Max 1
Max 1

Mannlíf

Félagsskapurinn sterkari en ferðalagið og áfangastaðirnir
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 19. október 2024 kl. 11:00

Félagsskapurinn sterkari en ferðalagið og áfangastaðirnir

„Þegar við byrjuðum í þessu stússi skiptu áfangastaðirnir okkur miklu máli. Svo áttuðum við okkur á því að þetta var meira ferðalagið. Nú erum við komin á þá niðurstöðu að þetta sé fyrst og fremst félagsskapurinn og hann er miklu sterkari en ferðalagið eða áfangastaðirnir,“ segir Guðbergur Reynisson, talsmaður Melrakka, félagsskapar innan Akstursíþróttafélags Suðurnesja.

Fjórtán einstaklingar á tíu buggy-bílum og fjórhjólum fóru mikla ævintýraför um Ísland í sumar. Ekið var á fjóra tanga, syðst, nyrst, austast og vestast. Þar sem austasti tangi landsins, Gerpir, er ekki fær ökutækjum varð Dalatangi fyrir valinu.

Fjórir tangar í höfuðáttum

Ferðalagið á tangana fjóra er rétt ríflega 3.000 kílómetrar. Það hófst í Reykjanesbæ 10. júlí og ekið var austur í Reynishverfi við Vík í Mýrdal þar sem gist var í félagsheimilinu Eyrarlandi á dýnum á gólfi. Þaðan var farið á Kötlutanga og stillt upp í mynd á syðsta tanga landsins. Þaðan var lagt í hann inn á hálendið og stefnan tekin í náttstað í Bárðardal.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Nokkur pör úr hópnum komu saman á dögunum til að rifja upp ferðalagið í sumar með blaðamanni Víkurfrétta og ólíkt því sem þekkist á þjóðvegum landsins, þá fagnar hópurinn því ávallt þegar hann kemst af malbikinu og út á mölina. „Það er svo miklu skemmtilegra að aka þessum tækjum eftir mölinni,“ segja þau. Síðasta bensínstopp fyrir hálendið var í Hrauneyjum. Þaðan er brunað yfir Sprengisand, urð og grjót, með stefnu á Bárðardal. Gist var á Bjarnastöðum í Bárðardal, gömlu sveitabýli.

Vegir og vegleysur í ýmis konar ástandi

Úr Bárðardalnum var ekið norður á Rifstanga. Vegir og vegleysur voru í ýmis konar ástandi og í minningunni segja þau veginn frá Kópaskeri að Rifstanga hafa verið hræðilegan. Ferðalagið milli syðsta og nyrsta tanga landsins er um 800 kílómetrar og ferðin rétt að byrja. Frá Rifstanga var stefnan tekin á Möðrudalsöræfi og þaðan á Skjöldólfsstaði þar sem gist var á Hótel Stuðlagili.

Frá Skjöldólfsstöðum var stefnan sett á Egilsstaði í dásamlegu veðri. Þar baðaði hópurinn sig í Spánarblíðu, 23 gráðum, áður en lagt var í ferðina á Dalatanga. Það má segja að gott veður hafi elt hópinn alla ferðina.

Dalatangi tók vel á móti hópnum og staldrað var lengi við í Mjóafirði. Þetta var einn lengsti dagur ferðalagsins í ferðatíma en frá Dalatanga var ferðinni heitið í Drekagil. Þangað var komið um nótt og þar gist í fjallaskála. Í Drekagili þurfti að takast á við havarí eins og sprungið dekk og fleira. „Við sleppum aldrei góðu brasi,“ sagði Garðar Gunnarsson, einn ferðalanganna.

Fjórtán hamborgaratilboð eftir lokun

Úr Dreka, þar sem var brakandi blíða, var stefnan sett á Ódáðahraun og í vestur, alla leið í Áfanga á Kili. Ferðin sóttist seint en leggja þarf lykkju á leiðina í Varmahlíð til að taka eldsneyti. Í kvöldsólinni sóttist ferðalagið seint og hópurinn sá fram á að ná ekki til byggða fyrir lokun veitingastaða. Þá var tekinn upp síminn og hringt í vini á Sauðárkróki. Þar var brugðist hratt við, keypt fjórtán hamborgaratilboð og fullt af nesti fyrir næsta dag. Hópurinn gat því tekið vel til matar síns á bílastæði við bensínstöðina í Varmahlíð. Þaðan var svo farið í náttstað í Áfanga á Kili. Hópurinn var sá fyrsti sem fór frá Drekagili og yfir Ódáðahraun þetta sumarið og var leiðin seinfarin að sögn hópsins.

