Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinnustöðvun félagsmanna FFÍ um borð í flugvélum Primera
Þriðjudagur 9. maí 2017 kl. 15:52

Vinnustöðvun félagsmanna FFÍ um borð í flugvélum Primera

Flugfreyjufélag Íslands samþykkti í dag vinnustöðvun flugfreyja um borð í vélum Primera Air Nordic með öllum greiddum atkvæðum. Verkfall flugfreyja hjá Primera Air Nordic hefst þann 15. september nk. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. 
 
Laun flugliða Primera Air, sem flestir eru frá Lettlandi, eru langt undir íslenskum lágmarkslaunum auk þess sem þeir njóta ekki ýmissa þeirra réttinda sem lög- og kjarasamningsbundin eru hér á landi. 
 
Primera Air Nordic starfar á Íslandi og flugliðar þess eru með heimahöfn hér á landi.
 
 
Forsagan

Þann 2. júní 2015 gerði Flugfreyjufélag Íslands kröfu á hendur Primera Air Nordic SIA um að gengið yrði til viðræðna um kjarasamning vegna flugfreyja um borð í flugvélum félagsins. Þessar flugfreyjur eiga  skv. flugáætlun og flugreglum heimahöfn á Íslandi. Primera flýgur með farþega frá og til Íslands á vegum Heimsferða, Terra Nova Sol og ef til vill fleiri fyrirtækja hér á landi sem öll eru í eigu sama móðurfélags með einum eða öðrum hætti. Þau störf sem unnin eru um borð í vélum félagsins falla undir íslenska lögsögu og skv. íslenskum lögum er viðeigandi stéttarfélögum heimilt að gera kröfu um gerð kjarasamnings og fylgja þeirri kröfu eftir með þeim lögmætu úrræðum sem mælt er fyrir um í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. 
 
Primera Air sinnti kröfu Flugfreyjufélagsins í engu. Þann 23. desember 2016 var krafan ítrekuð og veittur frestur til 9. janúar 2017 til þess að ákveða upphaf viðræðna ella yrði deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Engin viðbrögð bárust frá Primera. Þann 23. janúar 2017 og með vísan til 3. mgr. 15. gr. laga 80/1938 var deilunni vísað til ríkissáttasemjara og þess óskað að hann hefði  milligöngu um lausn hennar. Það bar ekki árangur. 
 
Atkvæðagreiðsla um verkfall
Fundur stjórnar- og trúnaðarráðs Flugfreyjufélags Íslands sem haldinn var 6. apríl 2017, samþykkti að fram skyldi fara allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna félagsins um boðun ótímabundinnar vinnustöðvunar flugfreyja um borð í flugvélum Primera Air Nordic. Hin ótímabundna vinnustöðvun skyldi hefjast kl. 06:00, föstudaginn 15. september 2017 nema kjarasamningar hefðu tekist fyrir þann tíma. Atkvæðagreiðslan hófst á aðalfundi félagsins 2. maí 2017 og stóð til kl. 14:00 þriðjudaginn 9. maí 2017. Atkvæðisrétt áttu 1189 félagsmenn. Atkvæði greiddu 429 eða 36.1%. Atkvæði féllu þannig að já sögðu 429 og nei sagði enginn. Ótímabundin vinnustöðvun flugfreyja um borð í framangreindum flugvélum Primera Air Nordic SIA var því samþykkt og hefst þann 15. september 2017 kl. 06:00 hafi kjarasamningar ekki tekist fyrir þann tíma.   
 
Aðgerðin er gerð í samvinnu og samráði við Alþýðusamband Íslands. Hún nýtur stuðnings miðstjórnar og aðildarfélaga ASÍ auk þess sem systursamtökum Flugfreyjufélagsins og öðrum verkalýðssamtökum á Norðurlöndunum er haldið upplýstum um gang mála. Stuðningur þeirra er vís. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024