Samkaup
Samkaup

Fréttir

„Húllið“ er nýtt nafn á viðburðartorgi Grindvíkinga
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 10. maí 2020 kl. 10:47

„Húllið“ er nýtt nafn á viðburðartorgi Grindvíkinga

Samþykkt hefur verið að viðburðartorg Grindvíkinga fái nafnið Húllið. Guðmundur Birkir Agnarsson sendi inn tillöguna í nafnasamkeppni sem efnt var til. Heitið er sótt í hafsvæðið milli Reykjaness og Eldeyjar. Röstin er í Húllinu og viðeigandi að viðburðir í Grindavík fari fram í Röstinni eða Húllinu. 

Ákveðið var um miðjan mars að efna til nafnasamkeppni fyrir viðburðatorgið við Seljabót, neðan við Kvikuna. Sem kunnugt er svæðið viðburðasvæði Grindvíkinga og hefur verið það síðan árið 2003 þegar teknir voru í notkun pallar í brekkunni. Meðal viðburða sem fram hafa farið á svæðinu eru Sjóarinn síkáti, hátíðarahöld í tengslum við 17. júní, þrettándagleði auk fjölda annarra viðburða.

Í dagskrá viðburða er reglulega vísað til „hátíðarsvæðisins fyrir neðan Kvikuna“ eða „hátíðarsvæðisins við Seljabót fyrir neðan Kvikuna“. Hvort tveggja þykir langt og óþjált. Því var leitað til bæjarbúa eftir hentugu heiti á þetta verðmæta svæði sem er sameign okkar Grindvíkinga.

Farið var fram á að heitið sem valið yrði skyldi sækja innblástur í sjósókn og sjávarútveg. Frístunda- og menningarnefnd lagði til við bæjarráð að viðburðatorgið neðan við Kvikuna verði nefnt Húllið eftir að hafa farið vandlega yfir þær tillögur sem bárust.

Guðmundur Birkir Agnarsson sendi inn tillöguna varð fyrir valinu og mun hann fá afhenta viðurkenningu fyrir frumlegt nafn á næstu dögum.

Um leið og nefndin ásamt bæjarráði þakkar fyrir þær 65 ólíku tillögur sem bárust frá enn fleiri aðilum er Grindvíkingum óskað til hamingju með nafnið á viðburðartorginu. Húllið mun án efa áfram skapa jákvæðar og góðar minningar, bæði Grindvíkinga og gesta nú, sem fyrr og til framtíðar, segir á grindavik.is.