Íþróttir

Freyja hjálpar fólki   að huga að heilsunni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 6. september 2024 kl. 11:55

Freyja hjálpar fólki að huga að heilsunni

Þitt Form áskorun 
9. sept. til 9. nóv.

„Það er allt komið á fleygiferð eins og gerist iðulega á haustin þó mæting hafi verið mjög góð í sumar en Þitt Form áskorun hefst 9. september og stendur til 9. nóvember. Þar munum við bjóða upp á áhugaverðar nýjungar,“ segir Freyja Sigurðardóttir, einkaþjálfari og eigandi námskeiða sem heita Þitt form og eru í Sporthúsinu á Ásbrú.

„Þessi áskorun verður aðeins öðruvísi hjá mér í ár. Ég ætla að einbeita mér meira að því að hjálpa fólki að huga að heilsunni og fá fólk til að setja sér raunhæf markmið. Ég er búin að gera heilsuhandbók sem allir sem skrá sig í áskorunina fá frá mér.  Þá er ég einnig búin að græja fullt af mataruppskriftum, matarprógrömmum og fróðleik til að aðstoða alla við að koma sér af stað og viðhalda árangrinum,“ segir Freyja sem verður með með mælingar í upphafi áskorunarinnar, millimælingar og lokamælingar. „Það er svo gott að fylgjast með fólkinu mínu og leiðbeina því á hvaða leið þau eru með hverri mælingu.

Freyja segir að meðal nýjunga verði fyrirlestrar frá Röggu nagla 12. október og þá verði Ásdís grasalæknir með fyrirlestur og kósýkvöld en dagsetning hefur ekki verið ákveðin. Freya er í samstarfi við Nike og H.verslun sem mun bjóða fólki í áskorun upp á tilboð, vinninga og fleira.

„Við verðum með glæsilega vinninga í áskoruninni að verðmæti yfir milljón króna og munum við fljótlega greina frá þeim. Þannig að það verður nóg um að vera hjá okkur næstu vikur og mánuði í Þitt Form. Við bjóðum alla velkomna. Það er fólk í tímum hjá okkur á öllum aldri en tímar í Þitt form eru mánudaga til föstudaga kl. 6, 8:45, 12 og 16.30 og stundum líka 17:30, laugardaga 9:30 og sunnudaga 10.30.

„Við erum dugleg að vera með „pop up“ tíma fyrir okkar fólk í heita salnum sem er mjög gott eftir góða æfingaviku, fara aðeins í heita salinn og taka rólega æfingu, teygjur og slökun.“