ræða starfslokasamning bæjarstjóra á lokuðum fundi
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Þriðjudagur 8. nóvember 2016 kl. 06:00

Ræða starfslokasamning bæjarstjóra á lokuðum fundi

- Bæjarstjórn Grindavíkur kemur saman í dag

Bæjarstjórn Grindavíkur mun ræða starfslokasamning Róberts Ragnarssonar, bæjarstjóra, á lokuðum fundi klukkan 19:00 í kvöld. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.  Þar segir að fundurinn fari fram fyrir luktum dyrum þar sem fjallað verði um trúnaðarmál.

Líkt og greint var frá í Víkurfréttum 2. september síðastliðinn þá ákvað Róbert að flytja til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að þar búa börnin hans og unnusta en hann hafði búið í Grindavík í sex ár. Þá kváðust bæði Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar og Hjálmar Hallgrímsson, varaforseti, vilja að bæjarstjórinn myndi áfram búa í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fólk hefur rétt á því að búa þar sem það vill búa. Í þessu tilfelli breytast aðstæður hjá honum á kjörtímabilinu. Ég vil auðvitað að bæjarstjóri búi í Grindavík, en ég get ekki krafið hann um það. Ég er ekkert hress með að hann sé að flytja en ég sýni því skilning,“ sagði Kristín María Birgisdóttir forseti bæjarstjórnar í viðtali við Víkurfréttir 2. september. Ekki var skilyrði í ráðningasamningi Róberts að hann yrði að búa í Grindavík og því var hann var ekki að brjóta samning sinn með búferlaflutningunum. „Í ráðningarferlinu sögðum við þó skýrt að við vildum að hann myndi búa í Grindavík. Það hefur hann gert í sex ár en nú eru breyttar aðstæður. Ég skil hann mjög vel að hann vilji halda heimili þar sem fólkið hans er,“ sagði Kristín.

Varaforseti bæjarstjórnar í Grindavík kvaðst í september vera óhress með ákvörðun bæjarstjórans að flytja. Þá sagði hann skiptar skoðanir um það í bæjarfélaginu að bæjarstjórinn myndi ekki búa á staðnum.