Samkaup
Samkaup

Fréttir

„Verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum“
Þriðjudagur 1. febrúar 2022 kl. 16:56

„Verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum“

Páll Valur Björnsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Grindavík, lagði fram bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Grindavíkur í tilefni af bréfi Landsnets til Sveitarfélagsins Voga, dags. 8.12.2021, þar sem því er m.a. lýst yfir að skipulagsbreyting Voga sé ekki í samræmi við Svæðisskipulag Suðurnesja 2008-2028. Grindavíkurbær hefur þegar samþykkt framkvæmdaleyfi vegna loftlínu í landi Grindavíkur.

„Samkvæmt lögum þessa lands veita sveitarfélögin í landinu framkvæmdaleyfi af því tagi sem Suðurnesjalína 2 er og fara að auki með skipulagsvald í samræmi við ákvæði stjórnarskrá lýðveldisins. Með því lagafrumvarpi sem lagt var fram á alþingi þann 19. janúar síðastliðinn þar sem framsögumaður var 6. þingmaður Suðurkjördæmis Ásmundur Friðriksson er hreinlega verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum sem í hlut eiga og Suðurnesjalína 2 liggur um. Fulltrúi S-lista tekur heils hugar undir með Ásgeiri Eiríkssyni bæjarstjóra sveitarfélagsins Voga sem m.a. segir í pistli á heimasíðu bæjarins þann 21. janúar síðastliðinn. „Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu Alþingis að svipta sveitarstjórn skipulagsvaldi. Ég hvet því flutningsmenn frumvarpsins sem og þingmenn alla til að staldra við og leita annarra lausna á viðfangsefninu en að þvinga fram ákvörðun í málinu með lagasetningu. Við slíkar aðgerðir sitja allir eftir með sárt enni og óbragð í munni. Traust sveitarstjórnarstigsins og löggjafarvaldsins er í húfi“. Að því sögðu þá vonar fulltrúi S-lista að þessu deilumáli ljúki sem fyrst og á farsælan hátt íbúum á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu til heilla,“ segir í bókun Páls Vals.