Fréttir

Bjóða út tvöföldun til milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns
Mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mynd: Mannvit
Þriðjudagur 7. mars 2023 kl. 18:10

Bjóða út tvöföldun til milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns

Vegagerðin býður út tvöföldun Reykjanesbrautar (41-15) milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Tilboð verða opnuð 5. apríl. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist í maí á þessu ári en áætlað er að verkinu ljúki árið 2026. Myndband af fyrirhugaðri framkvæmd má sjá í fréttinni.

Úboðið heitir; Reykjanesbraut (41-15) Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun. Í því felst lagning Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla og inni í verkinu er einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna.

Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mislæg gatnamót við Straumsvík verða stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu. Einnig verða gerðir eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut og stofnstígur fyrir gangandi og hjólandi milli Hraunavíkur og Straums ásamt tengingu við Straumsvík.

Fimm brúarmannvirki/undirgöng auk undirganga úr stáli eru hluti af verkinu:
• Undirgöng við Hraunavík (A-2738)
• Undirgöng við Hraunavíkurveg (A-2749)
• Undirgöng við Straumsvík (A-2630).
• Undirgöng við Straum (A-2741)
• Brú á tvöföldun Reykjanesbrautar við Rauðamel (A-2740)
• Brú á Reykjanesbraut við Rauðamel (A-2739)
Einnig er um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja.

Tilboð verða opnuð 5. apríl. Ef allt gengur að óskum ætti verktaki að geta hafið framkvæmdir í maí á þessu ári. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið í lok júní 2026.

Verkfræðistofan Mannvit hefur unnið myndband fyrir Vegagerðina þar sem sjá má tölvuteikningu af því hvernig þessi nýi vegkafli Reykjanesbrautar kemur til með að líta út.