Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ætlaði alltaf að verða atvinnumaður
Laugardagur 16. desember 2017 kl. 07:00

Ætlaði alltaf að verða atvinnumaður

- Hlakkar til að takast á við verkefni atvinnumennskunnar

Knattspyrnukonan Ingibjörg Sigurðardóttir skrifaði undir samning við sænska liðið Djurgården á dögunum, en að sögn Ingibjargar ætlar liðið sér stóra hluti í sænsku deildinni á næsta ári.
Ingibjörg ólst upp í Grindavík og lék með liðinu til ársins 2011 en aðeins þrettán ára gömul lék hún sína fyrstu leiki með meistaraflokki Grindavíkur. Síðastliðin sex ár hefur hún leikið með Breiðablik í efstu deild kvenna í knattspyrnu.

Þegar Ingibjörg er spurð hvers vegna hún valdi það að fara til Svíþjóðar segir hún að Djurgården sé metnaðarfullur klúbbur. „Þau ætla sér stóra hluti í sænsku deildinni á næsta ári en deildin er mjög sterk. Ég er viss um að þarna er gott umhverfi fyrir mig til að bæta mig sem leikmaður og þróa minn leik en á sama tíma get ég hjálpað liðinu að ná sínum markmiðum.“ Framundan eru stífar æfingar hjá Ingibjörgu en í desember mun hún halda áfram að æfa með Breiðablik ásamt því að æfa sjálf. „Ég fer til Svíþjóðar í byrjun janúar, hitti liðið og þá fer allt að rúlla. Mér skilst að bikarkeppninni byrji í febrúar þannig það er ekkert svo langt í að þetta byrji allt saman sem er bara spennandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

EM ævintýri landsliðsins stendur upp úr hjá Ingibjörgu í ár, það var mikil reynsla fyrir hana og allt landsliðið að taka þátt í því móti. „Sigurinn á Þýskalandi stóð líka frekar mikið upp úr hjá mér því þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem við vinnum Þýskaland og það var mögnuð tilfinning. En ég verð líka að minnast á tímabilið með Breiðablik sem var mitt síðasta með þeim í bili en það verður alltaf eftirminnilegt. Við misstum marga leikmenn í lok tímabils og þetta leit ekkert vel út á tímabili hjá okkur en karakterinn og samstaðan í liðinu skilaði okkur ágætis árangri. Maður er samt aldrei sáttur með annað sætið en ég er þrátt fyrir það ótrúlega stolt af liðinu mínu.“

Ingibjörg stefndi alltaf á atvinnumennsku og hefur það verið markmiðið hennar frá því hún var lítil. „Þetta er mjög spennandi fyrir mig.“
Ingibjörg ætlar að æfa vel um jólin og koma sér í gott stand. „Svo ætla ég að eyða góðum stundum með fjölskyldu og vinum áður en ég flyt svo út í byrjun janúar.“