Varahlutur með flugi inn á hálendið

Frá Áfanga var hugmyndin að fara inn á Stórasand. Þá byrjaði enn eitt vesendið í ferðinni þegar lega fór í bíl Guðbergs og Elsu. Þau voru stödd inni á miðju hálendinu og góð ráð dýr. Það kom hins vegar vel fram í spjalli við hópinn að hann lætur ekki vandamál stoppa sig því það eru alltaf til lausnir. Varahluturinn var fundinn til í Reykjavík og honum komið út á Reykjavíkurflugvöll. Fundinn var flugvöllur við Blöndulón, í næsta nágrenni við það svæði þar sem buggy-bíllinn var bilaður, flugvélin tók á loft frá Reykjavík og varahluturinn sendur á áfangastað. Þau sem ekki tóku þátt í brasinu tóku þessu öll af æðruleysi og nutu slökunar á hálendinu, þrátt fyrir flugur. Það var víst nóg af flugum á hálendinu í sumar.

Nú átti heldur betur að snúa vörn í sókn og stefnan tekin norður í Vatnsdal. Þá fór önnur lega og góð ráð dýr. Seint um kvöld var komið við hjá Skafta bónda á Brúsastöðum sem var í heyskap. Hann setti heyskapinn til hliðar og skaut skjólshúsi yfir viðgerðarteymið hjá landshornaflökkurum. Bíllinn lagfærður. Bóndinn hélt áfram að rúlla upp heyi til kl. 04 um nóttina og ferðalangarnir héldu að Reykjum í Hrútafirði þar sem gist var í Sæbergi.

Stelpurnar í sveitinni kunna þetta

Úr Hrútafirði var lagt í hann á sunnanverða Vestfirði þar sem Barðaströndin var næsti áfangastaður. Þetta var sjöundi dagur ferðalagsins. Þar var gist á Birkimel áður en lagt var upp í síðasta legginn í vestur. Látrabjarg og Bjargtangi var áfangastaðurinn.

Brasi á hópnum var ekki lokið. Púst á einum Buggy-bílnum var brotið og þurfti nauðsynlega að sjóða. Nú var komin sú stund að karlpeningurinn í hópnum þurfti að játa sig sigraðan. Það þurfti einstakling með sérstaka kunnáttu í að sjóða málminn í pústkerfinu. Á bænum Rauðsdal býr Svanhildur Björk en hún er með áralanga reynslu í rafsuðu og hristi þetta verkefni fram úr erminni og skaut strákunum þar ref fyrir rass. Eins og þau sögðu, stelpurnar í sveitinni kunna þetta.

Aftur var gist á Birkimel áður en stefnan var tekin á Baldur yfir Breiðafjörð. Einn bíllinn var bilaður og með einu símtali var opnað verkstæði í Stykkishólmi þar sem allt var til alls til að gera við. Eftir viðgerðarstoppið í Hólminum var stefnan tekin á Húsafell, þar sem gist var í sumarhúsi. Úr Húsafelli var lagt upp í lokaáfangann til Reykjanesbæjar.

Góðar móttökur og mikil hjálpsemi

Hópurinn sem tók þátt í þessu rúmlega 3.000 kílómetra ferðalagi segir það standa upp úr hvað þau fengu góðar móttökur hvar sem þau komu. Fólkið úti á landi hafi verið tilbúið að bjóða fram alla þá aðstoð sem þau hafi þurft og skipti engu á hvaða tíma sólarhringsins það var. Þá voru varahlutir og ný dekk send út á þjóðveginn til móts við ferðahópinn. Þau hafi ekki viljað hafa þjónustu bíl með í för, heldur frekar viljað nálgast aðstoð eftir öðrum leiðum.

Lítill farangur og takmarkað eldsneyti

Undirbúningur fyrir landshornaflakkið tók um eitt og hálft ár frá því hugmyndin kom fyrst upp og þar til hún var framkvæmd. Aðspurð hvernig á að undirbúa svona ferðalag, þá er galdurinn að taka með sér eins lítið af farangri eins og hægt er. Þannig var hver og einn ferðalangur í raun bara með farangur sem myndi rúmast í einni ferðatösku sem mætti fara í farangurshólf flugvélar. Það er ekki pláss fyrir meira. Þá er bara haft með það eldsneyti sem dugar fyrir viðkomandi dagleið eða á milli bensínstöðva.

Sauðanes í Sauðanes

Hópurinn sem tók þátt í þessu landshornaflakki í sumar er með margvíslegan bakgrunn og mismikla reynslu. Þarna eru einstaklingar sem elska bras á meðan önnur snerta ekki á verkfærum. Þá hafa sum langa reynslu af hálendisferðum á meðan önnur hafa meira verið með tjaldvagna og fellihýsi við þjóðveginn.

Þegar blaðamaður spyr hvort landið hafi verið afgreitt með þessu ríflega 3.000 km. ferðalagi þvers og kruss, þá er það ekki raunin. Næsta stóra ferð hefur þegar verið ákveðin. Hún er frá Sauðanesi, austan við Höfn í Hornafirði og að Sauðanesi vestur á fjörðum frá 16. til 23. júlí 2025.

Landshornaflakkarar 2024