Keflavík lagði Aþenu en Njarðvík tapaði fyrir norðan
Keflavík vann sigur á nýliðum Aþenu í Bónusdeild kvenna í körfuknattleik þegar liðin áttust við í Blue-höllinni í gær. Á sama tíma tapaði Njarðvík stórt fyrir Þór á Akureyri en miklu munaði um fjarveru Emilie Hesseldal sem er meidd.
Keflavík og Njarðvík eru einum sigri á eftir toppliði Hauka en Grindavík, sem á leik gegn Stjörnunni í kvöld, þarf að fara að girða sig í brók eftir slakt gengi í upphafi móts en Grindavík er í næstneðsta sæti deildarinnar ásamt þremur öðrum liðum (Hamar/Þór, Stjörnunni og Aþenu).
Keflavík - Aþena 74:59
(19:17, 20:22, 18:10, 17:10)
Eftir jafnan fyrri hálfleik náðu heimakonur tólf stiga forystu í þriðja leikhluta (53:41) og virtust vera að innsigla sigurinn.
Nýliðar Aþenu gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í tvö stig snemma í fjórða leikhluta (57:55) en þá skildu leiðir endanlega og Íslandsmeistarar Keflavíkur gengu frá leiknum sem lauk með fimmtán stiga sigri Keflvíkinga.
Jasmine Dickey leiddi lið Keflavíkur en hún var með 29 stig, tólf fráköst, fjórar stoðsendingar og 33 framlagspunkta, Thelma Dís Ágústsdóttir skilaði átján stigum í hús, tók tíu fráköst, átti fjórar stoðsendingar og var með 27 framlagspunkta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leik Keflavíkur og Aþenu og má sjá fleiri myndir í myndasafni neðst á síðunni.
Þór Akureyri - Njarðvík 106:85
(33:22, 29:24, 25:21, 19:18)
Leikurinn varð aldrei spennandi þrátt fyrir frábæra frammistöðu Brittany Dinkins sem setti niður 41 stig og skilaði 42 framlagspunktum fyrir Njarðvík. Bo Guttormsdóttir-Frost komst henni næst með þrettán stig og fimmtán framlagspunkta.