Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sara Hrund leggur skóna á hilluna
Sunnudagur 24. september 2017 kl. 06:00

Sara Hrund leggur skóna á hilluna

-„Næst á dagskrá er að vera þolinmóð og stunda endurhæfingu,“ segir Sara Hrund Helgadóttir eftir sitt sjötta höfuðhögg

Sara Hrund leikmaður Grindavíkur í Pepsi-deild kvenna hlaut sitt sjötta höfuðhögg á átta árum í leik liðsins gegn ÍBV í Vestmannaeyjum þann 17. ágúst síðastliðinn. Líf Söru hefur meira og minna snúist um fótbolta undanfarin tuttugu ár og hefur hún spilað yfir hundrað leiki með Grindavík. Sara hefur ekkert látið stoppa sig í gegnum árin þrátt fyrir meiðsli og spilaði meðal annars knattspyrnu í Bandaríkjunum þar sem hún stundaði nám með fótboltanum og lét þar með draum sinn rætast. Hún spilaði einnig með unglingalandsliðum Íslands og hefur gengt fyrirliðastöðu innan vallarins. Í dag eru strembnir mánuðir framundan í endurhæfingu og leggur Sara því takkaskóna tímabundið á hilluna. Hún vonar að hún verði öðrum víti til varnaðar og að fleiri fari að líta höfuðhögg alvarlegri augum. Við ræddum við Söru Hrund um hvaða áhrif höfuðhöggin undanfarin ár hafa á hana í dag.

Hvernig hefur þú það í dag?
„Ég er að kljást við mörg einkenni af  „Post-concussion syndrome” eða „eftir heilahristings heilkenni” og hefur mitt daglega líf raskast töluvert. Það einkennist af slæmum höfuðverkjum og miklum svima. Ég er byrjuð í endurhæfingu og er spennt að takast á við það að koma heilsunni aftur í rétt horf. Það er erfitt fyrir mig að vera róleg og gera lítið en það þýðir ekkert annað en að taka slaka á og jafna sig að fullu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þú settir inn nokkrar línur á Facebook þar sem þú lýstir stöðunni hjá þér núna, hvernig hafa viðbrögðin við því verið?
„Ég bjóst ekki við miklum viðbrögðum. Ég vildi láta vini mína og fólkið í kringum mig vita hvað ég væri að kljást við og að ég þyrfti að stíga til hliðar í fótboltanum. Því voru þær viðtökur sem ég fékk ótrúlegar og komu mér í opna skjöldu. Ég fékk margar hlýjar kveðjur sem var gaman að fá þegar þegar maður stendur í erfiðleikum sem þessum.“

Finnur þú fyrir miklum stuðning almennt eftir atvikið?
„Ég er einstaklega heppin með fólkið í kringum mig og hafa þau sýnt mér mikinn stuðning eftir atvikið. Ég er ekki að byrja að glíma við þetta núna því árið 2009 lenti ég í fyrsta alvarlega höfuðhögginu tengdu fótboltanum. Fjölskyldan mín og kærasti hafa alltaf verið mér innan handar og verið ótrúlega skilningsrík, það hefur hjálpað mér verulega.“

Er mikilvægt að umræðan um höfuðhögg og heilahristinga opnist betur?
„Það er svo sannarlega mikilvægt og umræðan hefur því miður hefur verið lítil hér á Íslandi. Ég spilaði knattspyrnu í Bandaríkjunum og fékk eitt höfuðhögg. Viðbrögðin þar voru mun betri en viðbrögðin sem ég fékk hér á Íslandi. Ég trúi því að verkferlar í kjölfar höfuðhögga eigi eftir að lagast og að við bregðumst betur við þeim og sýnum meiri skilning. Eins og ég nefndi í færslunni minni á Facebook er auðvelt að bregðast við sýnilegum meiðslum líkt og beinbrotum eða krossbandsslitum og fólk sem lendir í því fær mikinn skilning. Höfuðhögg eru ekki sýnileg en mjög hættuleg og afleiðingarnar geta verið slæmar ef ekki er brugðist rétt við. Því eru viðbrögð vegna höfuðhögga mikilvæg og ég get ekki ítrekað það nóg að þeir sem standa að íþróttaliðum kynni sér einkenni og rétt viðbrögð.“

Viltu spá í spilin fyrir síðustu leiki Grindavíkur?
„Ég hef fulla trú á að stelpurnar haldi áfram að spila vel og safna stigum á lokasprettinum og eftir jafnteflið við FH tryggði Grindavík sér veru í Pepsi-deild kvenna að ári sem er frábært afrek fyrir nýliða í þessari sterku deild. Við erum með gott lið og gaman að sjá ungu stelpurnar stíga upp og standa sig frábærlega eftir að meiðsli hafa herjað á mannskapinn.“

Hvað er svo næst á dagkrá hjá þér?
„Það er að læra að vera þolinmóð og stunda endurhæfingu til að ná krafti til og ná mér. En eins og sagt er, þegar einar dyr lokast opnast aðrar og ætla ég að lifa eftir því á næstunni.“