Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hraustasta kona landsins er meðal þeirra bestu í Crossfit-heiminum
Laugardagur 28. júní 2014 kl. 17:00

Hraustasta kona landsins er meðal þeirra bestu í Crossfit-heiminum

Ragnheiður Sara í ítarlegu viðtali

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er 21 árs Njarðvíkingur. Hún hefur alltaf verið frekar sterk að eigin sögn en aldrei fundið sig í neinum íþróttum. Hún slysaðist inn í Crossfit fyrir ekki svo löngu og hefur ekki litið um öxl síðan. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði sterkt alþjóðlegt mót í París um síðustu helgi. Hún stefnir að því að skáka Crossfit-drottningunni Annie Mist en eins heillar atvinnumennskan hana á erlendri grundu. Hún er ríkjandi Hraustasta kona Íslands og landsliðskona í ólympískum lyftingum.

Ætlar að ná Annie Mist

Sara byrjaði að mæta í ræktina fyrir u.þ.b. fimm árum en hún fór ekki að stunda Crossfit fyrr en í september árið 2012. Margar æfingarnar eru ansi krefjandi en Sara segir að Crossfit snúist mjög mikið um tækni og í raun geti hver sem er framkvæmt Crossfitæfingar. „Þú þarft að vinna þig hægt og rólega upp í íþróttinni til þess að ná langt.“ Sara stefnir sjálf á toppinn í Crossfit en þar er Annie Mist Þórisdóttir ríkjandi drottning. „Auðvitað ætla ég að ná henni. Stefnan er sett á heimsleikana á næsta ári. Markmiðin verða svo hærri eftir það,“ segir Sara kokhraust en aðeins þeir þrír bestu frá Evrópu komast á heimsleikana hverju sinni. Eins og staðan er núna er Sara nærri því að vinna sér sæti á heimsleikunum en hún segist þurfa að bæta sig í fimleikum. Sér til aðstoðar hefur hún því fengið Evrópumeistarann og Keflvíkinginn Heiðrúnu Rós til þess að þjálfa sig. „Ég hef trú á því að hún bjargi mér,“ segir Sara og hlær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sara rekur Crossfit Suðurnes ásamt Andra Þór Guðjónssyni kærasta sínum. Þau hafa komið sér vel fyrir í Sporthúsinu á Ásbrú og æfa þar af krafti ásamt fjölda fólks. Leiðin inn í Crossfit var þyrnum stráð Sara hún vissi ekki af íþróttinni fyrr en hún slysaðist til þátttöku. Á sínum yngri árum stundaði hún sund en þar fann hún sig ekki. Hún þreifaði fyrir sér í öðrum íþróttum en fótaði sig hvergi. Sara tók þátt á Boot camp námskeiði þegar hún var 17 ára og var hæstánægð með að ná fimm armbeygjum á tánum. „Mér fannst ég vera svakalega sterk, eina stelpan sem náði armbeygjum á tánum“ segir Sara og hlær dátt. „Mér fannst leiðinlegt í sundi þegar ég var yngri og fann alltaf afsakanir til þess að mæta ekki á æfingar. Ég hef alltaf verið mjög sterk en aldrei fundið mig í neinu áður,“ segir Sara sem þó fann sig vel í íþróttum í leikfimi en þar var hún yfirleitt sterkari en aðrar stelpur.

Í landsliðinu í ólympískum lyftingum

Nýlega byrjaði Sara að stunda ólympískar lyftingar og hafnaði hún í 3. sæti á Norðurlandamótinu á dögunum. Hún komst í landsliðið í þeirri grein eftir að hafa keppt á aðeins einu móti. Hún hélt svo til Kýpur skömmu síðar og hafnaði í 2. sæti á sterku Crossfitmóti. Síðustu helgi gerði hún sér lítið fyrir og sigraði alþjóðlegt mót í Frakklandi þar sem margt öflugasta Crossfitfólk í Evrópu mætti til leiks. „Ég er alltaf að bæta mig. Nú er það bara að halda fyrsta sætinu.“ Einnig ber Sara titilinn Hraustasta kona Íslands, en hún sigraði stigakeppni Þrekmótaraðarinnar árið 2013. Blaðamaður spyr hvor hún telji sig standa undir því nafni „Já ég er líklega ein af þeim,“ segir hún með trega. „Ég stefni að því að sigra þessa keppni aftur, vonandi gengur það.“

Keppnisskapið kom fram í Crossfit

„Ég er mjög mikil keppnismanneskja,“ segir Sara og hlær. Hún vissi hreinlega ekki af keppnisskapinu áður en hún fór að stunda Crossfit.  „Það hjálpar vissulega til þess að ná árangri en stundum verður kappið of mikið.“ Það á sérstaklega við þegar hún og kærastinn æfa saman. „Þá missi ég mig stundum,“ segir Sara en hún þvertekur fyrir það að kærastinn eigi roð í hana. Sara segist æfa tvisvar á dag og auk þess er hún að þjálfa Crossfit. Hún æfir ekki eins stíft um helgar en hvíldin er mikilvæg í hennar augum. Andlegt ástand er einnig mikilvægt í þessari íþrótt. „Eftir því sem reynslan verður meiri þá verður auðveldara að yfirstíga stressið. Einnig er mikilvægt að borða vel fyrir keppni, mataræðið er gífurlega mikilvægt,“ en Sara segir félagsskapinn vera mikinn styrk, enda styðji félagar hennar vel við bakið á henni.

Finnur jafnan happapening á flugvöllum

Sara hefur lent ítrekað í því að finna smámynt á flugvellinum þegar hún fer erlendis að keppa. „Þetta er frekar ótrúlegt en ég trúi ekki mikið á svona hjátrú, enda fann ég í fyrsta skipti ekki pening þegar ég fór til Frakklands, og þá vann ég,“ segir hún og hlær. Sara fór ekki með miklar væntingar til Frakklands en hún hafði það markmið að komast á verðlaunapall. „Ég ákvað bara að gefa allt í botn þrátt fyrir að aðrar stelpur þarna væru hugsanlega betri en ég.“ Allt virtist ganga upp á mótinu og Sara fagnaði sigri eins og áður segir.

Stefnir í atvinnumennsku

Crossfitheimurinn er stór á heimsvísu og íþróttin er ört vaxandi. Nú er svo komið að Íslendingar eru að koma sér á kortið sem atvinnumenn í Crossfit, en þangað stefnir Sara. Hún er þegar komin á samning hjá stórum fæðubótaefnaframleiðanda sem sér um að styrkja hana í keppnum erlendis. Íslensku stelpurnar vekja jafnan athygli á erlendri grundu og keppa oftast sín á milli um sigra á alþjóðlegum mótum. Þrjár þeirra eru þegar komnar í atvinnumennskuna, en ein þeirra er sú sem hafnaði í öðru sæti á eftir Söru í Frakklandi á dögunum. „Það er stefnan á næsta ári að komast í atvinnumennskuna, það er bara þannig.“ Það er óneitanlega sérstakt að konurnar frá litla Íslandi séu í heimsklassa í Crossfit. „Þeir segja að það sé eitthvað í vatninu á Íslandi. Þetta er alveg magnað en vinsældirnar hafa aukist gríðarlega eftir að Annie Mist sigraði á Heimsleikunum,“ segir Sara að lokum.