Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Reynir á botninum í annarri deild – Árbær vann og hafði sætaskipti við Víði
Vörn Kormáks/Hvatar kom í veg fyrir allar tilraunir Reynismanna á föstudaginn. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 22. júlí 2024 kl. 10:38

Reynir á botninum í annarri deild – Árbær vann og hafði sætaskipti við Víði

Suðurnesjaliðunum gekk illa í annarri og þriðju deild karla í knattspyrnu um helgina en þau töpuðu öll sínum leikjum.

Reynismenn sitja nú einir í neðsta sæti annarrar deildar en Þróttur er í því fimmta. Í þriðju deild féll Víðir niður í þriðja sæti eftir tap gegn Ábæ sem fór upp í annað sæti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reynir - Kormákur/Hvöt 0:1

Reynismenn töpuðu fyrir Kormáki/Hvöt þegar liðin mættust á Bronsvellinum í Sandgerði á föstudaginn.

Eina mark leiksins kom á 68. mínútu þegar gestirnir sóttu og náðu skoti sem virtist hættulaust en það breytti um stefnu af varnarmanni og hafnaði í markinu.

Þrátt fyrir ágætis sóknartilburði á köflum náði Reynir ekki að klára sínar sóknir og þetta urðu lokatölur.

Reynismenn eru nú einir í neðsta sæti með átta stig en KF og Kormákur/Hvöt eru. með ellefu stig hvort.

Reynisliðið hefur á að skipa ágætis mannskap en lærisveinar Ray Anthoni Jónssonar virðast ekki ná að stilla saman strengi sína.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Bronsvellinum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.


Höttur/Huginn - Þróttur 4:1

Þróttarar hafa ekki fagnað mikið að undanförnu. Mynd úr leik Þróttar og Völsungs sem Þróttur vann 5:0, síðan hafa tveir tapleikir fylgt í kjölfarið/Helgi Þór Gunnarsson

Þróttur tapaði öðrum leiknum í röð þegar þeir héldu til Egilsstaða í gær.

Höttur/Huginn skoraði tvívegis í fyrri hálfleik (9' og 26') og bættu því þriðja við snemma í þeim seinni (56').

Skömmu fyrir leikslok skoruðu heimamenn enn og aftur en nú í sitt eigið mark og minnkuðu muninn í 3:1 (86').

Síðasta mark heimamanna kom svo í uppbótartíma (90'+3).

Þróttarar voru komnir í fjórða sæti en eftir tvo tapleiki í röð falla þeir niður í það fimmta.


Víðir - Árbær 1:2

Hörkuskot Víðismanna sem hafnaði í innanverðri stönginni. VF/JPK

Það blés byrlega á annað markið á Nesfiskvellinum í gær þegar liðin í öðru og þriðja sæti þriðju deildar áttust við.

Ábæingar léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik, þeir skoruðu á sjöttu mínútu og leiddu með einu marki gegn engu í hálfleik.

Víðismenn hófu seinni hálfleik af krafti og voru óhræddir við að nýta meðbyrinn og skjóta á markið. Heimamenn voru tvívegis mjög nálægt því að skora í upphafi hálfleiksins en annað skotið fór naumlega yfir og það seinna hafnaði í innanverðri stönginn og munaði hársbreidd að skotið færi inn.

Markús Máni Jónsson jafnaði leikinn á 56. mínútu en gestirnir skoruðu sigurmarkið á þeirri 79. og unnu með því mikilvægan sigur í toppbaráttunni.


Meðfylgjandi myndir tók Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta.

Reynir - Kormákur/Hvöt (0:1) | 2. deild karla 19. júlí 2024