SSS
SSS

Fréttir

Gunnar Axel bæjarstjóri í Vogum hefur óskað eftir lausn frá störfum
Í tilefni af starfslokum Gunnars í dag færði hann sveitarfélaginu málverk í kveðjugjöf. Málverkið er eftir ungan Vogabúa, Eldþóru Gísladóttir, sem hélt sína fyrsti málverkasýningu í Vogum árið 2023, þá aðeins 8 ára gömul. Málverkið keypti Gunnar sjálfur og hefur það síðan þá prýtt veggi bæjarskrifstofu sveitarfélagsins síðan. Á myndinni tekur Björn G. Sæbjörnsson við myndinni frá Gunnari. VF/Hilmar Bragi.
Föstudagur 18. október 2024 kl. 17:28

Gunnar Axel bæjarstjóri í Vogum hefur óskað eftir lausn frá störfum

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var í dag var tekið fyrir erindi frá bæjarstjóra þar sem hann óskaði eftir lausn frá störfum sem bæjarstjóri. Í kjölfar fundarins var haldin kveðjuathöfn með bæjarstjórninni þar sem bæjarstjóri færði sveitarfélaginu kveðjugjöf í tilefni af starfslokum sínum.

Undanfarin misseri hefur Gunnar Axel glímt við langtímaafleiðingar Covid-19 og tilheyrir vaxandi hópi fólks sem hefur barist við heilsuleysi í kjölfar heimsfaraldursins. Hann hefur verið í veikindaleyfi að undanförnu en stefndi að því að koma aftur til fullra starfa um síðustu mánaðamót. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Gunnar Axel Axelsson.

 

„Þrátt fyrir að hafa verið í veikindaleyfi undanfarið hef ég eftir fremsta megni reynt að sinna mikilvægum verkefnum fyrir sveitarfélagið og verið til taks á hliðarlínunni ef á hefur þurft að halda. Það hef ég gert ekki síst í þeim tilgangi að reyna að létta undir með samstarfsfólki mínu sem hefur eðli máls samkvæmt tekið á sig auknar byrðar í tímabundinni fjarveru minni. Ég stefndi að því að koma af fullum krafti aftur til starfa með haustinu en það hefur því miður ekki gengið eftir. Ég hef því ákveðið að setja heilsuna í fyrsta sætið og fylgja fyrirmælum lækna sem leggja áherslu á að ætli ég að ná fullum bata á ný verði ég að setja það verkefni í algjöran forgang.

Í ljósi framangreinds var það niðurstaða mín að það væri hvorki mér né sveitarfélaginu í hag að halda áfram á sömu braut, þ.e. að ég væri áfram í veikindaleyfi með allri þeirri óvissu sem því fylgir fyrir alla hlutaðeigandi. Tel ég það mikilvægara fyrir sveitarfélagið, fyrir samstarfsfólk mitt og bæjarbúa að það sé starfandi bæjarstjóri í sveitarfélaginu og að allri óvissu um hvort og þá hvenær ég muni geta snúið aftur til starfa verði eytt. Þess vegna óskaði ég eftir lausn frá störfum.” 

Kafbátameðferðin er að skila sér í bættri heilsu

Fyrir rúmum tveimur vikum hófst nýr kafli í bataferli Gunnars þegar hann hóf háþrýsti-súrefnismeðferð á Landspítalanum. Þó ekki sé hægt að segja strax til um árangurinn af meðferðinni segist Gunnar Axel nú þegar finna fyrir jákvæðum áhrifum af henni. 

„Ég er mjög þakklátur starfsfólki Landspítalans og þá sérstaklega því frábæra teymi sérfræðilækna og annars heilbrigðisstarfsfólks sem hefur umsjón með starfi háþrýstideildarinnar. Þessi meðferð er eitthvað sem ég vissi ekki að væri til og ég hef bæði í gamni og alvöru sagt að ég sé að fara í kafbátinn þegar ég mæti á Landspítalann á morgnana. Meðferðin fer þannig fram að maður er settur í sérstakan háþrýstiklefa í 90 mínútur í senn og andar að sér hreinu súrefni undir þrýstingi sem jafnast á við að vera á 12-14 metra dýpi. Þessi meðferð hefur hjálpað mjög mörgum og ég er strax byrjaður að finna fyrir auknum styrk og bættri líðan. Ég reikna með að vera áfram í þessari „kafbátameðferð” næstu vikur en samhliða henni er ég bara að einbeita mér almennt að heilsunni og stefni auðvitað á að ná fyrri styrk,“ segir Gunnar Axel.  

Segist hann vongóður um framhaldið og þrátt fyrir allt er hann fullur bjartsýni á framtíðina og þó hann taki sér nú hlé frá störfum þá sé hann alls ekki að leggja skóna á hilluna.


