Fréttir

Tilbúin varnaraðgerð verði gos við Grindavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 7. febrúar 2020 kl. 07:37

Tilbúin varnaraðgerð verði gos við Grindavík

Stórar jarðýtur geta gert varnargarða til að stýra hraunflæði verði gos og verja þannig byggð og mannvirki. 
Mikilvæg forvörn að tryggja tæki og mannskap komi til goss.

Ef til goss kæmi við Grindavík verður hægt að ýta upp varnargörðum til að stýra hraunflæði. Starfsmenn Verkfræðistofu Suðurnesja hafa undanfarið skoðað hvernig verja megi byggð og önnur mannvirki fyrir hugsanlegu hraunflæði ef til eldgoss kæmi vestan við Þorbjörn. Sú leið sem mönnum finnst vænlegust er að ýta upp varnargörðum með mörgum stórum jarðýtum.

„Þetta yrði útfært þannig að notaðar yrðu sex til átta jarðýtur, af stærstu gerð, sem myndu ýta upp varnargarði eða görðum sem myndu leiða hraunrennslið frá byggð og mikilvægum mannvirkjum,“ segir Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Suðurnesja. Hann segir að þar sem ekki sé fyrirfram ljóst hvort eða hvar gosið kæmi upp og því ekki hægt að gera þessa garða fyrirfram. „Strax eftir að byrjað er að gjósa yrði lega þeirra ákveðin og þessar jarðýtur settar af stað. Þar sem hraun rennur ekki mjög hratt ættu ýtur þessar að geta byggt upp varnargarðinn vel á undan flæðinu. Þær væru eingöngu látnar ýta upp núverandi hrauni gosmegin við garðinn. Varnargarðurinn yrði svo mótaður og styrktur með beltagröfum sem væru upp á garðinum og í vari. Nýja hraunið myndi síðan fara yfir sárin eftir ýturnar og leggjast að varnargarðinum, þannig myndi landslagið verða nokkuð eðlilegt eftir gos, óhreyft eldra hraun hlémegin en nýtt hraun gosmegin. Hæð og lega varnargarða yrði ákveðin þegar ljóst er hvar gosið og  hraunrennslið er.“

Brynjólfur segir að mikilvægasta forvörnin sé því fólgin í að tryggja jarðýtur, gröfur og fleiri viðeigandi tæki ásamt mannskap sem væri til taks ef til  goss kemur. Einnig þarf að vera búið að skoða vel fyrirfram hæðarlegu svæðisins og þjálfa mannskap.

Kort frá Verkfræðistofu Suðurnesja sem sýnir mögulegt hraunflæði og staðsetningu varnargarða.