Fréttir

Þórkatla hefur keypt tæpar 900 eignir í Grindavík
Tilmæli Almannavarna hafa haft áhrif á ákvarðanatökur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. september 2024 kl. 06:09

Þórkatla hefur keypt tæpar 900 eignir í Grindavík

„Við munum kynna hollvinasamning fljótlega,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu sem er fasteignafélag, stofnað í þeim tilgangi að kaupa húseignir í Grindavík. Þegar þessi frétt er rituð hefur Þórkatla keypt tæpar 900 íbúðir og hús af þeim 1.200 sem eru í bænum. Örn Viðar er stoltur af árangrinum en skilur gagnrýni á einstaka þætti framkvæmdarinnar, bendir þó á að svona lagað hafi ekki áður verið gert og því ekki við neitt að styðjast í ferlinu.

Þórkatla var stofnuð 27. febrúar og Örn Viðar var einn 27 umsækjenda um framkvæmdastjórastöðuna og hreppti hnossið.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég tel okkur hafa leyst þetta vel og er mjög stoltur af vinnu okkar hjá Þórkötlu, það var gríðarlegt álag á okkur í byrjun þegar umsóknum hreinlega rigndi yfir okkur en eftir að við náðum vopnum okkar hefur þetta gengið mjög vel myndi ég segja. Það var búið að vinna vissa undirbúningsvinnu en töluvert sem þurfti að útfæra og fullvinna til þessa framkvæmdin gæti hafist.“

Grindvíkingar hafa til áramóta að sækja um sölu á húseign sinni en ekkert er því til fyrirstöðu frá hendi Þórkötlu að framlengja frestinn að sögn Arnar en hópur Grindvíkinga sem fór á fund Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, í sumar kom til baka af þeim fundi með jákvæð viðbrögð ráðherranna við þeirri beiðni.

„Við höfum heyrt þessar hugmyndir en við störfum eftir þeim lögum sem voru sett og þar kemur þessi tímarammi, til áramóta fram svo alþingi þyrfti að breyta lögunum en okkar vegna mælir ekkert á móti því að framlengja frestinn,“ segir Örn Viðar.

Gróa á Leiti

Ýmsar sögusagnir hafa verið á reiki varðandi húsaleiguna sem Grindvíkingum stendur til boða.

„Við tilkynntum í sumar hvernig húsaleigu yrði háttað til þeirra Grindvíkinga sem óska eftir því og byggir fyrirkomulagið á markaðsleigu að teknu tilliti til aðstæðna í Grindavík á hverjum tíma. Ákveðið hefur verið að leigan út þetta ár nemi 25% af markaðsleigu á Suðurnesjum. Leigan mun taka mið af brunabótamati eignanna og verður í kringum 625 kr. á fermetra þar til aðstæður í Grindavík verðar taldar öruggari. Við sögðum á sama tíma að þetta viðmiðunarverð verði endurskoðað árlega svo hvernig sögusagnir um að verðið myndi hækka strax um áramótin í sama verð og gildir í Reykjavík, veit ég ekki um. Þegar þjónusta verður komin á fyrra stig í Grindavík og þegar líf verður búið að færast í eðlilegt horf, þá hlýtur að teljast sanngjarnt að Grindvíkingar borgi sem nemur markaðsleiguverði, ég held að allir hljóti að geta verið sammála um það.“

Örn Viðar staðfesti annan orðróm. „Við höfum ekki gengið frá neinum leigusamningum til þessa en enda tókum við mið af almennum varnaðarorðum frá Almannavörnum í aðdraganda síðasta eldgoss, um að fara okkur hægt í þessum málum. Almannavarnir töldu ekki óhætt að búa í Grindavík og við tókum tillit til þess og ákváðum að bíða með þessa leigusamninga,“ segir Örn Viðar.

Grindvíkingar geta óskað eftir forkaupsrétti á húsi sínu og sömuleiðis hafa verið sögusagnir á kreiki varðandi verðið sem hægt verður að kaupa húsin á til baka.

„Við erum ekki með nein önnur áform en að selja eignirnar með sama hætti og við keyptum, þ.e. á á 95% af brunabótamati, eins og segir í reglugerð um kauprétt fyrrum eigenda. Ef einhver vill kaupa eign þar sem seljandi óskaði ekki eftir forkaupsrétti, þá er ekkert sem mælir á móti því og við munum skoða það ef aðstæður leyfa,“ segir Örn Viðar.

Hollvinasamningur

Grindvíkingar hafa verið ósáttir við að þurfa skila eign sinni tómri en allir ruslagámar á suðvesturhorninu hafa meira og minna verið fullir síðan Grindvíkingar seldu eign sína til Þórkötlu.

„Ég hef heyrt þessa gagnrýni, það er eflaust eitthvað í umgjörðinni og rammanum sem betur hefði mátt fara, það get ég alveg viðurkennt en þetta var snúið verkefni og við höfðum ekki við neitt að styðjast. Ég hef heyrt af þessari óánægju Grindvíkinga varðandi skil á viðkomandi eign, að þurfa að tæma eignina. Það getur vel verið að það hefði mátt hugsa einhverja hluta betur og það er jú þannig í mjög mörgum málum. Þetta var vissulega jafnvægislist að taka við eignum þannig að hægt væri að selja þær aftur og gefa seljendum færi á að geyma hluti í henni eða nýta eignina. Það var mikill orðrómur í vor um að fólk ætlaði ekki að ganga sómasamlega frá eignunum og það varð til þess að við ítrekuðum að skila ætti eignum eins og í hverjum öðrum fasteignaviðskiptum. Reynslan hefur almennt verið góð og fólk er að skila eignunum vel af sér. Í kjölfar þessarar gagnrýni höfum við brugðist við og verið jákvæð á frestun afhendingar og ef fólk leitar eftir því, veitt heimildir fyrir því að geyma hluti á tilteknum stað svo sem í bílskúr í tiltekinn tíma. Við erum að vinna að svokölluðum hollvinasamningi sem snýr að samstarfi við fyrrum eiganda á viðkomandi eign, að viðkomandi greiði fyrir hita og rafmagn og geti komið inn á gamla heimilið en sjái á móti um ákveðið viðhald og umhirðu. Það er mikilvægt að Grindvíkingar haldi tengingu við gamla heimilið sitt og vonandi munu allir eða sem flestir snúa aftur þegar það telst öruggt. Vonandi verður aðgengi að Grindavík aukið fljótlega og þá munum við kynna þennan hollvinasamning betur.

Þetta er búið að vera krefjandi verkefni en ég er mjög stoltur af því að við höfum keypt nærri 900 eignir sem þýðir að við höfum hjálpað þeim fjölda fjölskyldna að komast út úr erfiðum aðstæðum og koma sér fyrir á nýjum stað. Með tíð og tíma mun Grindavík blómstra á ný, það er ég sannfærður um,“ sagði Örn Viðar að lokum.