HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Enginn íslenskur körfuknattleiksmaður leikið með jafn öflugum háskóla
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 22. júní 2024 kl. 06:11

Enginn íslenskur körfuknattleiksmaður leikið með jafn öflugum háskóla

„Stefnan að klára námið og fara svo í atvinnumennsku,“ segir Bragi Guðmundsson, körfuknattleiksmaður frá Grindavík, en hann er nýlega kominn heim frá Bandaríkjunum eftir ársdvöl í hinum eina sanna Penn State-háskóla. Líklegt má þykja að enginn íslenskur körfuknattleiksmaður hafi leikið með jafn þekktu háskólaliði í Bandaríkjunum en skólinn er í einum af sterkustu deildunum í háskólaboltanum og gæðin því gífurleg. Bragi er ungur og fékk ekki mörg tækifæri og hefur því tekið ákvörðun um að færa sig um set í Bandaríkjunum.

Bragi sér alls ekki eftir því að hafa valið Penn State og er sannfærður um að hafa bætt sig mikið sem körfuknattleiksmaður, bæði innan og utan vallar.

Optical Studio
Optical Studio

„Þetta með að fara í Penn State kom í raun of seint upp svona eftir á að hyggja. Mitt plan var ekki að fara í háskólaboltann í Bandaríkjunum, ég vildi frekar komast til liðs í Evrópu þar sem ég væri bæði í atvinnumennsku og námi. Svo kom þetta upp og ferlið tók u.þ.b. þrjá mánuði og þegar ég loksins gat farið út var liðið búið að vera æfa saman í nokkra mánuði. Ég vissi auðvitað fyrirfram að það yrði erfitt að fá spilatíma því þetta er körfubolti á mjög háu stigi og flestir eldri en ég en það var ekkert annað að gera en bretta upp ermar og taka á því.

Ég hef aldrei æft eins mikið, er líklega búinn að bæta á mig tæpum tíu kílóum af massa og er sannfærður um að hafa bætt mig á allan hátt. Ég var búinn að vera æfa og spila með Grindavík í úrvalsdeild og þar er auðvitað hátt getustig en þetta úti var mun hærra, bæði mun meiri hraði og líka mjög líkamlegt. Allar æfingar eins og við værum að spila leik, hart barist og stundum lá við slagsmálum en þetta gerði ekkert nema bæta mig. Ég var alltaf í hóp og fékk einstaka ruslamínútur en yfir höfuð var ég ekki nógu ánægður með hve lítið hlutverk ég var með og eftir spjall við þjálfarann tókum við þá ákvörðun að best væri fyrir mig að skipta um skóla. Ég setti nafnið mitt í svokallaðan „transfer portal“-pott [leikmenn sem vilja skipta yfir í annan skóla, setja nafnið sitt í pott og önnur lið geta haft samband]. Campbell University hafði sýnt mér áhuga síðasta sumar og þeir höfðu strax samband. Ég kíkti á aðstæður hjá þeim og einum öðrum skóla en fann strax að ég ætti heima í Campbell. Þetta er fyrstudeildarskóli en í mun veikari deild en Penn State, ætli þetta sé ekki svipaður styrkleiki og Davidson-háskólinn sem Jón Axel bróðir lék með. Ég hef trú á að ég fái meiri spilatíma þar en auðvitað er ekkert gefins í þeim efnum. Ég þarf að leggja á mig og standa mig, öðruvísi fæ ég ekki mínútur.“

Háskólanám og atvinnumennska

Bragi stefnir á að útskrifast með gráðu en veit nákvæmlega hvert hann stefnir að námi loknu.

„Ég vona að ég muni finna mig vel í Campbell. Námið sem ég var í í vetur gekk vel, ég vildi ekki velja of erfitt svona á fyrsta árinu og var í „Communications“ en er búinn að skrá mig í viðskiptafræði í vetur og ætla mér að stíga upp í náminu sömuleiðis. Stefnan er klárlega sett á að klára háskólaboltann og útskrifast með góða gráðu en að vera í svona háskólanámi er í raun ígildi atvinnumennsku. Það er æft eins og atvinnumaður og skólagjöldin eru það dýr að það má líta á þetta sem atvinnumennsku. Eftir skólann er síðan stefnan sett á „alvöru“ atvinnumennsku, hvort sem það verði í NBA eða Evrópu. Ég er ungur og á helling inni, get bætt mig mjög mikið sem leikmaður og ætla mér að gera það,“ sagði Bragi að lokum.