Ætlum að vera eitt af bestu liðunum í vetur
Ólöf Rún Óladóttir, leikmaður Grindavíkur og leikmaður U-16 ára landsliðsins í körfu, segir að erfitt hafi verið að æfa í byrjun tímabils án þjálfara en að framundan sé skemmtilegt verkefni hjá Grindavík.
„Veturinn leggst mjög vel í mig og framundan er mjög skemmtilegt en krefjandi verkefni,“ segir Ólöf þegar hún er spurð hvernig veturinn leggist í hana.
Hún segir að stemningin í hópnum sé mjög góð og samheldnin mikil enda hafi stelpurnar flestar þekkst frekar lengi og nái vel saman. „Væntingar okkar í vetur eru klárlega að vera eitt af bestu liðunum og berjast á toppnum, svo sjáum við hvert það leiðir okkur.“
Kvennalið Grindavíkur hefur verið þjálfaralaust í nokkurn tíma núna þar sem þjálfari þeirra, Angela Rodriguez, er erlendis í myndatökum vegna meiðsla í baki. Ólöf segir æfingarnar hafa verið fínar, en það sé þó erfitt að hafa þjálfarann ekki viðstaddan. Undirbúningurinn hafi annars gengið vel.
Grindavík mætir ÍR á útivelli í dag kl. 16:30.