HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Annar sigur Grindvíkinga í röð
Kwame Quee og Hassan Jalloh skoruðu báðir í gær. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 23. júní 2024 kl. 11:12

Annar sigur Grindvíkinga í röð

Grindavík vann annan sigur sinn í röð í Lengjudeild karla í knattspyrnu með sigri á Dalvík/Reyni í gær. Þrátt fyrir að lenda undir í uppbótartíma fyrri hálfleiks sneru heimamenn dæminu við í þeim seinni með þremur mörkum.

Grindavík hefur unnið báða leiki sína undir stjórn Haraldar Árna Hróðmarssonar en það eru jafnframt einu sigrarnir á tímabilinu. Með sigrinum jafnar Grindavík stigafjölda Keflavíkur og sitja liðin í fimmta og sjötta sæti, Keflavík með betra markahlutfall.

Optical Studio
Optical Studio

Grindavík - Dalvík/Reynir 3:1

Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Grindvíkingar lentu undir á versta tíma, andartökum áður en blásið var til leikhlés. Þá tók Áki Sölvason aukaspyrnu út við hliðarlínu sem fór í gegnum allan pakkann og hafnaði í marki Grindvíkinga. Verulega klaufalegt.

Kwame Quee jafnaði snemma í seinni hálfleik eftir stoðsendingu frá Degi Inga Hammer Gunnarssyni (51').

Um tíu mínútum síðar, eftir stífa sókn Grindvíkinga að marki gestanna í kjölfar hornspyrnu, barst knötturinn til Dags Inga sem reyndi skot frá vítateigslínu en hitti boltann illa og úr varð hin fínasta sending á Hassan Jalloh sem skoraði með hælnum og kemur Grindavík yfir (62').

Þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerði Haraldur Árni þrefalda skiptingu hjá Grindavík og það var gleðilegt að sjá Adam Árna Andersen koma inn á en hann kjálkabrotnaði í fyrstu umferð og var búist við að hann yrði mun lengur frá keppni.

Rétt fyrir leikslok kom Helgi Hafsteinn Jóhannsson inn á og það tók hann einungis fimm mínútur að setja mark sitt á leikinn. Adam Árni fékk boltann á vinstri kanti og lék framhjá hverjum andstæðingnum af öðrum, sendi boltann yfir á Helga sem átti gott skot í fjærhornið og innsiglaði sigur Grindavíkur (89').

Leikinn má sjá í spilaranum fyrir neðan fréttina.

Grindavík - Dalvík/Reynir 3:1