Góður árangur á Norðurlandamótinu í sundi
Denas Kazulis, Eva Margrét Falsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB voru við keppni með landsliði Íslands á Norðurlandamótinu í sundi í Vejle í Danmörku. Mótið hófst á sunnudag og því lauk í gær, þriðjudag.
Keppni hófst á sunnudag og þá vann Eva Margrét Falsdóttir til silfurverðlauna í fjórsundi, hún varð einnig fimmta í 200 metra bringusundi og bætti tíma sinn um rétt rúma sekúndu þegar hún synti á 2:30,09. Eva Margrét keppti í fullorðinsflokki. Þá varð Denas Kazulis áttundi í 100 metra skriðsundi á tímanum 51,46 sem er bæting hjá honum.
Kvennasveitin í 4x100 metra fjórsundi synti á tímanum 4:13,15 og hafnaði í fjórða sæti. Sveitina skipuðu Eva Margrét Falsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Nadja Djurovic og Ylfa Lind Kristmannsdóttir.
Karlasveitin í 4x100 metra fjórsundi varð í í fimmta sæti á tímanum 3:41,19. Sveitina skipuðu Fannar Snævar Hauksson, Bergur Fáfnir Bjarnason, Aron Bjarki Pétursson og Ýmir Chatenay Sölvason.
Kvennasveitin í 4x200 metra skriðsundi sér lítið fyrir og tryggði sér silfurverðlaun í greininni á tímanum 8:15,42 og bætti landsmetið í greininni. Sveitina skipuðu Eva Margrét, Sólveig Freyja Hákonardóttir, Nadja Djurovic og Freyja Birkisdóttir.
Á lokadeginum varð Fannar í sjötta sæti í 50 metra flugsundi, Eydís Ósk lenti einnig í sjötta sæti í 100 metra skriðsundi og Eva Margrét hafnaði í fjórða sæti 200 metra fjórsundi, öll kepptu þau í fullorðinsflokki og voru alveg við sinn besta tíma.
Kvennasveitin endaði í fimmta sæti í 4x100 metra skriðsundi á tímanum 3:50,73. Sveitina skipuðu Eva Margrét, Eydís Ósk, Freyja Birkisdóttir og Nadja Djurovic.
Karlasveitin synti 4x100 metra skriðsund á tímanum 3:22,80 og hafnaði í sjöunda sæti. Sveitin var skipuð Fannari Snævari, Denas, Ými Chatenay Sölvasyni og Veigari Hrafni Sigþórssyni.
Í 8x50 metra skriðsundi blandaðra sveita varð íslenska sveitin í fimmta sæti á tímanum 3:19,66. Sveitina skipuðu Fannar Snævar, Denas, Eydís Ósk, Ýmir Chatenay, Magnús Víðir Jónsson, Nadja Djurovic, Freyja Birkisdóttir og Ylfa Lind Kristmannsdóttir.
Árangur íslenska liðsins á Norðurlandameistaramótinu í ár var virkilega góður og vann liðið til tíu verðlauna, sem er þremur fleiri verðlaun en í fyrra þegar Ísland vann til sjö verðlauna. Í ár vann Ísland til fjögurra silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Flottur árangur og mikið var um fínar bætingar hjá keppendum.