Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vafasamur vítaspyrnudómur í Njarðvík – Sannfærandi sigur hjá Keflavík
Vítaspyrna Þróttar var örugg og Aron Snær kom engum vörnum við. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. júlí 2024 kl. 23:03

Vafasamur vítaspyrnudómur í Njarðvík – Sannfærandi sigur hjá Keflavík

Keflvíkingar unnu góðan útisigur á Aftureldingu í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld með þremur mörkum gegn einu. Njarðvíkingar misstu niður eins marks forystu gegn Þrótti Reykjavík eftir vafasaman vítaspyrnudóm skömmu fyrir leikslok og Grindvíkingar töpuðu fyrir Gróttu.

Afturelding - Keflavík 1:3

Edon Osmani skoraði fyrsta mark Keflvíkinga.

Keflavík hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik og Edon Osmani kom þeim yfir með góðu skoti eftir hornspyrnu (14').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mihael Mladen tvöfaldaði forystuna í sínum fyrsta leik með Keflavík þegar hann skoraði umkringdur varnarmönnum. Smá heppnisstimpill yfir markinu en skotið breytti um stefnu af varnarmanni og fór yfir markvörð Aftureldingar (35').

Keflvíkingar leiddu því með tveimur mörkum í hálfleik en heimamenn mættu ákveðnari til leiks í þeim síðari og gerðu harða hríð að marki Keflavíkur. Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflvíkinga, stóð sína vakt og varði nokkrum sinnum vel, þá fóru nokkur færi heimamanna naumlega framhjá markinu.

Afturelding fann ekki netið fyrr en á 83. mínútu en þá skoruðu þeir eftir einhvern reitabolta í teig Keflavíkur.

Eftir að hafa minnkað muninn settu heimamenn enn meira púður í sóknarleikinn en sú taktík átti eftir að springa í andlitið á þeim því Valur Þór Hákonarson gulltryggði sigur Keflvíkinga með marki í uppbótartíma.

Valur Þór fagnar hér marki sem hann skoraði gegn Aftureldingu í fyrri leik liðanna.

Mörk Keflavíkur: Edon Osmani (14'), Mihael Mladen (35') og Valur Þór Hákonarson (93').
Mark Aftureldingar: Georg Bjarnason (83').


Njarðvík - Þróttur R. 1:1

Bæði lið lögðu megináherslu á varnarleikinn og gáfu fá færi á sér. Njarðvíkingar voru þó ívið beittari fram á við og fengu nokkur hálffæri en allt var markalaust í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svipaður, eitthvað um hálffæri eða efnilegar sóknir sem ekkert varð úr á endanum – ekki fyrr en á 64. mínútu þegar Hreggviður Hermannsson sótti upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið. Þróttarar náðu að skalla boltann úr teignum en fyrir fæturna á Kai Leo  Bartalstovu sem tók skotið og skrúfaði boltann snyrtilega markið (64').

Kai Leo stýrir boltanum laglega yfir varnarmenn Þróttar.

Áfram héldu Njarðvíkingar sama leik, að byggja upp efnilegar sóknir án þess að ná að klára þær.

Við það að lenda undir settu gestirnir meiri ákeft í sinn sóknarleik og pressuðu Njarðvíkinga aftar á völlinn.

Um tíu mínútum fyrir leikslok urðu dómara leiksins á afdrifarík mistök þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Ibrahima Kalil Camara Diakite þegar hann hafði betur í baráttu við Vilhjálm Kaldal Sigurðsson um boltann.

Ibra var meira en lítið hissa þegar vítið var dæmt.

Þróttur jafnaði úr vítinu (81') en eftir þennan dóm færðist hiti í leikmenn og þjálfara – reyndar varð Gunnari Heiðari Þorvaldssyni, þjálfara Njarðvíkur, svo heitt í hamsi að honum var sýnt rauða spjaldið.

Njarðvíkingar hefðu getað farið verr út úr þessum leik því á lokasekúndum uppbótartíma hefði Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins, hæglega getað dæmt aðra vítaspyrnu á heimamenn en hann lét það ógert og flautaði í kjölfarið til leiksloka.

Heimamenn skiljanlega mjög ósáttir við úrslitin en þurfa engu að síður að una þeim.

Vonbrigði Njarðvíkinga voru mikil eftir að hafa einungis náð jafntefli í kvöld.

Mark Njarðvíkur: Kaj Leo Í Bartalstovu (64').
Mark Þróttar: Kári Kristjánsson (82' víti).

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var með myndavélina á lofti á Rafholtsvellinum í kvöld og eru fleiri myndir í myndasafni neðst á síðunni. Jóhann ræddi við Sigurjón Má Markússon, varnarmann Njarðvíkinga, eftir leik. Viðtalið er í spilara neðst á síðunni.


Grótta - Grindavík 3:1

Aron Dagur Birnuson gerði vel þegar hann varði víti í stöðunni 1:1 en Pétur Theódór Árnason náði frákastinu og kom Gróttu yfir.

Heimamenn í Gróttu komust yfir á fjórtándu mínútu og leiddu 1:0 í hálfleik.

Grindvíkingar jöfnuðu leikinn snemma í seinni hálfleik. Markið skoraði Josip Krznaric með góðu skoti eftir hornspyrnu (52').

Það var jafnræði með liðunum nánast út hálfleikinn, allt þar til Matevz Turkus braut á heimamanni inn í teignum sjö mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Turkus fékk að líta rautt og vítaspyrna dæmd.

Pétur Theódór Árnason steig á vítapunktinn en Aron Dagur sá við honum og varði vítið, hann hélt hins vegar ekki boltanum og Pétur fylgdi vel á eftir og skoraði (84').

Manni fleiri innsigluðu Gróttumenn svo sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma (90'+8).

Mark Grindavíkur: Josip Krznaric (52').
Mörk Gróttu: Kristófer Orri Pétursson (19'), Pétur Theódór Árnason (84') og Gabríel Hrannar Eyjólfsson(90'+8).


Viðtal við Sigurjón Má Markússon, leikmann Njarðvíkur, sem var tekið eftir leik Njarðvíkur og Þróttar.

Njarðvík - Þróttur (1:1) | Lengjudeild karla 25. júlí 2024