Flugger
Flugger

Mannlíf

Sprungur og hellar verið leikstaður Grindvíkinga frá örófi alda
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 29. júní 2024 kl. 07:11

Sprungur og hellar verið leikstaður Grindvíkinga frá örófi alda

„Við lékum okkur mikið í þessum sprungum, þær hafa alltaf verið hluti af sögu Grindavíkur,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar en hann man tímana tvenna í Grindavík og á margar æskuminningar frá sprungum og hellum í Grindavík. Eflaust halda margir landsmenn og aðrir að sprungurnar sem komu í ljós í hamförunum 10. nóvember og svo aftur í janúar, hafi orðið til þá en því fer víðs fjarri.

Gunnar Tómasson. VF/SDD

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Gunnar á ófáar minningarnar frá leikjum í hellum og sprungum í Grindavík.

„Það hefur alltaf verið fullt af sprungum í Grindavík og sú stærsta, Stamphólsgjáin, hefur alltaf verið til staðar og verið vitað af henni, þess vegna hefur ekkert verið byggt þar sem vitað var að hún lægi. Sums staðar var hraun komið yfir þessar sprungur en aðrar hafa alltaf verið til staðar, t.d. var Gaujahellir alltaf vinsæll leikstaður okkar barnanna. Ég hef heyrt af mönnum eldri en ég sem voru að leika sér þarna og veit að yngri kynslóðir hafa leikið sér þarna líka. Okkur þótti þetta mjög spennandi, að fara ofan í hella og kanna aðstæður, ég man t.d. eftir einum helli þar sem búið var að innrétta tvö herbergi, búið að setja hurðir og lása, þetta þótti okkur strákunum mjög merkilegt. Þetta virkaði á mig eins og tveggja hæða hús, við vorum niðri og horfðum upp þar sem herbergin voru og svo hentum við grjóti niður og heyrðum þegar það lenti í vatni svo það gefur auga leið að þetta voru risastórir hellar sem hafa alltaf verið til staðar. Ég man eitt skiptið sem við vorum að leika okkur niðri í helli, þá kom  jarðskjálfti og það var ekki þægileg tilfinning að vera ofan í helli þá og við komum grenjandi upp úr honum, logandi hræddir en vorum sammála um að segja foreldrum okkar ekki frá hvað við hefðum verið að gera, þá hefði okkur verið bannað að fara þangað aftur.“

Æskuheimili Gunnars, Gnúpur, er nokkuð neðarlega á Víkurbrautinni en það hús ásamt fleiri húsum í götunni fóru illa 10. nóvember.

Gamlar sprungur í túni í Grindavík. Mynd/Golli
Æskuheimilið Gnúpur neðarlega á Víkurbrautinni. Mynd/Golli

„Þessi stóra gjá eða sprunga, sem liggur í gegnum allan bæinn gekk undir ýmsum nöfnum. Neðst var hún kölluð Þvottagjá og bær þar við hliðina hét Gjáhús og svo kom Brúnkugjá. Húsin sem voru byggð þetta neðarlega voru öll byggð á hrauni sem hafði flætt yfir, æskuheimili mitt lá t.d. á hrauni sem var kallað Strókabyrgjahraun því það voru gervigígar í hrauninu. Alls staðar þar sem vitað var af gjánni var ekki byggt, t.d. fyrir neðan gömlu kirkjuna en þar var áðurnefnd Brúnkugjá. Eitt sinn átti að fara byggja þar en ég benti Grindavíkurbæ á þessa gjá og því var hætt við þau áform svo þegar Búkollu-vörubílinn var að álagsprófa göturnar í Grindavík í febrúar, kom mér alls ekki á óvart að jörðin myndi gefa sig þar og leyfi mér að fullyrða að ef fullhlaðin Búkolla hefði keyrt yfir Brúnkugjá fyrir 10. nóvember, hefði nákvæmlega sami hlutur gerst. Það var fyllt upp í þessa gjá á sínum tíma með hnullungsgrjóti og svo var vegur lagður yfir svo þetta kom ekki á óvart, það sem kom kannski frekar á óvart var fréttaflutningurinn af þessu, það var talað um að Búkollan hefði verið hífð upp úr sprungunni.  Það rétta er að grafa tók allt grjótið af Búkollunni og ýtti svo undir pallinn og Búkollan keyrði svo sjálf upp. Það er svona fréttaflutningur sem hefur ekki hjálpað okkur, þetta gerir fólk hrætt.

Búkolla í sprungu. Mynd/Kristinn Sigurður Jórmundsson

Ég er vongóður um framtíð Grindavíkur, hef trú á að nýja framkvæmdanefndin láti til sín taka en hef áhyggjur af að nefndin hefur ekkert fjármagn úr að spila, það þarf að breyta því,“ sagði Gunnar að lokum.

Austurvegurinn sprunginn eftir jarðhræringar í nóvember 2023. Mynd/Golli