Fréttir

Framkvæmdir í Grindavík ganga vel og stefnt á opnun bæjarins
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. september 2024 kl. 06:08

Framkvæmdir í Grindavík ganga vel og stefnt á opnun bæjarins

„Framkvæmdir hafa gengið vel myndi ég segja en ég vil ekki gefa út hvenær við áætlum að þeim ljúki en þegar þessum fyrsta og öðrum fasa verður lokið og flóttaleiðir verða þar með greiðar, munum við óska eftir því að lokunarpóstar verði teknir niður,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður Grindavíkurnefndarinnar.

Grindavíkurnefndin svokallaða tók til starfa í byrjun júnímánaðar og er farin að láta til sín taka.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Staðan í Grindavík er kannski ekki mikið breytt en það er búin að vera vinna í viðgerðum á götum og innviðum, og setja upp girðingar á hættulegum svæðum. Þetta hefur gengið nokkuð vel myndi ég segja og er á áætlun en ég vil ekki gefa út hvenær við áætlum að þessu ljúki, það getur alltaf eitthvað komið upp á sem þarf að laga en þetta hefur gengið vel til þessa. Um leið og þessu lýkur vonumst við til að hægt verði að opna bæinn og auka aðgengi að honum en allar flóttaleiðir út úr bænum þurfa þá að vera greiðfærar. Það var sett upp skipulag um hvað sé mest aðkallandi og við erum í fyrsta fasa núna og erum að byrja á því sem er í öðrum fasa og þegar þessu tvennu verður lokið tökum við stöðuna. Við fengum Vegagerðina til að vera yfir verkinu og Vegagerðin er svo með undirverktaka í einstökum verkum,“ segir Árni Þór.

Vinnan var hafin fyrir síðasta eldgos en í aðdraganda þess var ákveðið að setja allt á ís en Árni er vongóður um að fá vinnufrið fyrir náttúruöflunum á næstunni.

„Veðurstofan hefur gefið í skyn að líklega muni lengri tími líða fram að næsta atburði svo við munum kappkosta að nýta tímann vel og gera bæinn öruggari svo hann geti opnað og þegar þessum fyrsta og öðrum fasa lýkur munum við kynna hvað búið sé að gera og hvað sé framundan. Við erum í nánu sambandi við fjölmarga aðila eins og Almannavarnir, Lögregluna, Öryggismiðstöðina o.fl., það þurfa allir að róa í sömu átt. Markmiðið er að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið og glæða bæinn meira lífi en hvenær allt verður komið í eðlilegt horf með skólahaldi t.d. er ómögulegt að segja til um á þessum tímapunkti. Ákvörðunin um að afnema skólahald á yfirstandandi skólaári var tekin í apríl og við vitum ekkert núna hvernig staðan verður í apríl á næsta ári. Það er ótímabært að tjá sig um það, við verðum einfaldlega að taka skynsamlegar ákvarðanir þegar hægt er að taka þær en hægt og bítandi mun Grindavík ná vopnum sínum á ný, það er ég sannfærður um,“ sagði Árni Þór að lokum.