HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Finnst æðislegt að keppa á mótum
Systkinin Jósef og Berglind, Jósef heldur á Íslandsmeistarabikarnum sem hann vann fyrir boccia í vor. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 23. júní 2024 kl. 06:10

Finnst æðislegt að keppa á mótum

Systkinin Berglind Daníelsdóttir og Jósef Daníelsson eru miklir íþróttakappar og finnst fátt skemmtilegra en að keppa á mótum. Þau eru meðal færustu keppenda landsins í boccia og hafa tekið þátt í fjölmörgum mótum innanlands og utan. Víkurfréttir ræddu við systkinin sem eru bæði í íþróttafélaginu Nes, íþróttafélagi fatlaðra á Suðurnesjum.

Berglind er 39 ára gömul og hún er eiginlega búin að vera í íþróttafélaginu Nes frá því að það var stofnað. „Ég var sjö ára þegar ég byrjaði en Nes var stofnað ári áður en ég byrjaði að æfa.“

Optical Studio
Optical Studio

„Ég byrjaði ekki fyrr en 2004,“ segir bróðir hennar. „Ég byrjaði reyndar að æfa og keppa í körfubolta með Njarðvík þegar ég var í grunnskóla – svo fékk ég engin tækifæri þar og þá færði ég mig yfir í Nes.“

Keppið þið bara í boccia eða stundið þið fleiri greinar?

„Það var sund og frjálsar en það er eins og það sé hætt hjá okkur. Það var líka fótbolti og lyftingar,“ segir Jósef og Berglind bætir við að það vanti þjálfara.

Þannig að það vantar ekki iðkendur heldur þjálfara?

„Það vantar kannski einhverja iðkendur,“ segir Jósef; „en þeim myndi fjölga ef það kæmi þjálfari. Ef það væri góður þjálfari myndu allir mæta.“

Skemmtilegasta mótið

Hængsmótið er haldið árlega á Akureyri og þeim systkinum finnst það skemmtilegasta mótið.

„Hængsmótið er alltaf fyrstu helgina í maí og núna var ákveðið að sameina Hængsmótið og Íslandsmótið,“ segir Jósef en þau kepptu í boccia og gekk báðum vel. og systir hans bætir við: „Við förum alltaf á fimmtudegi og komum heim á sunnudegi,“ segir Berglind. „Mér gekk rosalega vel. Ég náði öðru sæti í einstaklingskeppni Íslandsmótsins, það var alveg súper. Það gekk ekki alveg eins vel í sveitakeppninni en við komumst ekki á pall í henni.“

Hluti þeirra verðlaunagripa sem Berglind hefur unnið í gegnum tíðina.

„Ég keppti líka í bæði einstaklings- og sveitakeppni,“ segir Jósef. „Við unnum riðilinn í sveitakeppninni en duttum strax út í útsláttarkeppninni. Ég keppti líka í einstaklingskeppninni og vann hana.“

Þegar þau fara á Hængsmótið mæta þau alltaf á gistiheimilið á fimmtudegi þar sem mamma þeirra eldar kjúklingasúpu fyrir liðið.

„Svo eru allir bara rólegir um kvöldið eftir það og keppnin byrjar síðan á föstudeginum,“ segir Jósef.

„Þá er keppt allan daginn,“ segir Berglind. „Alveg til átta um kvöldið. Allur dagurinn fer í þetta.“

Keppendur Nes á Hængsmótinu í vor. Mynd/Íþróttafélagið Nes á Facebook

Þið hafið líka verið að keppa á fleiri mótum, er það ekki?

„Jú, á Lionsmótinu og svo verður aftur Íslandsmót í bænum núna í október,“ segir Jósef og systir hans bætir við: „Í rauninni er það afmælismót íþrótta fatlaðra.“

Mótið sem fer fram í haust er Íslandsmót í einliðaleik í boccia og haldið af Íþróttasambandi fatlaðra. Íslandsmótið mun einnig vera afmælismót til að fagna því að fimmtíu ár eru liðin frá því að fyrstu íþróttafélög fatlaðra voru stofnuð á Íslandi, Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og Íþróttafélagið Akur á Akureyri.

Hafa keppt víða

„Árið 2007 fór ég til Kína að keppa í frjálsum á Special Olympics,“ segir Jósef. „Var að keppa í langstökki, háskökki og spretthlaupi. Mér gekk ágætlega þar, var mjög sáttur. Síðan fór ég til LA að keppa í fótbolta, ellefu manna bolta. Við lentum í fimmta eða sjötta sæti þar. Árið 2019 fór ég svo til Abu Dhabi, þannig að ég er búinn að fara þrisvar á Special Olympics.“

Hvaða land var skemmtilegast að heimsækja?

„Ég veit það ekki. Mér fannst rosalega fínt að fara til LA, síðan var Abu Dhabi mjög fínt. Við lentum í öðru sæti þar. Síðan fór ég á Norðurlandamót í Danmörku í fyrra.“

En þú Berglind, hefur þú ekki farið á Norðurlandamót?

„Jú, ég fór til Finnlands og keppti í boccia. Ég lenti í fjórða sæti þar. Svo langar mig gríðarlega að fara á Malmö Open en fyrst þarf ég að vinna Íslandsmeistaratitilinn,“ segir Berglind.

Jósef með kærustunni sinni en þau ætla að ferðast mikið í sumar.

Norðurlandamótið verður haldið á Íslandi á næsta ári og þau stefna bæði á að taka þátt í því. Kannski munu systkinin ná að keppa þá saman á stórmóti en framundan hjá þeim Berglindi og Jósef er nóg að gera. Þau eru bæði á leiðinni í sumarfríi og Berglind er að fara í tveggja vikna sumarbúðir á Laugarvatni en Jósef ætlar að ferðast innanlands með kærustunni sinni. Kærustuparið er svo á leiðinni til Austurríkis í ágúst og ætla að ferðast þaðan til Króatíu, Svartfjallalands, Bosníu og Slóveníu.

Eftir sumarið byrja þau að undirbúa sig fyrir næstu mót og verður gaman að fylgjast með árangri þeirra í framtíðinni.