Fréttir

Populismi eða rökþrot?
Föstudagur 13. september 2024 kl. 06:14

Populismi eða rökþrot?

Þráttað í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um gjaldtöku fyrir grindvísk leikskólabörn

Minnihlutaflokkarnir í bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmæltu hugmyndum meirihlutans um að rukka að fullu fyrir grindvísk leikskólabörn sem voru með skráð lögheimili í Grindavík á tímabilinu janúar til júní 2024.

Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót bókuðu um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þar segir m.a.: „Í bréfi frá bæjarstjóra Grindavíkur er óskað eftir yfirliti yfir þann útlagðan kostnað sem Reykjanesbær hefur orðið fyrir vegna þessara barna. Einnig er nefnt í bréfinu hugmynd um að greiða 70% af viðmiðunarkostnaði en að fullu beinan útlagðan kostnað til dæmis fyrir börn með sérþarfir. Ekki er hægt að sjá að Reykjanesbær hafi tekið sérstaklega saman útlagðan kostnað. Meirihlutinn leggur hins vegar til að rukka Grindavíkurbæ að fullu, það er, 100% samkvæmt gjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga er varðar leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags.“

Meirihluti bæjarstjórnar segir í bókun harma það að uppgjör vegna vistunar grindvískra barna í leikskólum Reykjanesbæjar sé tekið upp sem populísk umræða í bæjarstjórn.

„Við höfum tekið vel á móti okkar nýju íbúum og einstaklega vel hvað varðar móttöku í leik- og grunnskólum enda eru flest grindvísk börn sem búa í Reykjanesbæ og við eigum að fagna því að Grindvíkingar vilji vera áfram á Suðurnesjum og byggja upp þetta svæði með okkur. Reykjanesbær sem þjónustuaðili veittrar þjónustu þykir eðlilegt að greitt sé fyrir leikskólavistun hjá okkar sveitarfélagi en á umræddu tímabili voru flest þeirra rúmlega 30 barna enn með lögheimili í Grindavík. Hér er um að ræða uppgjör milli sveitarfélaga vegna vistunar barna í leikskólum Reykjanesbæjar með lögheimili í Grindavík fyrir tímabilið janúar til og með júní 2024 sem felur í sér kostnað upp á tæpar 40 milljónir. Þess má einnig geta að í uppgjörinu sem hér um ræðir eru undanskildir mánuðirnir nóvember og desember 2023 ásamt hluta janúar 2024. Afsláttur sem með þessu er verið að veita Grindavíkurbæ nemur um 11 milljónum króna.“

Sjálfstæðismenn og Umbót bókuðu aftur og mótmæltu því að tillaga þeirra um að mæta Grindvíkingum samkvæmt þeirra framlögðu hugmynd, sé kölluð populísk umræða og lýsa rökþroti meirihlutans og vísa því til föðurhúsanna.