Af nógu að taka á Safnahelgi
Suðurnesjafólk var duglegt að sækja söfn og viðburði á Safnahelgi á Suðurnesjum sem fram fór nýliðna helgi. Viðburðir voru í öllum fjórum sveitarfélögunum á Suðurnesjum í tilefni hátíðarinnar og frítt var á öll söfn sem tóku þátt.
Margir notuðu síðasta sunnudag til að leggja leið sína til Grindavíkur, sem hefur verið opnuð upp á gátt. Ljósmyndasýningin Reykjanes vaknar var á bílastæðinu við Festi. Sigurður Ólafur Sigurðsson, ljósmyndari, hefur tekið mikið magn mynda í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga á síðustu árum og úrval þeirra mynda hefur ratað á stór útiskilti sem sjá mátti í Grindavík. Fólk notaði einnig tækifærið til að heimsækja þá veitingastaði sem eru opnir í bænum og skoða ummerki eftir náttúruhamfarir og viðbrögðin við þeim.
Safnahelginni var formlega ýtt úr vör við Reykjanesvita snemma í síðustu viku og það má svo segja að Halla Karen Guðjónsdóttir hafi byrjað dagskrá safnahelgarinnar á Bókasafninu í Reykjanesbæ með yngsta fólkinu, þar sem hún las sögur úr Latabæ. Á bókasafninu var einnig sýningin Mamma, ég vil ekki stríð! þar sem sýndar voru teikningar unnar af börnum sem hafa upplifað stríð á eigin skinni.
Á Bókasafni Suðurnesjabæjar í Sandgerði var önnur myndasýning. Sú var úr myndasafni Víkurfrétta og spannar rúmlega fyrsta áratug Víkurfrétta. Þar sátu yfir 40 manns í góðar tvær klukkustundir og ræddu þær myndir sem voru sýndar á sýningartjaldi.
Í Duus safnahúsum var ýmislegt við að vera. Þar eru nokkrar sýningar en auk þeirra voru fjölskyldusmiðja, tónleikar og slökun.
Byggðasafnið á Garðskaga fékk fjölmarga í heimsókn yfir helgina. Þar er margt að sjá og gestafjöldinn á árinu er kominn yfir 12.000 manns. Vélar úr safni Guðna Ingimundarsonar voru gangsettar og áhugaverðar sýninngar safnsins skoðaðar.
Í Unuhúsi í Garði var boðið upp á vöfflur með rjóma og Fjóla tröllastelpa bauð upp á lummur hjá Skessunni í Hellinum á sunnudaginn. Þá var mikil veðurblíða sem fólk nýtti sér til að fara á milli fjölbreyttra viðburða á Suðurnesjum.
Margir kíktu við á stríðsminjasýningu í Svarta pakkhúsinu. Sömu sögu er að segja úr Bragganum í Garði þar sem Ásgeir Hjálmarsson er með stórt og mikið einkasafn ýmissa muna.
Þurrabúðarlífið í Stekkjarkoti vakti athygli og það gerðu einnig sýningar við Reykjanesvita, þangað sem margir lögðu leið sína.
Sýningin „Ethoríó Galleríó“ inniheldur málverk og teikningar undir áhrifum Pop-listar. Hún var í bíósal Hljómahallar. Merkileg sýning sem vakti m.a. athygli ríkislögreglustjóra sem hafði ástæðu til að ræða eitt myndverkið sérstaklega við listamanninn Ethoríó.
Við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar komið sér fyrir og þar voru bæði fjölskyldusamvera og sagnastund. Tarotspil Norrænna goðasagna voru til umfjöllunar á bókasafninu í Sandgerði á sunnudag og þá var einnig hægt að versla á flóamarkaði á Garðskaga og handverk hjá Duus handverki í Reykjanesbæ, svo stiklað sér á stóru í Safnahelgi á Suðurnesjum, sem gæti verið safnavika á Suðurnesjum því af nógu er að taka þegar kemur að söfnum og sýningum á svæðinu.