Allt tiltækt slökkvilið á Bakkastíg
Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja er nú að störfum á Bakkastíg í Njarðvík. Þar er eldur laus í þaki í stóru atvinnuhúsnæði. Nokkur fyrirtæki eru í húsinu, m.a. fiskvinnsla, veiðarfærageymsla, húsbílageymsla og önnur starfsemi. Þá er þar einnig félagsheimili frímúrara.
Tilkynnt var til Neyðarlínu um eld í þaki hússins og var sent út stórt útkall á allt slökkvilið og varalið Brunavarna Suðurnesja. Nú er verið að rjúfa þak hússins til að komast að eldinum. Nú á tólfta tímanum gekk slökkvistarf vel en seinlegt er að rjúfa þakið.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi nú áðan. Myndskeið frá útkallinu verður sett inn á vf.is á morgun, nýársdag.