Samkaup
Samkaup

Fréttir

Best nýttu póstbox 
landsins á Suðurnesjum
Föstudagur 28. október 2022 kl. 06:59

Best nýttu póstbox 
landsins á Suðurnesjum

– póstboxum fjölgar til muna á næstu vikum á Suðurnesjum

„Það er verið að setja upp póstbox í Sandgerði, Garði og Vogum svo póstboxum fjölgar til muna á næstu vikum á Suðurnesjum. Þá er þriðja póstboxið væntanlegt í Reykjanesbæ. Pósturinn leggur mikla áherslu á að aðlagast hratt og örugglega og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda,“ segir Elín Björg Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri Póstsins á Suðurnesjum. Hún starfar á pósthúsinu við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Póstboxin slegið í gegn

„Við erum þegar með tvö póstbox í Reykjanesbæ og það þriðja er á leiðinni. Bæjarbúar hafa tekið póstboxunum opnum örmum og það er einstaklega góð nýting á fyrstu tveimur boxunum. Þau eru best nýttu póstboxin á landsvísu og ég verð að hrósa starfsfólkinu hér sem hefur verið mjög duglegt að kynna póstboxin fyrir bæjarbúum. Suðurnesjamenn taka yfirleitt vel á móti nýjungum og það hefur sýnt sig með boxin. Þau hafa sannarlega slegið í gegn hér í bænum og það er mjög skemmtilegt.” 

Opin allan sólarhringinn

Hún segir að þetta sé auðvitað þróunin á okkar hröðu tímum tækni og örra breytinga. ,,Það sem er svo þægilegt við póstboxin er að þau eru opin allan sólarhringinn, alla daga ársins. Svo erum við með laugardagsáfyllingar líka þannig að það er fyllt á boxin sex daga vikunnar. Viðskiptavinir geta raunar sótt hvenær sem er sólarhringsins í póstboxin sem er afar þægilegt. Það er líka hægt að senda pakka í póstboxunum sem gerir þau enn nytsamlegri,“ segir Elín Björg. Hún hóf störf hjá Póstinum árið 2019 og tók þá við stöðu stöðvarstjóra á Suðurnesjum. Hún segist sjálf líta á sig sem Njarðvíking fyrst og fremst þótt hún hafi búið fyrstu árin í Grímsnesi. 

 „Við erum alltaf að fylgjast með þörfinni og meta hvort við eigum að stækka póstbox sem eru nú þegar til staðar. Nú er þriðja póstboxið að koma sem bætir þjónustuna enn frekar. Við höfum einnig ráðist í endurbætur á pósthúsinu við Hafnargötu og það lítur ljómandi vel út.“

Fyrirtækjaþjónusta Póstsins aðstoðar í jólatörninni

Elín Björg nefnir að miklar breytingar hafi orðið á póstþjónustu á síðustu árum. „Fjöldi bréfasendinga hefur dregist saman um 74% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Við erum með mjög góða fyrirtækjaþjónustu og ég hvet fyrirtæki hér í bænum til að skoða þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Nú eru jólin að nálgast óðfluga og Pósturinn getur aðstoðað fyrirtæki í jólatörninni. Það eru fjölbreyttar þjónustuleiðir í boði, t.d. getum við komið og sótt pantanir alla virka daga, það eru farnar aukaferðir með pakka og boðið er upp á vöruskil. Ég vil hvetja fyrirtæki hér á Suðurnesjum til að hafa samband við fyrirtækjaþjónustuna okkar,“ segir Elín Björg.

Loks nefnir Elín Björg að breytingar verði á póstþjónustu í Grindavík í janúar næstkomandi. Til stendur að loka pósthúsinu en leggja þess í stað meiri áherslu á annars konar þjónustu á svæðinu. „Breyttir tímar gera kröfu um breytta þjónustu sem við verðum víst að laga okkur að. Viljinn hjá okkur er sterkur til að þróa þjónustuna þar svo hún verði framúrskarandi.“

Ein stór fjölskylda

Alls starfa 22 starfsmenn hjá Póstinum á Suðurnesjum. „Það er góður starfsandi hjá okkur og við erum eins og ein stór fjölskylda. Þetta er frábær vinnustaður. Það er mikil tilhlökkun að demba sér í jólatörnina sem er alltaf skemmtileg þótt það sé mikið að gera á þeim tíma. Við setjum okkur í jólagírinn og tökum vel á móti viðskiptavinum okkar sem koma með pakka eða bréf til vina og ættingja fyrir jólin. Ég vil hvetja fólk til að vera tímanlega á ferðinni með jólapakkana þar sem það er mikið að gera á þessum tíma,“ segir Elín Björg glaðlega að lokum.