Dreymir um að geta byrjað aftur að stunda kajakróður og skíðamennsku af kappi

„Ég lýsti því yfir á sínum tíma að þegar ég yrði fimmtugur ætlaði ég að verða í besta formi lífs míns. Í ljósi þess hve stutt er í þau tímamót er ekki víst að það markmið náist. En ég hef alls ekki gefið neitt upp á bátinn í þeim efnum og stefni ótrauður á að ná fullri heilsu og koma mér aftur í gott líkamlegt form. Draumur minn er að geta byrjað að stunda sjókajakróður og skíðamennsku aftur af fullum krafti og að því stefni ég að sjálfsögðu enn.  Eftir næstum tveggja ára pásu frá reglulegri hreyfingu þarf ég hinsvegar að fara varlega af stað. Fyrir mér er það sennilega stærsta áskorunin. Að ganga hægt og rólega er nefnilega ekki alveg minn karakter og um leið og ég finn einhver batamerki þá langar mig strax út að hlaupa eða klífa næsta fjall. Að samstilla hug og líkama hefur því reynst mér ansi flókið verkefni og ég veit að það á við um mjög marga sem eru að glíma við langtímaáhrif af Covid. En það er bara verkefnið mitt núna og ég ætla að sinna því af heilum hug svo ég geti verið til staðar fyrir fólkið mitt sem hefur alltaf staðið þétt við bakið á mér og ég á allt að þakka,“ segir Gunnar Axel.

Ber ávallt hlýjan hug til samfélagsins í Vogum

„Þó svo að ég stígi nú til hliðar mun ég alltaf hugsa hlýlega til samfélagsins í Vogum og óska samstarfsfólki mínu og íbúum alls hins besta í framtíðinni. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka kjörnum fulltrúum fyrir einstaklega gott og ánægjulegt samstarf. Í bæjarstjórn Voga er mjög samstilltur og góður hópur sem hefur unnið vel saman þvert á flokka og þó svo að auðvitað séu flokkarnir með mismunandi áherslur hefur myndast þar góð og breið samstaða milli meirihluta og minnihluta um að vinna saman að meginhagsmunamálum sveitarfélagsins. Það er eitthvað sem er alls ekki sjálfgefið í pólitík en bæjarfulltrúar í Vogum hafa sýnt og sannað að slíkt er hægt ef allir leggja sig fram um að vinna vel saman og einblína á það sem skiptir mestu máli fyrir sveitarfélagið og íbúa þess. Fyrir það samstarf er ég mjög þakklátur og kveð ég bæjarstjórnina fullur þakklætis og vona að sú jákvæða menning sem þar ríkir eigi sér langa framtíð.”

Vonar að íbúarnir fái tækifæri til að segja hug sig varðandi sameiningu

Gunnar vill á þessum tímamótum einnig þakka fyrir einstaklega gott samstarf við nágrannasveitarfélögin og ánægjuleg kynni á þeim vettvangi. Hann hefur átt mjög gott og náið samstarf við aðra bæjarstjóra á svæðinu og auðvitað fjölda annarra einstaklinga sem koma að rekstri samstarfsverkefnanna. Sameining sveitarfélaganna á Suðurnesjum er honum ofarlega í huga. 

„Sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga í mjög nánu og góðu samstarfi á mörgum sviðum og það gengur almennt mjög vel. Þrátt fyrir þær fordæmalausu áskoranir sem samfélögin á Suðurnesjum hafa staðið frammi fyrir síðustu misseri og ekki sér enn fyrir endan á er samt mikið af jákvæðum hlutum að gerast á svæðinu og hér liggja klárlega mikil tækifæri til framtíðar.

Ég vona að sameiningarverkefnið sem við settum af stað og ég hef gegnt formennsku í síðustu misseri verði klárað og íbúar á Suðurnesjum fái tækifæri til að taka upplýsta og lýðræðislega ákvörðun um framhaldið í íbúakosningu. Það er þeirra réttur og hver sem niðurstaðan verður þá er það alltaf hina rétta niðurstaða, enda eru það alltaf íbúarnir sem eiga síðasta orðið í slíkri ákvarðanatöku og þeirra niðurstaða er sú sem gildir. 

Persónulega er ég ekki í nokkrum vafa um að sameining þessara sveitarfélaga er hið eina rétta og það sé bara tímaspursmál hvenær af henni verður. Markmiðið með sameiningu er að styrkja svæðið í heild, mynda öflugri einingu, auka hagræði i rekstri, draga úr álögum á íbúana og bæta þjónustu við þá. Það er því til mikils að vinna með sameiningu og vonandi ber stórsamfélaginu á Suðurnesjum gæfa til að ljúka við það verkefni á farsælan hátt, íbúum svæðisins öllum til heilla.“

Óvíst hvað tekur við

Aðspurður segist Gunnar Axel ekki vita hvað tekur við hjá honum en eins og er þá ætlar hann að gefa heilsunni og fjölskyldu sinni algjöran forgang. „Ég hef starfað á sviði sveitarstjórnarmála um langt árabil og bý að talsverði reynslu og þekkingu á sviði efnahagsmála og opinberra fjármála. Það er því ekki óliklegt að ég muni taka að mér einhver verkefni tengd sveitarstjórnarmálum þegar þar að kemur en það á allt eftir að koma í ljós. Eftir að hafa kynnst málefnum Suðurnesja og samfélaginu þar þá gæti ég vel hugsað mér að starfa þar í framtíðinni. Suðurnesin eru spennandi svæði og þar býr og starfar mikið af mjög hæfileikaríku og góðu fólki sem ég  notið þess að vinna með. Mér finnst samt gaman að takast á við ný verkefni og læra nýja hluti svo það er aldrei að vita hvað ég muni gera í framtíðinni. Suðurnesin munu þó alltaf eiga stað í mínu hjarta,“ segir Gunnar Axel, nú fráfarandi bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.


Birgir Örn Ólafsson afhenti Gunnari blómvönd að kveðju í dag. VF/Hilmar Bragi