Íþróttir

Suðurnesin eignuðust heimsmeistara í Hyrox
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 6. september 2024 kl. 06:11

Suðurnesin eignuðust heimsmeistara í Hyrox

Suðurnes eignuðust fyrstu íslensku heimsmeistarana í Hyrox en heimsmeistaramótið fór fram í Nice í Frakklandi dagana 7.–9. júní. Þær Ásta Katrín Helgadóttir og Árdís Lára Gísladóttir kepptu í flokki 60–69 ára og báru sigur úr býtum.

Í Hyrox takast keppendur á við átta æfingaþrautir og hlaupa einn kílómetra á milli hverrar þrautar. Þrautirnar innihalda mismunandi þyngdir, endurtekningar eða vegalengdir. Allir aldursflokkar keppa í neðantöldum greinum en svo er hægt að keppa í pro flokki og þá eru meiri þyngdir og fleiri endurtekningar í áttundu greininni, 100 í stað 75.

1. Skíðavél 1.000 m.

2. Ýta sleða sem er 115 kg, 50 m.

3. Draga sleða sem er 90 kg, 50 m.

4. 80m burpees með langstökkshoppi.

5. 1.000 m í róðravél.

6. 200 m bóndaganga með 2x16 kg ketilbjöllur.

7. 100 m framstigsganga með 10 kg poka á herðum.

8. 75 endurtekningar Wall Ball sem er 4 kg.

Til að komast á heimsmeistaramót þarf að vinna parakeppni í aldursflokknum á opnum Hyrox-mótum sem haldin eru víðsvegar um heiminn. Ásta og Árdís kepptu í Stokkhólmi í desember 2023 og áunnu sér rétt til að keppa á heimsmeistaramótinu. Ekki nóg með að þær hafi áunnið sér rétt til að keppa á heimsmeistaramótinu, þær settu heimsmet, 1:22:35.

Ásta Katrín er alsæl með nafnbótina „heimsmeistari“ en hvaða íþrótt er þetta og hvaðan kemur hún?

„Heimsmeistari hljómar já mjög vel í mínum eyrum. Það var gaman fyrir okkur Árdísi að verða ekki bara fyrstu íslensku heimsmeistararnir í Hyrox heldur líka fyrstu Suðurnesjakonurnar.

Hyrox byrjaði í Þýskalandi árið 2017 og hefur stækkað ár frá ári og mun gera það áfram því hún hentar öllum. Hyrox svipar að einhverju leyti til Crossfit en í þeirri íþrótt er krafist mun meiri tæknikunnáttu sem hentar ekki öllum, Hyrox er orðið stærra en Crossfit í dag og á bara eftir að stækka meira. Stefnt er að því að koma Hyrox að sem keppnisgrein á næstu Ólympíuleikum, ég tel það mjög raunhæft.

Við Árdís byrjuðum að æfa saman árið 2007 ásamt öðrum í hópnum Fimm fræknar, við vorum að keppa í allskyns þrekkeppnum og árið 2021 fréttum við af Hyrox og fórum að æfa það, mættum á okkar fyrsta heimsmeistaramót í Manchester í fyrra og erum auðvitað hæstánægðar að vera orðnar heimsmeistarar núna. Við ætlum að sjálfsögðu að mæta á næsta mót en fyrst þurfum við að mæta á úrtökumót. Við ætlum á mót sem verður haldið í desember í Stokkhólmi, markmiðið er að bæta heimsmetið. Það er alltaf gott að vera með gulrót fyrir framan sig,“ sagði Ásta að lokum.