Mannlíf

Allt starfsfólkið mun koma að stefnumótun leikskólans
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 29. ágúst 2024 kl. 06:07

Allt starfsfólkið mun koma að stefnumótun leikskólans

Arnbjörg Elsa Hannesdóttir er nýráðinn leikskólastjóri nýs leikskóla í Sandgerði sem heitir Grænaborg.

„Við ætlum að móta stefnu leikskólans á þessu fyrsta skólaári, allt starfsfólkið mun fá að taka þátt í stefnumótuninni,“ segir Arnbjörg Elsa Hannesdóttir, nýráðinn leikskólastjóri nýs leikskóla í Sandgerði sem heitir Grænaborg. Leikskólinn opnaði eftir verslunarmannahelgi en útisvæði er óklárað og er stefnt á að framkvæmdum á því verði lokið á næstu mánuðum.

Elsa eins og hún er jafnan kölluð var á sínum fyrsta degi í vinnunni þegar blaðamann bar að garði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er á mínum fyrsta degi svo fyrstu vikurnar fara í að kynnast starfsfólkinu, börnunum og foreldrum þeirra að sjálfsögðu. Stefnumótunarvinnan er ekki hafin en er í vinnslu, ég hef mínar hugmyndir og mun kynna þær starfsfólkinu en mun að sjálfsögðu hlusta á allar tillögur og á endanum mótum við saman stefnu til framtíðar, sem vonandi allir geta verið ánægðir með. Í leikskólanum sem ég vann í er stuðst við Fjölgreindarkenningu Howards Gard-ners, hún byggir m.a. á að horfa á styrkleika hvers og eins, barn getur verið sterkt í málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind o.s.frv., og er sú kenning notuð til að byggja upp þá styrkleika og veikleika sem barnið hefur. Ég er hrifin af þessari stefnu og hef meðal annars áhuga á að leggja til að það besta úr henni verði notað en auðvitað líka það sem gildir í öllum leikskólastefnum, frjáls leikur, lýðræði og virðing en eins og ég segi, við munum öll koma að stefnumótuninni og efa ég ekki að góð stefna verði til sem muni henta þessum leikskóla vel.

Ég er uppalin í Vogunum, hef búið í Reykjanesbæ í rúm tuttugu ár og á ættir mínar að rekja þangað. Ég vann í leikskólanum Hjallatúni og var aðstoðarleikskólastjóri þar undanfarin níu ár.

Mér líst mjög vel á leikskólann Grænaborg, deildirnar eru sex, tvær í hverri álmu fyrir sig, og þær vinna vel saman, húsnæðið er spennandi, hlýlegt og skemmtilegt. Það er hannað með starfsfólk og börn í huga með góðri hljóðvistun sem er svo nauðsynleg í leikskólastarfi. Það verður auðvitað frábært þegar útisvæðið verður tilbúið en sem betur fer er nærumhverfið mjög hentugt, dásamlegur mói fyrir aftan leikskólann og endalaust eitthvað nýtt sem börnin geta kannað.

Ég er mjög spennt fyrir þessu, gaman að taka við nýjum skóla og fá að móta stefnuna, þetta er frábært tækifæri,“ sagði Elsa lokum.